23.12.1939
Neðri deild: 93. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1261 í B-deild Alþingistíðinda. (2545)

164. mál, fiskimálanefnd

*Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Þetta mál, sem hér liggur fyrir, virðist nú eiga að verða endir á mjög langri og merkilegri tilraun til þess að koma öðru skipulagi á fisksölu Íslendinga en áður hefir verið. Það er öllum þm. kunnugt, að á fyrsta þinginu eftir að Framsfl. og Alþfl. tóku við stjórn 1934, var þetta langmesta deilumálið, sem fyrir lá. Að undanteknu Kveldúlfsmálinu 1937 hefir sjaldan skorizt eins í odda með flokkunum og um þetta mál. Og það, sem um var barizt, var, hvort ríkisstj. og flokkar þeir, sem mynduðu hana, ættu að fá meiri eða minni yfirráð yfir og eftirlit með fisksölu landsins, bæði saltfisks og annars, eða fáir menn ættu að halda þar því, sem þeir höfðu klófest. Þrátt fyrir öfluga mótspyrnu Sjálfstfl. og stórorð mótmæli Landsbankans var málið afgr. á þinginu. Ég býst við, að hv. þm. muni, hvað gerðist rétt eftir að þinginu var lokið veturinn eftir kosningarnar. Þegar átti að fara að framkvæma þessi lög, sem gáfu fiskimálanefnd vald yfir fisksölunni, risu upp þeir máttarstólpar þjóðfélagsins, sem sölunni höfðu ráðið. og beittu áhrifum sínum gegn því, að lögin mætti framkvæma. Það, sem sérstaklega olli því, að bankastjórn Landsbankans tók að beita sér þannig, var, að eitt togarafélag á landinu hafði með aðstoð þessa banka, mjög miklum lánveitingum þá um árabil, öðlazt að miklu leyti vald yfir öllum saltfisksútflutningnum. Þegar heimskreppan barst hingað 1931 og togarafélagið, Kveldúlfur, fór að missa þau tök, sem það hafði haft á landsmönum, var gripið til þess, 1932, af þeirri bræðingsstjórn íhalds og Framsfl., sem þá sat að völdum og núv. hæstv. atvmrh. og Kveldúlfsforstjóri (ÓTh) átti sæti í, að gefa út sérstök bráðabirgðalög, sem bönnuðu Íslendingum allan útflutning á saltfiski, nema hann gengi gegnum ákveðinn félagsskap, sem þá hafði verið myndaður, S. Í. F., og Richard Thors veitti forstöðu. En Ólafur Thors, bróðir hans, gaf út bráðabirgðalögin, sem ráðh. Þessi ráðstöfun og valdið, sem hún gaf forstj. S. Í. F., miðaði að því að tryggja Kveldúlfi áfram umráðin yfir fiskútflutningi Íslendinga. Það kom í ljós, að þeir, sem höfðu úrslitavald þessara mála í höndum, voru bundnir af hagsmunum hlutafélagsins Kveldúlfs og að sérstaklega hafði stjórn Landsbankans ástæðu til að hlynna að félaginu, m. a. þær, að hún birgði það að lánsfé, — nær öll seðlaútgáfa landsins, en hún er um 12 millj. kr., hefir nú frosið föst sem lán í þessu eina fyrirtæki. — Til þess að ná þessu lánsfé aftur af landsmönnum sem gróða Kveldúlfs varð að veita félaginu einokun á fiskútflutningi þjóðarinnar. Þetta vald, sem bankastjórnin og Kveldúlfur höfðu tekið sér, með aðstoð ráðh., Ólafs Thors, var á þeim tíma talið af nær allri þjóðinni stórum varhugavert, og margir framsýnir menn töldu það hættulegasta valdið í landinu. Af hálfu vinstri flokkanna var því haldið fram í kosningabaráttunni 1934, og það var gert að höfuðmáli kosninganna að brjóta þetta vald á bak aftur. Þessir flokkar fengu meiri hl. í kosningunum. Og fyrsta tilraunin, sem þeir gerðu til að framkvæma þann þjóðarvilja, sem kosningarnar sýndu, er einmitt þessi löggjöf um fiskimálanefnd, sem nú á að taka til annarar og öðruvísi meðferðar, löggjöfin, sem ég minntist á, að sett var í trássi við mótspyrnuna frá máttarstólpum þjóðfélagsins, og hún var ekki aðeins bein framkvæmd þjóðarviljans, heldur og tvímælalaust það merkilegasta, sem eftir það þing lá.

