03.03.1939
Neðri deild: 12. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1284 í B-deild Alþingistíðinda. (2590)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

*Einar Olgeirsson:

Ég bjóst satt að segja við þessu af hendi hæstv. forsrh. En mér þykir það hart, að nú skuli eiga á næstu dögum að viðurkenna uppreisnarmenn og innrásarforsprakka sem löglega stjórn á Spáni, meðan höfuðborgin og mikill hluti lands og þjóðar lýtur hinni réttkjörnu lýðræðisstjórn. Það á að heita svo, að hér á þinginu sé lýðræðissinnaður meiri hluti. Og það er undarlegt, ef þingmenn, sem til hans vilja teljast eru ásáttir á, að ekki þurfi nema herforingjasamsæri og innrás til þess, að lýðræðissjórn glati rétti sínum, en landráðamenn eigi að fá hann að gjöf.

Hvað sem stjórnir annara Norðurlanda gera, finnst mér engin gild ástæða til að viðurkenna stjórn Francos. Ég held, að íslenzka stjórnin og þingið hafi ekki gert svo mikið fyrir Spánarstjórn, að það þurfi nú að kóróna það með þessari viðurkenningu. Ég held Ísland hafi verið eina ríkið, sem ekkert hefir gert til að draga úr þjáningum Spánverja, en á öðrum Norðurlöndum hafa bæði þingin og helztu alþjóðarsamtökin í hverju landi lagt fram stórfé ýmist beint til stuðnings lýðveldisstjórninni eða til mannúðarstarfsemi þar syðra. Hér hefir þingið ekkert gert. Eina tillagan, sem fram hefir komið um það, var felld. Og við erum líklega eina þjóðin, sem hefir haft verulegan hagnað af viðskiptum við stjórnina, en vitum, að hjá fasistunum bíður okkar ekkert nema harðvítugasta viðskiptakúgun. Ég vil fyrir hönd Sameiningarflokksins og fyrir hönd allra lýðræðissinna og allra, sem hafa samúð með Spáni, mótmæla því, að fasistastjórnin á Spáni sé viðurkennd.