23.03.1939
Neðri deild: 25. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1300 í B-deild Alþingistíðinda. (2611)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

*Einar Olgeirsson:

Ég held, að hv. þm. G.-K. ætti ekki að tala mikið um þegnskap gagnvart þjóðinni, heldur reyna að rækja sinn þegnskap sem bankaráðsmaður við Landsbankann.

Hv. síðasti ræðumaður hélt því fram, að í skeytinu hefði verið látið skína í, hve mikill vesaldómurinn hefði verið hjá hæstv. forsrh. en þetta er alveg þveröfugt. Það var greinilega tekið fram, að forsrh. hefði svarað, að Þjóðverjar ættu engar kröfur til lendingarstaða hér á landi, og í sambandi við þá samninga, sem gerðir voru 1930, að þeir væru fallnir úr gildi, og í þeirri ræðu, sem ég hélt þá, hefði ég tekið fast undir þetta álit hæstv. ráðh., að það væri rétt að neita Þjóðverjum um þessar kröfur, sem þeir hefðu gert, og afstaða stj. væri þar rétt og ég treysti því, að hún héldi fast við það. Það er því ekkert nema maður og bull að ég sé að gefa hugmynd um vesaldóm hjá hæstv. forsrh. í sambandi við þetta mál.

Svo er það viðvíkjandi Emden. Það var í fyrstu ræðunni, sem hæstv. forsrh. notaði þetta orð. Hann sagði: „verður nánara rætt um þetta. þegar Emden kemur.“ Ég vík ekki frá því, að þetta sagði hæstv. ráðh., og skal standa á því fastara en fótunum, hvernig sem hann reynir að snúa því, að ég heyrði það með mínum eigin eyrum: Ég tók það fram í minni fyrstu ræðu að nefndarmennirnir kæmu með „Dronning Alexandrine“, hitt skildi hæstv. ráðh. psykologiskt, því að allan tímann, sem hann talar, er hann með Emden í huga, er hræddur með sjálfum sér og setur komu Emden í samband við þessa kröfu Þjóðverja um rétt til lendingarstaða hér. Það er því í lausu lofti hjá hæstv. forsrh. og tilvonandi samstarfsmanni í ráðuneytinu, hv. þm. G.-K., þegar þeir eru að bera mér á brýn vísvitandi ósannindi. Það er bezt fyrir þessa menn að stinga hendinni í eiginn barm og athuga, hvernig það er nú í utanrmn. Ég veit, hvernig fundirnir er þar nú. Það er reynt að dylja allt fyrir þjóðinni, en þeir skulu ekki reyna að telja neinum trú um, að þeir séu ekki nægilega nervösir til þess að blanda þessu saman. Það væri ekki illa viðeigandi að skýra frá sannleikanum í þessu máli, skýra frá. hvað smeykir þeir eru í utanrmn. og ráðuneytinu við þessar svokölluðu heimsóknir. Það er bezt fyrir þessa háu herra að tala sem minnst um þetta. Það getur verið, að brosið fari af þeim, þegar öll Evrópa er komin í bál. Þá getur verið, að verði bundið fyrir kjaftinn á þeim (Forseti hringir), svo að ég noti hin þinglegu orð hv. þm. G.-K. (ÓTh: Ég sagði munninn). Ég held, að það sé nú orðið eitthvað öðruvísi hljóðið í hæstv. forsrh. en um daginn, þegar helzt leit út fyrir, að stj. mundi fara sínu fram, hvað sem á gengi.

