20.03.1939
Neðri deild: 22. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1293 í B-deild Alþingistíðinda. (2604)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

*Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Um þetta einræðisbrölt, er hv. 3. þm. Reykv. sneiðir að mér um, get ég sagt það, að 40–50 þm. standa að utanríkismálan., og geta þeir, ef þeir óska, gert kröfu til þess, að málin verði ræddi á þingi. Þetta er því einræði nær alls þingsins.

Hitt atriðið er ekki rétt, að blöðin skrifi þannig um utanríkismál sem þau gera af því, að þeim sé lokaður aðgangur að þessum málum. T. d. hafa sum blöð, sem skrifuðu um útlendingana, er hingað komu til að leita fyrir sér um leyfi til námugraftar, ekki leitað til stj. um upplýsingar þessu viðvíkjandi, og heldur ekki um það, er til tals kom nýlega að taka nýtt ríkislán. Þá leituðu þessi blöð upplýsinga hjá þeim mönnum sjálfum, er hingað komu. Ég sé því ekki ástæðu til að veita blöðunum frekari trúnað en verið hefir, nema þau sýni breytingu á sínu háttalagi.

Hv. þm. segir, að annarstaðar á Norðurlöndum sé hafður annar háttur um þetta. Það kann að vera. En það er viðurkennt, að þar hefir það ekki komið fyrir, að blöðin hafi rofið þann trúnað er þeim hefir verið sýndur. En er blöðin tóku því svo sem þau gerðu er ég leitaði til þeirra fyrir ári um að lagfæra þann stíl, er verið hafði á skrifum þeirra um utanríkismál, verð ég að telja, að það sé þeirra að lagfæra framkomu sína, áður en þau krefjast af ríkisstj. aukins trúnaðar.