20.03.1939
Neðri deild: 22. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1292 í B-deild Alþingistíðinda. (2601)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

*Héðinn Valdimarsson:

Ég vildi hér með leyfa mér að leggja fyrir hæstv. forsrh. spurningu, sem hann hefir lofað að svara, ef náð yrði í hann, en ég sé nú, að hann er hér staddur. Fyrirspurn mín varðar utanríkismál, og vil ég spyrjast fyrir um það, hvort ekki sé hægt að gefa þinginn kost á að fylgjast með utanríkismálunum, eins og verið hefir á fyrri þingum. hvort sem þau væru heldur rædd fyrir opnum dyrum eða þá lokuðum, ef það þykir hentugra. Nú eru aðeins 3 þingflokkar, sem eiga fulltrúa í utanríkismálanefnd, og er því engin trygging fyrir því, að hinir flokkarnir fái nokkuð um það að vita, sem þar er gert, og því síður þá þeir, sem samkvæmt úrskurði hæstv. forseta Sþ. eiga að teljast utan flokka. Á ég hér bæði við samninga og samningaumleitanir ríkisstj. og ráðstafanir landinu til tryggingar, ef ófrið ber að höndum, eins og ályktun var gerð um á síðasta þingi. Æski ég þess, að hæstv. forsrh. láti þessi mál koma fyrir þingið, annaðhvort fyrir opnum eða luktum dyrum.

Í öðru lagi vil ég mælast til þess, að hæstv. forsrh. hafi sama fyrirkomulag á þessum málum viðvíkjandi blöðunum og gerist í nágrannalöndum vorum, svo að blöðin geti átt þess kost að fylgjast með því, sem gerist í utanríkismálum þjóðarinnar, þannig, að þagnarskylda sé áskilin um viss mál, og sé hún rofin, þá eigi hlutaðeigandi blöð ekki aðgang að þessum upplýsingum. Ég álít það óþolandi, að blöðin verði að fá á skotspónum allar sínar upplýsingar um slík mál, en geti ekki haft þær frá fyrstu hendi, þannig að þau verði stundum að gefa fólki villandi upplýsingar.

Vil ég fara þess á leit við hæstv. forsrh., að hann athugi þetta.