En viti menn. Rúmum mánuði eftir að þm. eru komnir heim af Alþingi um veturinn eru gefin út bráðabirgðalög af Haraldi Guðmundssyni atvmrh. til að breyta hinum nýju l. um fiskimálanefnd. Þess munu fá dæmi, að bráðabirgðalög séu gefin út svo skömmu eftir þingslit, og hins munu enn færri eða alls engin dæmi í sögu þingræðislanda, að svo fljótlega útgefin bráðabirgðalög séu sett þvert ofan í meginatriði laga, sem þingið hafði einmitt verið að setja. Slíkt er fyrirlitningarstorkun við þingræðið og hlýtur að eiga djúpar rætur í öfugri þróun okkar þjóðfélags. Það er því sérstaklega fróðlegt að athuga þær breytingar, sem gerðar eru í bráðabirgðalögunum. Með l. eins og Alþingi hafði gengið frá þeim voru fiskimálanefnd tryggð völd yfir útflutningnum. Það, sem Landsbankastjórnin og Sjálfstfl. börðust móti, var, að Kveldúlfur og fiskhringurinn á Íslandi áttu ekki lengur að ráða yfir saltfisksútflutningnum. Þau bráðabirgðalög, sem ÓTh. hafði fyrr gefið út, tryggðu fiskhringnum valdið. Þau bráðabirgðalög, sem — H. G. gaf út, áttu enn að tryggja sömu aðilum valdið á saltfiskútflutningnum, en taka það af fiskimálanefnd. Það, sem meiri hluti þjóðarinnar hafði knúið fram á nýloknu þingi, var H. G. beinlínis fyrirskipað að geri ónýtt, og fyrirskipunin kom frá bankaráði Landsbankans. Það sýndi sig óvenju glöggt í sambandi við þetta mál, hve litlu Alþingi réð í slíkum efnum. Jónas Jónsson, hv. þm. S.-Þ., hafði þá áður um veturinn skrifað alllanga ritgerð, þar sem hann vildi sýna og m. a. sanna með þessu dæmi um fiskimálanefnd, að Alþingi væri húsbóndi á sínu heimili, — að það hefði þarna samþ. lög þvert ofan í vilja Landsbankastjórnarinnar og fiskhringsins. J. J. notaði einmitt þetta orðatiltæki „húsbóndi á sínu heimili“, um sjálfstæði og djarfleik Alþingis. Þessi áherzla hans á húsbóndavaldinu kom fram af því, að ég hafði í svargrein til hans sagt, að Alþingi lyti boði og banni Landsbankastjórnarinnar. Þessi ritgerð hv. þm. S.-Þ. kom út einmitt rétt eftir að Alþ. hafði lokið störfum og afgr. þetta mál á þann hátt, sem ég hefi nú sagt frá. En rétt um sama leyti berst út um byggðir landsins sem vísdómsorð Framsóknar yfirlýsing um, að Alþ. hafi nú sýnt húsbóndarétt á sinu heimili, en þá hafði hæstv. þáv. atvmrh. (HG) eyðilagt það, sem Alþ. hafði samþ. Í atvinnumálaráðun. hafði hann getið út bráðabirgðal. beinlínis til þess í senn að eyðileggja þau l., sem Alþ. hafði samþ., og til þess að framkvæma þær till., sem Landsbankastjórnin hafði gert. Þetta sýnir, að Alþ. var alls ekki húsbóndi á sínu heimili, ríkisstj. var ekki einu sinni húsbóndi á sínu heimili, — þeir, sem réðu og fyrirskipuðu, voru Landsbankastj. og fiskhringurinn, og það, sem ríkisstj. gerði, var