23.03.1939
Neðri deild: 25. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1307 í B-deild Alþingistíðinda. (2616)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

*Forseti (JörB) :

Umr. eru nú komnar allmikið út fyrir efni það, sem um var að ræða í fyrirspurn þeirri, er hér var borin fram. Það hefir tíðkazt stundum, að bornar væru fram fyrirspurnir utan dagskrár. Hefir þeim þá verið svarað og hafa menn að jafnaði haldið sér vel við efnið. En hér hefir nú umr. slegið mjög á dreif, og hefir verið blandað inn í þær ekki aðeins innanlandsmálum, heldur og erlendum þjóðum. Verð ég að átelja ýms þau ummæli, er hér hafa verið viðhöfð, og ekki sízt ummæli hv. síðasta ræðumanns. Er óþarfi að vera hér með spár um, hvers við kunnum að eiga að vænta í framtíðinni eða draga erlendar þjóðir eða ríkisstjórnir inn í umr. meira en nauðsyn ber til. Vil ég því biðja þá hv. þm., er enn eiga eftir að taka til máls, að taka tillit til þessa og halda sér við umræðuefnið, en sleppa öllu, sem því er óviðkomandi. Annars mun ég hér eftir, er fyrirspurnir verða fram bornar um svipuð efni, sem líkur eru til, að miklar umr. verði um, gera kröfu til þess, að þær verði bornar fram á þinglegan hátt, en ekki utan dagskrár.