24.04.1939
Neðri deild: 50. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1320 í B-deild Alþingistíðinda. (2647)

Minning látinna manna

forseti (JörB) :

Ég hefi þá sorgarfregn að flytja háttvirtum deildarmönnum, að Þorbergur Þorleifsson alþingismaður í Hólum andaðist í gær eftir þunga legu, tæplega 49 ára að aldri. Á síðasta hausti kom hann hingað suður sjúkur til þess að leita sér heilsubótar, lagðist í sjúkrahús til uppskurðar, en sjúkdómurinn reyndist illkynjuð meinsemd, er svo hafði grafið um sig, að vonlaust var um lækningu. Hann fór heim aftur í desembermánuði, lagðist brátt rúmfastur og var orðinn svo þungt haldinn, þegar Alþingi kom saman í febrúar, að hann gat ekki farið til þings, þótt hann hefði á því fullan hug. Og nú hefir bann hlotið þá hvíld, sem ein fékk létt honum þrautirnar, eins og komið var.

Þorbergur Þorleifsson fæddist 18. júní 1890 að Hólum í Hornafirði, sonur Þorleifs Jónssonar bónda og alþingismanns og konu hans Sigurborgar Sigurðardóttur, bónda í Krossbæ í Hornafirði Þórarinssonar. Hann ólst upp í foreldrahúsum, en sat í Flensborgarskóla veturinn 1905–1906 og þrem árum síðar einn vetur í gagnfræðaskólanum á Akureyri, tók við bústjórn hjá föður sínum 1910, en reisti sjálfur bú í Hólum 1930. Má því heita, að hann hafi alið allan aldur sinn í föðurgarði. Hann átti snemma þátt í félagslífi sveitunga sinna, var einn af stofnendum ungmennafélagsins austur þar 1907 og í stjórn þess jafnan síðan. Í margvíslegum félagsmálum öðrum átti hann drjúgan þátt. Hann var formaður hrossaræktarfélagsins og hestamannafélags Hornfirðinga frá stofnun þeirra, enda var hann mikill hestamaður, átti sjálfur marga góðhesta og hafði orð á sér sem tamningamaður. Í skólanefnd átti hann sæti frá 1926 og í hreppsnefnd frá 1929. Meðan faðir hans, Þorleifur Jónsson, sat á þingi, 1908–1933, gegndi Þorbergur fyrir hann hreppstjórn og öðrum trúnaðarstörfum. Þegar faðir hans lét af þingmennsku 1933, var Þorbergur kosinn í hans stað og átti síðan sæti á Alþingi, hér í þessari deild.

Þorbergur Þorleifsson var frjálslyndur í skoðunum, ötull bóndi, áhugasamur um mál stéttar sinnar og ódeigur að leggja inn á nýjar brautir, sem hann taldi horfa til nytsemdar og fjölbreytni í framleiðslu sveitanna og til styrktar afkomu manna þar. Má þar nefna loðdýrarækt, sem hann tók upp fyrstur manna í sýslu sinni og með góðum árangri. Það mál lét hann og mjög til sín taka á Alþingi og beittist þar fyrir bættri löggjöf á því sviði. Önnur mál, sem honum voru einkum hugfólgin, voru samgöngumálin og byggingamál sveitanna. Hann flutti frumvarp um strandferðasjóð og annað um byggingarsjóði í sveitum. En hann einblíndi þó engan veginn á þau verðmæti, sem í askana eru látin. Skáld og listamenn áttu þar eindreginn málsvara, sem hann var. Hann trúði á hlutverk þeirra manna með þjóðinni og vildi hlynna að þeim á allan hátt.

Þorbergur Þorleifsson var hrekklaus maður, glaðvær og góðviljaður. Slíkir menn verða jafnan vinsælir, hvar sem þeir fara.

Ég vil biðja háttvirta deildarmenn að minnast þessa látna þingbróður vors, sem nú er fallinn frá á bezta aldri, með því að rísa úr sætum sinum. Vér snúum hugum vorum til hins aldraða föður hans og annara ástvina og vottum þeim innilega samúð. [Allir þdm. stóðu upp.]

Fundarstörf fara engin fram hér í hv. deild í dag, og eru öll mál tekin af dagskrá, en sett á dagskrá í sömu röð á næsta fundi d. sem ákveðinn er á morgun, þriðjudaginn 25. apríl, kl. 10 árdegis.