23.12.1939
Neðri deild: 93. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1269 í B-deild Alþingistíðinda. (2551)

164. mál, fiskimálanefnd

Einar Olgeirsson:

Mig langar til, í sambandi við það, sem hæstv. viðskmrh. sagði, að spyrja hann að því, hvaða aðilar hefðu sótt þetta mál af kappi. Mér skildist á því, sem hann sagði, að Framsfl. ætti ekki upptökin að þessu máli og honum væri ekkert kappsmál að koma því fram. Viðvíkjandi því, sem hæstv. viðskmrh. sagði um sparnað í þessu sambandi, þá vildi ég leyfa mér að mega skjóta því fram, að svo virðist, sem Framsfl. leggi mikið upp úr því að spara í sambandi við nefndir, sem starfa í þágu ríkisins. Ennfremur vil ég spyrja að því, hvort ekki sé hugsanlegt að fá samskonar sparnað með því að minnka laun manna við ýmsar opinberar stofnanir, og beinlínis að ríkið taki að sér að sjá um þetta verk fyrir lægri þóknun

en verið hefir. Ég vil leyfa mér að benda hæstv. ráðh. á þá leið til sparnaðar, að fá núv. meðlimi fiskimálanefndar til þess að vinna fyrir lægri laun. Það má ganga út frá, að 7 menn séu betur starfi sínu vaxnir en 3 menn, og ef ríkisstj. er kappsmál að koma með sparnað úr þessari átt, er æskilegt að fá að njóta starfskrafta allra 7 nm. áfram, en þó fyrir lægra gjald.