25.04.1939
Efri deild: 51. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1315 í B-deild Alþingistíðinda. (2633)

Afgreiðsla mála úr nefndum

Sigurjón Á. Ólafsson:

Mér þykir hlýða að svara nokkru þeim fyrirspurnum, sem komið hafa fram viðvíkjandi þessum málum, sem bæði hafa verið hjá allshn. Eins og kunnugt er, þá komu mál til n. síðdegis á laugardag, en n. hafði ekki svigrúm til fundarhalda fyrr en í gær. Hún hélt þá 2 fundi og tók bæði málin fyrir. Um 82. mál er það að segja, að n. er sammála um, að hún telur allmikilla breyt. þörf á frv., en þær breyt. eru þess eðlis, að n. treysti sér ekki til að gera þær breyt. á svo skömmum tíma, sem er til umráða. N. kallaði hæstv. félagsmálaráðh. á fund sinn og skýrði honum frá agnúum þeim, sem hún teldi á málinu, svo honum er kunnugt um, hvernig málið horfir við frá n. hálfu.

Um hitt málið er það að segja, að í því felast nokkrar réttarbætur handa þeim, sem taldir eru í frv. N. sá sér ekki fært á þeim tíma, sem hún hafði til umráða, að athuga þetta mál þannig, að hún sæi sér fært að gera skynsamlegar till. í málinu, þar sem hún vildi tryggja sér áður, hvað mikil útgjöld þetta hefði í för með sér.