23.12.1939
Efri deild: 92. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1258 í B-deild Alþingistíðinda. (2536)

164. mál, fiskimálanefnd

*Frsm. minni hl. (Sigurjón Á. Ólafsson) :

Eins og frsm. meiri hl. gat um, voru menn búnir að mynda sér fastar skoðanir um þetta frv. áður en það kom til nefndar, og því var í n. haldinn sá stytzti fundur, sem þar hefir verið, og þar voru örlög frv. ráðin.

Ég gat ekki fylgt meiri hl. í því að leggja með þessu máli. Það er lagt nokkuð óvenjulegt kapp á þetta mál, og þar sem ég get ekki séð, að það verði til heilla, get ég ekki verið með því af þeim ástæðum. Nú skipa 7 manns fiskimálanefnd. Eru þeir frá aðalflokkum þingsins, eða sama sem, þar sem þeir eru skipaðir 1 frá Alþýðusambandi Íslands, 1 frá Samb. ísl. samvinnufélaga, og 1 frá Félagi botnvörpuskipaeiganda. Auk þess skipa bankarnir sinn manninn hvor, Fiskifélag Íslands 1 og atvmrh. 1. Ég held, að það sé hægt að segja, að þessi skipun n. hafi verið að ýmsu leyti mjög heppileg, þar sem í henni eru fulltrúar frá hinum stærstu stofnunum í landinu og félögum, sem geta haft hagsmuna að gæta í sambandi við sjávarútgerð.

Sá styr, sem stóð um stofnun þessarar nefndar, virðist vera horfinn, og fer ég ekki með fleipur, þó ég segi, að nefndin hafi yfirleitt verið vinsæl og hafi þegið þakkir fyrir störf sín á undanförnum árum. Ég get því ekki skilið, hvaða hagnaður er í því, að fækka nefndarmönnum niður í 3 og að þeir skuli vera einn frá hverjum stjórnmálaflokka þingsins. Það er ekki nokkur vafi á því, að „autoritet“ nefndarinar verður minna með þeirri skipun en hinni, og vitanlegt er, að með slíka nefnd sem þessa, sem starfar að jafnþýðingarmiklu máli, er mikið undir því komað, að menn beri traust til hennar, og traustið minnkar við það, að nefndarmönnum er fækkað. Eina hugsanlega ástæðan er sú, að þarna mætti spara laun til 4 nefndarmanna, og er hún út af fyrir sig virðingarverð, ef víst er, að sparnaðurinn borgi sig. Ég er á þeirri skoðun, að hann mundi ekki borga sig. Hver nefndarmanna hefir 200 kr. á mánuði. Það gæti auðvitað komið til mála að lækka það, sem styrjaldarráðstöfun, og efast ég um, að nefndin í heild mundi hafa á móti því. Ég hefi jafnvel orðið var þeirrar skoðunar, og getur vel verið að það sé skoðun n. í heild, að þeir séu tilbúnir að vinna kauplaust. Ef hér er aðeins um ráðstafanir til sparnaðar að ræða, held ég, að málið hefði gott af því, að ráðh., sem fer með þessi mál, kynni sér hug nm., og hvað þeir vilja leggja í sölurnar í þessu efni. Ég segi þetta vegna þess, að ef eina ástæðan er sú, að spara, er tilganginum með þessu náð.

Það mætti yfirleitt tala langt mál um störf fiskimálanefndar, en ég býst við, að málið sé ráðið. En með tilliti til alþjóðar tel ég þær till., sem liggja fyrir, alls ekki til hagsbóta, og þess vegna á móti því, að nefndin sé skert. Ég tel yfirleitt, eins og málið liggur fyrir, að gott sé að hafa í fiskimálanefnd alla þá aðila, sem þar eru.