04.01.1940
Neðri deild: 102. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1279 í B-deild Alþingistíðinda. (2576)

164. mál, fiskimálanefnd

*Emil Jónsson:

Ég vil aðeins út frá því, sem hæstv. ráðh. sagði, að í brtt. þeim, sem ég og alþfl. hefðu borið fram við frv. og efni frv. sjálfs, eins og fjvn. bar það fram, væru alls ekki sambærilegir hlutir. Aðalatriði frv. var lýst yfir af hæstv. atvmrh. sjálfum og fleirum hér í d., að það væri fækkun nefndarmanna, og að þessir 3 menn gætu eins vel unnið störf n. og 7 menn. Í beinu sambandi við þetta hefi ég svo borið fram mína brtt. um fækkun í öðrum n., sem líkt er ástatt um. Einnig hefi ég flutt brtt. um fyrirsögn frv. og að það heiti: Frv. til l. um fækkun manna í 2 nefndum.

Í öðru lagi vil ég segja út af ræðu hv. 1. þm. Rang., að hér sé um að ræða einhverja hefndarpólitík af minni hálfu eða Alþfl. út af þeirri till., sem hér var áðan til umr. og sem sumt af var samþ. og sumt fellt, þá er svo langt frá því, að hér sé um nokkra hefndarpólitík að ræða, heldur vil ég láta þessa hv. d. taka afleiðingunum af þeim ályktunum, sem hún hefir gert. (SvbH: Ekki koma afleiðingarnar niður á d.). Það, sem hv. d. getur staðið sig við að samþ., verður hún einnig að standa sig við að taka afleiðingunum af, og það, sem ég fer fram á með minni till., er aðeins það, að hún taki á sig þær afleiðingar, sem svo greinilega eiga að fylgja þeirri samþykkt, sem hér hefir verið gerð, en það er, að í mjólkursölun., sem er hliðstæð fiskimálan., verði nm. fækkað niður í það minnst mögulega, sem væntanlega verður talið þrír menn, eins og í fiskimálan. Enn ein ástæðan, sem borin hefir verið fram, er sú, að um þetta hafi verið gert samkomulag, en það hefir verið rofið, svo bæði ég og aðrir Alþfl-menn erum óbundnir af því samkomulagi.

Það má vel vera, að hæstv. atvmrh. hvetji sína flokksmenn til að samþ. ekki mína brtt., þótt hann og hans flokkur séu henni samþykkir í hjarta sínu, en þá gerir hann það eingöngu til að fá sínu máli framgengt.

Mín yfirlýsing gildir ekki einasta fyrir þessa umr., heldur einnig síðari umr. um þetta mál, og tel ég mig hvorki nú né síðar bundinn af því samkomulagi, sem gert hefir verið um afurðasöluna og fiskimálan., svo þótt sjálfstæðismönnum þyki heppilegra að greiða atkv. á móti minni till., þá tel ég mig óbundinn, hvort sem ég vil greiða atkv. með eða móti þeirra till.