23.03.1939
Neðri deild: 25. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1295 í B-deild Alþingistíðinda. (2607)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Út af fyrirspurn hv. þm. G.-K. vil ég upplýsa það. að þetta fréttaskeyti hefir verið birt í blaði í Kaupmannahöfn, Arbejderbladet, sem ég hygg, að hafi verið sent frá Íslandi. Ég veit hinsvegar ekki ennþá, hver hefir sent þessa frétt. En ég geng þess ekki dulinn, að þessi frétt, eins og frá henni er gengið í danska blaðinu, skaðar Ísland. En ég get ekki séð á því símskeyti, sem ég hefi fengið frá sendiherra Íslunds í Kaupmannahöfn, hvort þau ummæli, að sennilega sé herskipið Emden sent hingað heim til Íslands til þess að hræða Íslendinga til að verða við kröfum Þjóðverja um flughafnir hér, hafi verið beint höfð eftir forsrh., eða hvort það er ályktun, sem dregin er út frá sjónarmiði þess, sem símskeytið hefir sent. Það er ekki hægt að neita því, að þessi frétt hefir þegar vakið mikla athygli erlendis. Ég get upplýst það hér í hv. d.

En út af þessu hefir ríkisstj. sent skýrslu, sem birtist í íslenzka útvarpinu í dag og þar að auki var send sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn, til þess að hann gæti svarað þeim fyrirspurnum, sem til hans hafa komið út af þessu máll og munu að verulegu leyti standa í sambandi við þá frétt, sem birtist í þessu danska blaði.

Þeirri fyrirspurn er beint til mín af hv. þm. G.-K., hvaða ráð væri til þess að koma í veg fyrir svona skeytasendingar. Um það er því að svara, að eins og okkar lögum er háttað nú, hefir ríkisstj. ekki vald til þess að gera það. Og sömuleiðis eins og okkar löggjöf er háttað nú, þá verður tæpast talið, að þessi verknaður, sem óbeint skaðar landið, sé refsiverður. Samkv. þeim lögum, sem nú gilda sumstaðar á Norðurlöndum um þessi mál, myndi sennilega verða talið, að slík verk sem þessi væru refsiverð. Ég hygg, að það komi undir ákvæði þess frv., sem hér liggur fyrir á Alþingi um breyt. á hegningarlöggjöfinni, en til þess að afstýra, að slíkt sé gert, eru engin lög til nú á Íslandi. Mönnum er frjálst að senda slík símskeyti, nema þegar alveg sérstakir tímar eru fyrir hendi, þá myndi e. t. v. vera hægt að afstýra því.

Nú í svipinn er ekki hægt að svara, hvaða ráðstafanir sé heppilegast að gera til að afstýra slíkum fréttaburði sem þessum. Það kemur til athugunar síðar, ef alþingi þykir ástæða til, og stj. mun að sjálfsögðu íhuga þetta mál, og í gær sneri einn umboðsmaður erlendrar fréttastofu sér til ríkisstj. til þess að vekja athygli hennar á því að tala við alla, sem sendu skeyti til útlanda, um að þeir sýndu þann þegnskap, að senda ekki skeyti, sem væru stórpólitísks eðlis, nema í samráði við sérstakan aðila, sem ríkisstj. tilnefndi, sem mundi hér vera utanríkismálaskrifstofan, og ráðuneytið hefir í morgun geri ráðstafanir til að tala við alla, sem senda skeyti til erlendra blaða, og farið fram á þetta við þá. En til þess að slíkar ráðstafanir séu gerðar, þurfa að mínu áliti aðgerðir alþingis að koma til.

Ég held þá, að ég hafi svarað þessari fyrirspurn svo, að hv. fyrirspyrjandi muni láta sér það nægja.