að hlýða þeim fyrirskipunum, og þm. og Alþ. urðu að beygja sig undir þær á eftir, þó að Alþ. hefði þarna í eitt skipti þorað að framfylgja sínum eigi vilja, en það var ekki látið staðar nema í þessum málum án þess að brjóta hann á bak aftur. Þannig er það þá tilkomið, að l. um fiskimálanefnd voru skert undir eins og Alþ. hafði samþ. þau, og helmingurinn af því valdi, sem fiskimálanefnd hafði öðlazt með l. frá Alþ., var tekið af henni ettir skipun Landsbankans og samkv. vilja fiskhringsins með bráðabirgðal. frá hæstv. atvmrh. Þessi frammistaða hv. þm. Seyðf. (HG), sem þá var atvmrh., var fyrsta sporið til undanhalds og uppgjafar af hálfu þáv. stj. Framsfl. og Alþfl. gagnvart Landsbankavaldinu. Þessi bráðabirgðal., sem sviptu fiskimn. helmingnum af hennar valdi, voru fyrsta uppgjöfin á þeirri stefnuskrá, sem Framsfl. menn og Alþfl.-menn voru kosnir á þing árið 1934 til að framkvæma. Áframhaldið af því undanhaldi, sem þá var hafið af hálfu ríkisstj., sást svo á næstu árum á eftir koma hvað greinilegast fram, síðan í Kveldúlfsmálinu á Alþ. 1937, og eftir kosningarnar það ár í uppgjöf gagnvart togaraútgerðarmönnunum, með l. um gerðardóm í togaradeilum 20. marz 1938, þegar Alþfl. dró ráðh. sinn út úr ríkisstj. En undanhaldið og uppgjöfin fyrir fiskhringnum og Landsbankavaldinu var svo fullkomnað með þeirri ríkisstj., sem mynduð var 18. apríl 1939, þar sem Alþfl. og Framsfl., eftir að hafa gefizt upp við öll sín stefnuskrármál, settust í ríkisstj. með hv. þm. G.-K. (ÓTh) og mynduðu þessa stj., sem nú lætur leggja fram þau frv., sem hér ræðir um.

Það er óhætt að segja það, að að sumu leyti endurspeglist í sögu fiskimálanefndar öll sorgarsaga Alþfl. á síðustu 5 árum. Þegar þetta frv. liggur hér fyrir, þá felst í raun og veru í því að svipta burt því síðasta af yfirráðum Alþfl. eða þeirra stofnana, sem að einhverju leyti mætti vænta, að myndu beita sér móti fiskhringnum. og Alþfl. gæti haft einhver áhrif á. Fiskimálanefnd eins og hún var upprunalega skipuð var í raun og veru undir forustu Alþfl. Vald hennar var að vísu nokkuð skert með því að saltfisksútflutningurinn var af henni tekinn og fenginn fiskhringnum í hendur. En engu að síður hélt fiskimálanefnd samt nokkru valdi, og var veitt til hennar allmiklu fé, og hún hafði þó nokkra möguleika til þess að beina að einhverju leyti í heppilegri átt fiskframleiðslu og fiskútflutningi landsmanna. Fiskimálanefnd var, ef svo mætti segja, ein sú helzta valdaafstaða, sem Alþfl. hafði öðlazt í sambandi við stjórnarsamvinnuna 1934, eða a. m. k. sú eina valdaafstaða, sem að einhverju leyti gat orkað á að breyta fyrirkomulagi sjávarútvegsins á Íslandi. Alþfl. gat reiknað sér nokkra valdaafstöðu innan hennar.

