23.03.1939
Neðri deild: 25. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1305 í B-deild Alþingistíðinda. (2615)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

*Einar Olgeirsson:

Ég vil ítreka það, að hæstv. forsrh. getur afturkallað það, sem hann hefir sagt. en hann getur ekki neitað að hafa sagt það. Ef hann sér, að hann hefir hlaupið á sig, getur bann leiðrétt það, en ekki afneitað ummælum sínum.

Hæstv. ráðh. heldur því fram, að umrætt skeyti hafi skaðað okkur, því að það sé skaðleg, er vinveitt viðskiptaþjóð sé borin slíkum sökum. Halda menn þá, að nazistastjórnin þýzka. sem á einu ári hefir lagt undir sig þrjú sjálfstæð ríki og part af því fjórða, kippi sér upp við það þó að sagt sé í erlendu blaði, að hún hóti? Ríkiskanzlari þessarar stjórnar hefir haft þann sið að undanförnu að kalla til sín menn, sem voru í svipuðum stöðum meðal annara þjóða og hæstv. forsrh. hér, og segja við þá: Ég gef ykkur 24 klukkustunda frest til að láta af hendi land ykkar, og ef það verður ekki gert, læt ég ráðast á ykkur á morgun. — Slíkir kippa sér varla upp við það, þó að minnzt sé á það, að þeir hóti.

Þá kem ég að ræðu hv. þm. G-K. Það kemur úr hörðustu átt, þegar hann fer að prédika það, að þótt menn rífist hér innbyrðis, ættu þó allir Íslendingar að standa saman út á við um það, að skaða ekki þjóðina. Ég verð að segja, að mér blöskrar hræsnin í þessum orðum hv. þm. Þarf að fara að rifja upp fyrir þjóðinni það, sem hann og hans samherjar hafa gert þjóðinni til skaða? Á að fara að rifja upp Spánarmúturnar sem íslenzkir útvegsmenn voru látnir borga? Er svona farið að því að skaða ekki þjóðina? Útvegsmenn hér muna líka eftir verðjöfnunarskattinum. Eða á að minna á það, er útvegsmenn í Vestmannaeyjum ætluðu hér um árið að reyna að selja fiskinn beint til kaupendanna, en eitt útgerðarfélag hér. sem Kveldúlfur heitir, kom í veg fyrir það, samanber Gismondi-múturnar. Á þetta að vera dæmi um það, hvernig Íslendingum beri að standa saman um það, að skaða ekki landið?

Hv. þm. talaði einnig um hinar ógurlegu árásir á þjóðbankann. Ég get minnt hann á það, sem gerðist hér á vetrarþinginn 1935. Þá átti K. F. Í. engan fulltrúa á þingi. En þá var það upplýst í lokuðum þingfundi, að fjmrh. hefði sent skeyti til eins bankans í London, þar sem lýst var yfir því, að ríkið myndi ekki taka frekari lán án hans vitundar og vilja. Einn þm., hv. 1. þm. Reykv., bar þá fram fyrirspurn á þingi út af þessari yfirlýsingu. — og hvað var það þá, sem blöð Sjálfstfl. báru á brýn þeim mönnum, er þá fóru með fjármál landsins? Báru þau þeim ekki landráð á brýn? Þetta getur Sjálfstfl. rifjað upp áður en hann fer í flatsængina til þessara sömu manna.

Þessir menn ættu einmitt að íhuga það. hvernig þeir hafa sjálfir farið með þjóðbankann. En það fer nú að verða nokkuð margt. sem þeir kæra sig ekki um, að rifjað sé upp eða afhjúpað í framtíðinni af því, sem enn kann að gerast. Annars ætla ég að rifja upp aðeins eitt atriði, svo að það komi ekki vitlaust í þingtíðindunum. Hv. þm. hafði það rangt upp eftir mér, að ég hefði talað um, að greinin hefði verið stöðvuð, heldur, að manni hefði verið vikið frá um stundarsakir fyrir að birta greinina.