Þá sagði hæstv. forsrh., að það mundi lítið hjálpa íslenzku þjóðinni, þótt símað væri héðan til danskra kommúnistablaða. Ég skal upplýsa hv. þm. um þetta. Hvað haldið þið, að séu mörg blöð í Danmörku, sem þora nú að birta skeyti. sem eru á móti hagsmunum Þýzkalands? Ég vil biðja ykkur, þegar talað er um ritskoðun, að athuga, hvernig það er í Danmörku. Í haust, þegar Þýzkaland tók Súdetahéruðin, las einn íhaldssamur þingmaður upp í enska þinginu lýsingu af því, hvernig þeir flóttamenn hefðu verið meðhöndlaðir, sem hefðu fengið að komast burtu. Einn ritstjóri Berlingske Tidende citeraði í þessa lýsingu í grein, sem hann skrifaði í B. T. þessa daga. Sama daginn kemur þýzki sendiherrann inn á ritstjórnarskrifstofu B. T. í eigin persónu til þess að gera rövl út af þessu. Og þá er þessum ritstjóra veitt frí frá blaðinu um óákveðinn tíma, eingöngu fyrir það, að hann vitnar í það, sem enskur þingmaður leyfir að segja, þegar hann gefur rétta lýsingu á ástandinu í Tékkóslóvakíu. Líka má minna á, að Social-Demokraten varð fyrir álíka hnekki hvað snerti einn þess bezta journalista. Það er því ekki til neins fyrir okkur að síma til hvaða blaðs sem er réttar upplýsingar við mundum ekki fá þær birtar. Ég býst við, að hæstv. forsrh. viti bezt sjálfur, að danska utanríkismálaráðuneytið hefir komið á nokkurskonar censur í Danmörku, sem öll blöð beygja sig undir af svokölluðum frjálsum vilja, nema Arbejderbladet.

Hæstv. forsrh. þykir gott að nota þetta tækifæri til að lýsa yfir, að hann muni engri fyrirspurn svara frá mér. Ég býst við, að honum þykir yfirleitt gott að vera laus við þær. En mér virðist eins og stemningin er í þinginu nú, þá sé það ekki eingöngu fyrirspurnirnar, sem hæstv. ráðh. og þessi nýi bandamaður hans vilja vera lausir við, — mér virðist, að þeim þyki bezt að vera sem lausastir við þingið. Og svo kemur hv. þm. G.-K. og segir, að ég sé að spana Þýzkaland upp á móti okkur. Mér sýnist nú heldur lítið þurfa að spana nazistastjórnina þýzku upp! Mér virðist hún óspönuð af okkur hafa haft góða lyst á að gleypa hverja frjálsa smáþjóðina af annari. Og svo eru þessir háu herrar, eins og formaður stærsta stjórnmálaflokks landsins, sem ekki stendur betur á verði fyrir sína þjóð en hann gerir, að kalla okkur þjóðleysingja. Hvaða þjóð á hann? Þykist hann vera meiri Íslendingur en ég? Það þýðir ekkert fyrir þessa herra að fara út í samanburð um slíkt. Sagan mun skera úr því og vitna gegn þeim.

Þá kom þessi hv. þm. inn á. hvernig blöð hans hefðu tekið á ýmsum málum, afstöðu þeirra til ýmsra umdeildustu viðburða í heiminum, eins og t. d. Spánarstyrjaldarinnar o. fl. Í raun og sannleika má segja, að Morgunblaðið hafi a. m. k. tekið á þessum málum eins og Ungverska pressan og fleiri slíkir, trúað hinn ótrúlegasta og vitlausasta og úthrópað það. Þannig trúði Morgunblaðið því t. d., þegar Göring lét kveikja í ríkisþinghúsinu í Berlín. að kommúnistar hefðu gert það. Sama var að segja, þegar borgarastyrjöldin á Spáni brauzt út, þá fagnaði Morgunblaðið yfir því og tók þegar afstöðu gegn lýðræðisstjórninni, en með uppreisnarmönnum. Þannig hefir það og alltaf gengið, hafi verið hallað á lýðræðisþjóðirnar, Morgunblaðið hefir jafnan lagzt á sveif með einræðisríkjunum, fagnað þeirra málstað, en fært málstað hinna á verri veg. Jafnaðarmannablöðin hafa þvert á móti reynt að láta allar þjóðir njóta sannmælis, og tekið upp vörn fyrir lýðræðisríkin, þegar blöð sjálfstæðismanna hafa hallað á þau. Það þýðir því ekkert fyrir hv. þm. G.-K. eða aðra nazista að vera að reyna að telja fólki trú um. að blöð þeirra hafi verið eitthvað sérstaklega „fair play“ í framkomu sinni gegn öllum erlendum þjóðum, og sú mun raunin á verða, að enda þótt þau reyni af fremsta megni að breiða út lygi og slúður um alla þá, sem þau telja andstæða sér í skoðunum, þá mun það þó verða sannleikurinn, sem sigrar að lokum.