03.01.1940
Neðri deild: 101. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1273 í B-deild Alþingistíðinda. (2560)

164. mál, fiskimálanefnd

*Atvmrh. (Ólafur Thors) :

Mér þykir rétt að svara hv. 6. landsk. Ég geri það með miklu færri orðum og kem ekki svo víða við sem í rauninni þyrfti, ef tími væri til. Hann taldi, að fyrir mér hlyti að vaka að rýra gengi n., því að ekki væri breytingin til þess að spara fé. Hann taldi, að ráðh. væri í sjálfsvald sett, hvaða kaup hann heimilaði að greiða nm., og fullyrti, að hann gæti skipað þeim að vinna fyrir ekkert. Ég held það sé ekki borgaraleg skylda að vinna í nefndinni. Og ef mennirnir eiga að fá greiðslu fyrir sína vinnu, er hægt að komast af með minni laun fyrir 3 menn en 7. Ef það er talið fært á ófriðartímum að hafa 5 menn til þess að stjórna landinu, ættu að nægja 3 í fiskimálanefnd. Hv. þm. (EJ) gat upp á því, að ég mundi óska, að hann gengi úr n. Ég get ekki neitað því; að ef ég ætti að velja menn í n.. mundi ég ekki velja hann. En ég geri ráð fyrir, að hann standi hverjum hinna á sporði, sem nú eru þar. Aðalatriðið er, að ég tel nóg að hafa 3 menn til að stjórna starfsemi n., ef þeir eru sæmilega valdir. Þá komst hv. þm. að þeirri niðurstöðu, að Sjálfsfl. hafi alltaf verið á móti n. og vilji því draga störf hennar saman. Til þess þyrfti alls ekki að fækka nm., því að ráðh. getur án þess minnkað störf hennar svo sem vill. En það er ekki nóg, að hv. þm. komi með tilefnislausar getsakir um það, sem ekkert liggur fyrir um, heldur fer hann rangt með staðreyndir. Hugmyndin um fiskimálanefnd er

ekki Alþfl. og Framsfl. Ég flutti frv. um hana fyrstur, á þingi 1934, en þessir flokkar tóku þá hugmynd eins og fleira og framkvæmdu hana ettir sinu höfði, nokkuð öðruvísi en ég taldi ráðlegt. Andstaða mín og Sjálfstfl. kom ekki af mótspyrnu við málið, heldur við framkvæmd þess og ýmsar aðgerðir n., sem ráðh. hefir vald til að banna henni, en leggja fyrir hana aðrar framkvæmdir, sem ýmsir munu telja, að hún hafi vanrækt. Ég vildi gjarnan, að mér gæfist kostur á að rannsaka betur en áður, hvaða framtíðarskipulag ætti að vera á þessum málum. Hér eru starfandi S. Í. F., Fiskifélag Íslands, fiskimálanefnd, farmanna- og fiskimannasamband, landssamband útgerðarmanna og svo ráðuneytið, sem þetta heyrir allt undir meira og minna. Ég held það væri rétt að bera fram skynsamlegar till. um, hvernig hægt væri að sameina þetta betur en er. Með þessu vil ég ekki lofa að flytja inn á Alþingi till. til úrbóta. En ég get sagt eins og er, að ég hefi verið ánægður með margt í starfsemi fiskimálanefndar og óánægður með annað, og ég get sagt, að með starf Fiskifélagsins hefi ég verið mjög óánægður, og er ekki einn um þá óánægju.

Ég held það sé hægt fyrir 6. landsk. að vinna jafnt í n. fyrir því, þótt hann sé einmitt skipaður þar sem pólitískur fulltrúi, eins og hann kvartar yfir að nú verði gert. Mér er ekki kunnugt um að hann hafi unnið þar verr af þeim ástæðum. Hann getur ekki haldið því fram, að nm. þurfi að vera einhver óþverramenni, þótt þeir séu valdir af pólitískum flokkum. — Ég mun aldrei geta sætt mig við það sem atvmrh. að störf n. séu dregin niður, henni og öllum til ógagns, og ekki heldur, að þau dragist saman, nema þá til að færa saman hjá réttum aðila störf, sem saman eiga, og að síður mundi ég vilja leggja n. niður, að ég mundi þá telja mig fósturbana. Það eru ekki nema tveir mánuðir, síðan ég lagði á það gjörva hönd að samþykkja, að n. keypti skip til flutnings á hraðfrystum fiski. Ég held, að Alþingi geti sannfærzt um, að ég mundi ekki vilja gera neina breyt. á störfum fiskimálanefndar án þess að geta stutt hana fullum rökum, bæði fyrir sjálfum mér og öðrum. Því betra verki sem n. skilar, því betur mun ég styðja hana. En mér ber ekki að líta svo á sem atvmrh., að 7 manna n. hljóti að vera betri en 3 manna nefnd.

Ég skal að lokum taka fram, að sú yfirlýsing, sem ég gaf hv. þm. Ísaf., gefur ekkert til kynna um það, að ég hafi sérstakar fyrirætlanir viðvíkjandi n., einungis að ég vil ekki binda hendur mínar neitt um framkvæmd þessara laga, fyrr en ég er búinn að athuga málið betur en mér hefir enn unnizt tími til.