En svo að ég víki að andúð þeirri, sem hérlend skrif kunna að vekja erlendis, þá er það gefið, að allt, sem við skrifum, andstæðingar fasismans, getur vakið andúð hjá nazistum. jafnvel það. að við mælum ekki með öllum þeirra kröfum. En við Íslendingar verðum að hafa frelsi til að vernda okkar rétt, og við getum ekki tekið tillit til þess, hvað þær ríkisstjórnir telja rétt, sem innleitt hafa nazismann í löndum sínum.

Viðvíkjandi prentvél þeirri, sem hv. þm. minntist á, get ég upplýst lítið eitt viðvíkjandi prentfrelsinu hér á landi. Það er rétt að sænski Kommúnistafl. sendi Sósíalistafl. hér setjaravél að gjöf. Hvers vegna? Af því að flokknum var ómögulegt að fá leyfi til að kaupa sér prentvél. Það hefir engum verið fært, nema hann stæði í sambandi við hina ráðandi stjórnmálaflokka. Á þennan hátt hefir verið reynt að hefta prentfrelsi landsmanna. Og þegar svo er, þá er það eina ráðið, að verkalýðshreyfingin, hvar sem er í heiminum, standi saman um að hindra slíka frelsisskerðingu. Í þessu sambandi er vert að minna á það, að stjórnmálaflokkar hér á landi, sem gefa út stærstu blöðin. virðast hafa samkomulag sín á milli um aðgang að þeim opinberum fyrirtækjum, er þeir ráða yfir, til hagnýtingar fyrir blöðin. Framsfl. notar t. d. ríkisstofnanirnar til að láta þær auglýsa í Tímanum, og eins notar Sjálfstfl. fyrirtæki bæjarins. þó að okkar blöðum sé neitað um auglýsingar frá þessum stofnunum ríkis og bæjar. Svo skiptast þessir flokkar á auglýsingum, þannig að Reykjavíkurbær auglýsir öðruhverju í Tímanum, en ríkisfyrirtækin aftur í Morgunblaðinu. og kemur þá út sú hjákátlega mynd. að t. d. sjúkrasamlag Reykjavíkur auglýsir í Tímanum, en Þjóviljanum er neitað um auglýsingar frá því. Ég vildi aðeins skjóta þessu hér inn í sambandi við það, sem hv. þm. sagði.

Að síðustu vil ég víkja stuttlega að þeim orðum hv. þm. G.-K. er hann sagðist ekki hafa orðið var við, að Morgunblaðið hefði dregið fram neins sérstaks ríkis öðrum fremur. Hann les þá Morgunblaðið illa, ef hann hefir ekki erðið þess var. Allir sjáandi menn hafa t. d. tekið eftir afstöðu Morgunblaðsins til Spánar. Annars er hér ekki um það að ræða, hvort menn halda fram málstað eins ríkis fremur en annars í þeim málum, sem nú er um deilt. Þar sem nazisminn á í hlut, er ekki um að ræða afstöðu sérstaks ríkis, heldur stefnu, ef stefnu skyldi kalla. sem vill eyða þeim grundvelli, sem vér höfum hingað til talið nauðsynlegan til þess að geta lifað menningarlífi, sem vill brjóta niður mannréttindi og annað það, er menn njóta í siðuðum þjóðfélögum. Þetta er ekki venjuleg stefna, svo sem íhald eða frjálslyndi, heldur villimennska, sem allri Evrópu stafar af stórkostlegur háski. Þetta verða menn að athuga. Og það er ekkert til af því, sem við Íslendingar byggjum sjálfstæði okkar og frelsi á, sem ekki stafar hætta af nazismanum. Sá, sem ekki tekur afstöðu á móti nazismanum, er að svíkja þessa hluti. Þýðir ekki að vera að breiða yfir þetta með tali um vinveittar viðskiptaþjóðir. En það er hinsvegar eðlilegt, að þeir, sem vilja koma þessu skipulagi á hér, reyni að dylja þessa hættu, sem af nazismanum stafar. Þeim tekst það bara ekki stundum. eins og t. d. í síðustu kosningum, þegar þeir tóku upp nafnið á Breiðfylkingu Francos.