23.03.1939
Neðri deild: 25. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1298 í B-deild Alþingistíðinda. (2610)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

*Ólafur Thors:

Ég get verið fáorður. — Það gleður mig. að það er nú upplýst, hvaðan þessi landráðastarfsemi er sprottin, og það kom mér ekki á óvart, þó að hún væri runnin frá miðstöð rússnesku kommúnistanna hér á Íslandi, sem hafa Þjóðviljann fyrir opinbert málgagn.

Það er aum vörn hér á Alþingi Íslendinga, að það sé einhver viðurkenning á sönnunargildi frásagnar, að hún hafi staðið í Þjóðviljanum og ekki verið þar mótmælt! Það mætti nú æra óstöðugan ef ætti að fara að mótmæla öllum þeim ósannindum, sem þar eru, þar sem flest er ósatt, sem þar stendur. Það fer enginn til þess, þegar ekki meiri menn en kommúnistar eiga hlut að máli, að svara slíku, því að það vita allir nema kommúnistar, að þetta er almenn regla. sem engum kemur á óvart.

Hæstv. forsrh. hefir nú sýnt fram á, að hér sé um vísvitandi ósannindi að ræða af hálfu þessa hv. þm., og er það nú hans að reyna að afsaka sig, ef hann treystir sér til þess, en ég geri ráð fyrir, að honum gangi það illa. Það er engin vörn, að reyna að segja ósatt frá því hér í d., að eitthvert stórveldi sé með hótanir í garð Íslendinga. Ég á sæti í utanrmn. og fæ þar allar þær fregnir, sem máli skipta um utanríkismál okkar Íslendinga, og mér er ekki kunnugt um, að komið hafi beint eða óbeint neinar hótanir í okkar garð frá Þýzkalandi eða neinu öðru ríki, hvorki í sambandi við þetta mál eða önnur. Hitt getur verið, að gera megi Íslandi örðugra fyrir með því að reyna að spana upp önnur ríki gagnvart okkur. eins og gert er vitandi vits af kommúnistum nú að þessu sinni, þó að ég voni. að ekki verði tekið meira mark á þeim annarstaðar en hér.

Hv. 5. þm. Reykv. spyr, hverjir það séu, sem skaði landið, aðrir en þeir, sem dylji sannleikann. Það má segja, að það sé að dylja sannleikann að segja vísvitandi ósatt, og get ég að því leyti tekið undir með honum. Þeir, sem dylja sannleikann með því að segja vísvitandi ósatt, þeir skaða sína eigin þjóð, ef þeir eiga þá nokkra þjóð.

Ég mótmæli því algerlega sem rakalausum ósannindum, að blöð Sjálfstfl. hafi á nokkurn hátt verið að draga taum fremur eins stórveldis en annars, nema þá kannske að sérstaklega annað blað flokksins, Morgunblaðið, hafi verið vinveitt Englendingum en þar sker Morgunblaðið sig ekki út úr almennum hugsunarhætti Íslendinga, því að ég viðurkenni, að Norðurlönd og England virðast standa næst okkur Íslendingum að hugsunarhætti. Þetta játa ég, að mér finnst koma sérstaklega fram hjá Morgunblaðinu. Hitt eru hrein ósannindi, að blöð Sjálfstfl. séu á nokkurn hátt að breiða yfir ofbeldisverk, sem framin hafa verið. En ég vil spyrja, hvernig hann og hans flokkur hefir skrifað og talað um ofbeldisverkin og manndrápin í Rússlandi, þessa viðurstyggð, þessa andstyggð, þar sem þjónar Stalíns, eins og þessi hv. þm. er í dag, eru teknir og hengdir án dóms og laga. Ég vil ekki láta hengja menn fyrir skoðanir sínar. Ég vil láta þá lifa, enda þótt þeir séu þjónar Stalins eins og hann og hafi enga skoðun nema þá, sem þeim er sagt að hafa, eða þá eins og hv. 3. þm. Reykv., sem er nú líklega ekki skoðanalaus eins og stendur, þótt að líkindum sé nú farið að fara út um þúfur með það fyrir honum líka.

Ég mun aldrei leggja til né vilja, að bundið sé fyrir munninn á þeim, sem vilja þjóna sannleikanum, en ég vil láta stemma stigu fyrir lyginni, sérstaklega þegar hún er flutt á erlendum vettvangi okkar þjóð til bölvunar. Slíkri starfsemi vil ég sporna við. Þessi maður er staðinn að tvennskonar ósannindum. Það er ósatt, að Þjóðverjar hafi krafizt að fá hér flugvelli, og það er ósatt, að hæstv. forsrh. hafi sagt, að rétt sé að skoða það mál. þegar Emden komi hingað. Hvorttveggja er ekki aðeins blæfölsun, heldur beinlínis málefnaleg stórfölsun, hvorttveggja í einum og sama tilgangi, að gera okkur skaða. Hvernig mundi vera litið erlendis á þau ummæli forsrh. Íslands, að kröfum Hitlers um flugvelli á Íslandi muni verða svarað. þegar þýzk herskip séu komin að ströndum landsins. Á þetta mundi vera litið sem mesta vesaldóm, og kommúnistar eru sekir um að hafa reynt að breiða út, að þessi vesaldómur væri fyrir hendi, setja smánarblett á alla þjóðina og rýra þar með álit hennar út á við. Og til þess að koma þessu í kring hafa þeir sent til útlanda vísvitandi ósatt og falsað skeyti. Yfir slíkt framferði sem þetta er ekki hægt að hafa annað orð en landráð.

Ég tek undir það. sem hæstv. forsrh. sagði, að þessi maður hefir sagt ósatt gegn betri vitund í þessu máli og þjóðinni hefir verið gert tjón með þessu.

Út af svari hæstv. forsrh. við fyrirspurn minni um, hvað hann vilji láta gera í slíkum málum og hvaða vald hann teldi sig hafa í þeim efnum, vil ég aðeins lýsa ánægju minni yfir, að hann virðist hafa gert sér ljóst, að nauðynlegt er að stöðva slíka starfsemi. Ég veitti því athygli, að hann telur sig ekki hafa vald til þess að óbreyttum l., en telur hinsvegar, að fyrir þinginu liggi frv., sem veitti þetta vald, ef að l. yrði. Ég hefi því ekki aðra ósk fram að bera en að þetta frv. nái samþykki Alþingis, svo að við fáum þar vörn gegn þessari starfsemi kommúnista. Hitt skulum við ekki láta okkur dreyma um, — ekki vera þau börn að tala um. hvað þá heldur byggja á þegnskap þessara manna, því að hann er ekki til, því miður.