Togstreitan, sem þarna var háð milli fiskhringsins annarsvegar og vinstri aflanna í landinu hinsvegar, sem voru því mótfallin, að ein einasta litil klíka manna gæti sölsað undir sig allan fiskútflutning landsmanna og ráðið yfir honum svo að segja alveg, sú togstreita milli þessara tveggja afla kom einna greinilegast í ljós einmitt í sambandi við löggjöfina um fiskimálanefnd og hvernig þeirri löggjöf reiddi af. Nú er það vitanlegt, að löggjöfin um fiskimál og sjávarútvegsmál á Íslandi hefir frá upphafi verið eitt hið allra þýðingarmesta mál, sem Alþ. Íslendinga hefir fjallað um. Það er vitaskuld vegna óstjórnar á þessu sviði, að svo kynni að vera sagt með réttu af þeim, sem sögu þjóðarinnar þekkja í seinni tíð, að útgerðarfyrirtækin hljóti að verða fyrir sérstaklega miklum og tilfinnanlegum áföllum. Ein af aðalröksemdum Framsfl. og Alþfl. meðan þessir flokkar börðust fyrir því að hnekkja valdi fiskhringsins á Íslandi, voru þau geysilegu töp, sem óstjórnin á fiskimálunum hafði valdið landsmönnum. Ef menn lesa t. d. „Tímann“ frá því 1920 fram til ársins 1938, þá sést, að varla hefir komið svo út eitt einasta blað af honum, að þar væri ekki rituð grein um óstjórnina á fiskimálunum á Íslandi, og var það sérstaklega hv. þm. S.-Þ. (JJ), sem skrifaði þessar greinar. Frá árunum 1920–1930 gengu þessar greinar út á það að sýna, hvernig fiskhringurinn, sem þá var kallaður Coplands-hringur, og Íslandsbanki, sem birgði þann hring upp af fé, hefðu tapað af þjóðarfé svo tugum millj. kr. skipti. Á árunum milli 1920–1930 reiknaði hv. þm. S.-Þ. það út sýknt og heilagt, að völdum þessa fiskhrings yrði að hnekkja og að bankann, sem bak við hann stæði, yrði að gera upp. Ég þarf ekki að rekja sögu Coplands-hringsins og Íslandsbanka á þessum árum, því að hún er allri þjóðinni svo kunn. Þessi sama saga, sem gerðist á þeim árum og kennd er við Copland og Íslandsbanka, hefir verið að endurtaka sig allan þennan áratug frá 1930–1939, — þar er bara Kveldúlfshringurinn, sem kemur í stað Coplands-hringsins og Landsbankinn í stað Íslandsbanka. Hinsvegar hefir það merkilega gerzt í því sambandi, að þeir menn og þeir flokkar, sem lengst af börðust á móti Copland-hringnum og Íslandsbanka og töluðu sýknt og heilagt um, hvílíka spillingu þessir aðilar hefðu haft í för með sér gagnvart íslenzku fjármálalífi, þessir sömu aðilar, sem framan af þessum áratug töluðu hæst um Kveldúlfshneykslið hér á Íslandi, þeir hafa nú á síðustu árum steinhætt öllum áróðri og öllum afhjúpunum í sambandi við þetta mál, og jafnvel gerzt verndarar þessa sama hneykslis, sem þeir áður fundu ekki nein nógu sterk orð til þess að fordæma. Þeir gerast nú, sem þátttakendur í núv. ríkisstj. og með því frv., sem hér liggur fyrir, tortímendur sinna eigin afkvæma. Fiskimálanefnd var þó a. m. k. tilraun til þess að skapa eitthvert vald á sviði sjávarútvegsins á Íslandi, sem nokkuð gæti vegið upp á móti fiskhringnum. Vald þeirrar n. var að vísu, eins og ég hefi þegar rakið, skert mjög mikið með þeim bráðabirgðal., sem gefin voru út árið 1935 af þáv. atvmrh. (HG), en engu að síður hélt þessi n. samt allmiklum völdum hér heima á Íslandi og gat ýmsu til vegar komið. Nú hinsvegar liggur það auðsætt fyrir þessu þingi, að ef það ætti að hlýða þjóðstj. í þessu sem öðru, yrði það að skera þessa n. nokkurn veginn niður, og svipta þá sérstaklega þann flokk, sem um tíma stjórnaði þessari n. í raun og veru, Alþfl., eða hafði a. m. k. forustu í henni, þeirri afstöðu, sem hann þar lengst af hefir haft. Hér liggur fyrir frv., sem bæði breytir samsetningu þeirrar n. og öðru, svo sem sjá má á þskj. 552, og sviptir einnig