04.01.1940
Neðri deild: 102. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1278 í B-deild Alþingistíðinda. (2573)

164. mál, fiskimálanefnd

*Emil Jónason:

Það er ekki rétt hjá hv. 1. þm. Rang., að hér sé um að ræða hefndarpólitík frá minni hálfu. Þetta er eingöngu flutt sem framhald af því, sem samþ. var við 2. umr. þessa máls. Ef hv. d. samþ. mínar brtt., þá skal ég ekki verða því mótfallinn, að fækkað verði í fiskimn. úr 7 og niður í 3. Mér fyndist ekki neitt við það að athuga, þó ýmsir aðilar misstu fulltrúa sína við þessa fækkun. Nefndarmennirnir 3, sem skipaðir yrðu eftir till. 3 stærstu þingflokkanna, myndu gæta jafnt hagsmuna allra. Mér finnst, að í þessu efni sé alveg jafnt á komið með fiskimálanefnd og mjólkursölunefnd. Í báðum þessum n. eru fulltrúar ýmissa aðila, sem ekki hafa eingöngu hagsmuna að gæta, heldur hafa og fulltrúa til ýmissar nauðsynlegrar fagþekkingar. Ég sé enga ástæðu til að mótmæla því, sem hv. 1. þm. Rang. sagði, að mjólkurbúið í Hafnarfirði myndi þá missa sinn fulltrúa. En því yrði ekki vandara um en verstöðvunum sunnanlands, ef fækkað yrði í fiskimálan. Það eiga líka fleiri mjólkurbú fulltrúa en mjólkurbúið í Hafnarfirði, svo það hefir ekki neina sérstöðu að þessu leyti, og gæti, sem sagt, látið þessa 3 fulltrúa gæta hagsmuna sinna.

Ég tel, að með þessari till. minni sé aðeins breytt í samræmi við afurðasölul., og út frá þeirri hugsun eingöngu hefi ég borið hana fram. En að hér sé um að ræða hefndarpólitík, er mesti misskilningur. Ég vil aðeins benda hv. þdm. á þær afleiðingar, sem hljóta að verða, ef farið yrði að láta það sama ganga yfir aðra aðila.