04.01.1940
Neðri deild: 102. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1277 í B-deild Alþingistíðinda. (2570)

164. mál, fiskimálanefnd

*Emil Jónsson:

Það þykir sjálfsagt óþarfi að lengja umr. meir en orðið er. Ég skal ekki heldur vera langorður um þetta mál. Mér virðist aðaltilgangurinn með flutningi frv. koma fram í orðum hæstv. atvmrh., þar sem hann sagði, að sín meining með frv. væri sú, að 3 menn gætu unnið eins vel og 7 menn og afkastað eins miklu. En ég vil þá leggja til, að fækkað verði í fleiri n. úr 7 niður í 3. Eins og fækkað er í þessari n. hlýtur að vera möguleiki til þess að fækka í öðrum. Þess vegna mun ég bera fram við þessa umr. skrifl. brtt. á þá leið, að í n., sem séu algerlega hliðstæðar við fiskimálanefnd, verði nm. fækkað úr 7 niður í 3. Ég vil geta þess, að þetta er að því leyti sanngjarnt, að í löggjöf um afurðasölu er landbúnaði og fiskimálum gert jafnhátt undir höfði. Formsins vegna vil ég einnig leyfa mér að leggja til, að fyrirsögn frv. verði breytt, þannig að hún miðist við efni frv. og taki fram viðkomandi nefndir. Þar með ætla ég, að tilgangur hæstv. ráðh. með frv. náist enn betur, með því að láta ekki fleiri menn en þarf vinna í slíkum n., ef 3 menn afkasti því sama og 7 menn. Það er enginn vafi á því, að ef ekki þarf fleiri menn í fiskimálan., geta 3 menn unnið störf mjólkursölunefndar. Þess vegna leyfi ég mér að leggja til, að aftan við 1. gr. bætist ný gr.: Í mjólkursölunefnd skulu fyrst um sinn eiga sæti 3 menn, tilnefndir af 3 stærstu þingflokkunum“, og einnig að fyrirsögn frv. verði breytt.