brott miklu af því fé, sem til hennar er lagt. Hvernig er ætlazt til, að n. verði skipuð eftir því frv., sem hér um ræðir? Það er gefið til kynna, hvernig sú skipun yrði, eins og yfirleitt hjá þjóðstj. Það má ganga út frá því sem vísu, að hún muni taka valdið úr höndum þeirra stofnana, sem að einhverju leyti hefðu verið í sérstöku sambandi við sjávarútveginn, eða að einhverju leyti væri hugsanlegt að hefðu sérstaka ástæðu til að hafa auga með, þó ekki væri nema smámálum í sambandi við hvernig farið sé með fiskimálin, því að eins og kunnugt er, eru bankarnir þær stofnanir, auk Sölusambands íslenzkra fiskframleiðenda, sem hafa áhrif á það, hvernig þessum hlutum er skipað. Þessar stofnanir eru allar meira eða minna háðar togaraútgerðinni, og það er þess vegna mjög vel hugsanlegt, að fulltrúar frá þessum stofnunum fari í einstöku atriðum eftir vilja þeirra manna, sem að sjávarútgerð standa. Fjöldi af þeim, sem þar eiga hagsmuna að gæta, álítur það jafnvel sérstaklega brotlegt að hafa sína eigin sannfæringu og skoðun, sem menn mynda sér sjálfir. Þetta frv. stefnir að því að afstýra slíkri hættu fyrir þjóðstjórnina, því að það má með engu móti velja neina menn frá þeim stofnunum, sem standa sérstaklega að sjávarútgerð eða hafa samband við samtök fjöldans og gætu haft áhrif á hvað þar gerist. Nú eiga það að vera þrír stærstu þingflokkarnir, sem eiga að hafa áhrif á skipun fiskimálanefndar, og það á að verða alveg einskær flokkspólitísk stj. í þeirri n. Það er auðvitað alveg vitanlegt, að hverju stefnt er með þessu, eftir að Framsfl. er orðin íhaldinu algerlega samdóma um Kveldúlfshneykslið og að viðhalda valdi fiskhringsins, og um að halda verndarhendi yfir svindli Landsbankans. þá gefa þessir tveir flokkar með tryggingu sinni þröngri samstjórnarklíku völdin yfir hvaða smáatriði, sem um er að ræða í landinu. Þess vegna er þetta frv. borið fram á Alþ. um að setja nú aðeins þrjá menn í fiskimálanefnd, og láta skipa hana af þrem stærstu þingflokkunum. Auðséð er, að hverju stefnt er með þessu.

Það er stefnt að því, að rífa niður að miklu leyti það síðasta, sem raunverulega var eftir af fiskimálanefnd, og viðleitni Alþ. 1935, eða þeirra flokka, sem mynduðu meiri hl. þess, til að skapa nýtt viðhorf í sjávarútvegsmálum Íslendinga. Það er náttúrlega ekki aðeins í samræmi við annað, sem fram hefir komið á þessu þingi, heldur líka í beinu samræmi við það, sem áður hefir verið rætt um hér í sambandi við hagsmunamál og réttlætismál fólksins. Þau réttindi eru sífellt rýrð meir og meir, sem samþ. höfðu verið á Alþ. 1931–1937, og þarna er verið að stefna að því með þessu frv. um fiskimálanefnd að hindra það, að nokkur hætta gæti verið á, að samtök fólksins kynnu að hafa nein minnstu áhrif á skipun sjávarútvegsmála Íslendinga. Það þarf þess vegna ekki sérstaklega að rökstyðja frekar þá ástæðu, sem liggur til grundvallar því, að þetta frv. er komið hér fram. Ég ætla bara til viðbótar að segja þeim hv. þm., sem hlusta á mái mitt, frá því, hvernig þetta frv. er komið til okkar hér í hv. Nd. Þetta frv. var í gær afhent fjhn. í hv. Ed. á vélrituðu blaði. Fjhn. var sagt af hæstv. ríkisstj. að skrifa undir þetta sem sitt álit. Meiri hl. n. gerði það, og málið var sett undir eins með afbrigðum til 1. umr. Síðan var meiningin að knýja málið fram gegnum allar þrjár umr. í hv. Ed. í gær. Það var lögð sérstök áherzla á það, að málinu yrði ekki vísað til n., en þá gaf einn hv. þm. í Ed. þær upplýsingar, að í rann og veru hefði sú n., sem bar fram frv., ekki fengið að líta yfir það. og því síður afhugað það eða íhugað, og þess vegna var lagt til, að því yrði vísað til nefndar. Það gekk svo fram af þm., þegar þeir höfðu fengið þessar upplýsingar, að ýmsir tóku undir þá kröfu, að þetta frv. fengi þinglega afgreiðslu. Meining hæstv. ríkisstj. var sem sé í fyrsta lagi sú, að fyrirskipa fjhn. að flytja málið sem mál nefndarinnar, og í öðru lagi að knýja málið fram nefndarlaust gegnum Ed., án þess að n. eða nokkrir þm. fengju að athuga það. Þetta frv. var ekki prentað fyrr en eftir að því hafði verið útbýtt í Ed. og búið var að setja það þar á dagskrá. Hv. þm. höfðu engan tíma haft til þess að athuga málið. Með þessari óþinglegu afgreiðslu, sem hæstv. ríkisstj. heimtaði á þessu máli, hugðist hún að knýja málið í gegn, en þetta gekk svo fram af hv. þm. í Ed., að þeir vísuðu málinu til n. En svo daginn eftir var þess krafizt, þar sem hér væri um stórmál að ræða, að það yrði afgr. með afbrigðum við 2. og 3. umr. í Ed. Að vísu er ekki ljóst ennþá, hvaða afgreiðslu það eigi að fá hér í hv. Nd., en eftir vilja hæstv. ríkisstj. og framkomu hennar í hv. Ed. í gær, þá yrði maður ekki neitt sérstaklega hissa á því, þó að slík óþingleg afgreiðsla færi fram hér. Eg nefndi þetta hér sérstaklega með tilliti til þess, að þar eð þetta verða síðustu Alþt., sem prentaðar verða umr. í fyrst um sinn, þá kæmi það þar greinilega í ljós, hverskonar aðfarir það eru, sem hæstv. ríkisstj. hefir í frammi gagnvart Alþ. Íslendinga á því herrans ári 1939, að hún ætlar sér að knýja áfram ekki aðeins þetta eina frv., heldur heimtar hún 3 eða 4 l. afgr. á þennan sama hátt. Þetta sýnir þá lítilsvirðingu sem hæstv. núv. ríkisstj. hefir

fyrir þingræði yfirleitt, — það er bara hennar vilji, sem þarna gildir. Hv. þm. eru í hennar augum ekki menn, sem samkv. stjsk. eiga að hafa sína sannfæringu, hafa umboð kjósenda, athuga grandgæfilega og breyta frv., sem fram koma á Alþ., heldur eru þm. að áliti hæstv. ríkisstj. piltar, sem eiga að taka við vélrituðu blaði frá einhverjum „kontorista“ ríkisstj., samþ. þetta blað umr.-laust, nefndar- og athugunarlaust, og afgr. það með margföldum afbrigðum sem l. frá Alþ. Þetta er virðingin, sem hæstv. ríkisstj. ber fyrir Alþ. Íslendinga á því herrans ári 1939. Hæstv. ríkisstj. þykist alveg sérstaklega til þess kjörin að gæta þingræðisins, vernda lýðréttindi og slá skjaldborg um þau mannréttindi, frelsi og sjálfstæði, sem íslenzka þjóðin hefir aflað sér. Þetta vildi ég hafa látið koma fram einmitt í sambandi við umr. um þetta mál hér í hv. Nd., til þess að alþýða manna gæti gert sér ljóst, hvað núv. ríkisstj. er að gera úr Alþ. Íslendinga með sínu framferði. Hún er að gera Alþ., sem á að hafa löggjafarvaldið, viljalaust verkfæri í höndum ríkisstj., sem ekki einu sinni stjórnar sér sjálf, stj., sem lætur stjórnast af áleitinni klíku fjármálamanna, sem hafa sölsað undir sig völd yfir þjóðinni, ekki í krafti eigna sinna. heldur hafa þeir sölsað þau undir sig í krafti skulda sinna, og það ekki skulda, sem þeir hafa sjálfir fengið einhverstaðar í útlöndum og bera sjálfir ábyrgð á, heldur í krafti skulda, sem þeir hafa fengið að láni hjá Landsbankanum og íslenzka þjóðin á að bera ábyrgð á. Þannig er nú ástandið orðið, sem við eigum við að búa, og það litla frv., sem hér liggur nú fyrir, og meðferð þess hér á Alþ., er dálítilspegilmynd af.

Ég vildi láta þetta koma fram strax við 1. umr. þessa máls, vegna þess að ég hefi hugsað mér að greiða atkv. móti því til 2. umr. Þó mun ég verða með því, að það verði sent til n., ef það er meiningin. Hinsvegar væri þetta mál vel þess vert, að það væri rætt dálítið betur um það. Ég mun láta allar frekari aths. við þetta frv. bíða, þar til það kemst til 2. og 3. umr.