14.12.1939
Efri deild: 84. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1324 í B-deild Alþingistíðinda. (2651)

Minning látinna manna

forseti (EÁrna); Áður en deildin tekur til fundarstarfa vil ég minnast látins fyrrv. þingmanns, sem átti sæti á Alþingi um 5 ára skeið og sat í efri deild. Þessi maður er Jón Jónsson bóndi í Stóradal. Hann andaðist hér í bænum í morgun eftir holskurð, 53 ára að aldri.

Jón Jónsson fæddist á Guðlaugsstöðum í Blöndudal 8. september 1886, sonur Jóns Guðmundssonar, er þar bjó þá, síðar bónda í Stóradal, og konu hans, Guðrúnar Jónsdóttur, bónda og alþingismanns Pálmasonar. Jón Jónsson gekk í lærða skólann í Reykjavík 1902, en fór úr 3. bekk og hætti námi, missti bú í Stóradal 1910 og bjó þar til dauðadags. Jón gerðist snemma áhugasamur um héraðsmál og þjóðmál og varð forustu- og trúnaðarmaður sveitar sinnar og sýslu í flestum efnum. Hreppsnefndarmaður hafði hann verið um langt skeið og oft oddviti nefndarinnar, ennfremur sýslunefndarmaður yfir 20 ár auk margra annara trúnaðarstarfa. Verzlunar- og samvinnumál bænda lét hann og mjög til sín taka, átti frá ungum aldri sæti í stjórn Kaupfélags Húnvetninga og um alllangt skeið í stjórn Sambands íslenzkra samvinnufélaga. Hann var landskjörinn þingmaður á sjö þingum, 1929–1933. Hann átti sæti í stjórn Kreppulánasjóðs frá 1. júlí 1933 til ársloka 1935, en þá var stjórn þess sjóðs fengin í hendur Búnaðarbankanum. Hin síðustu ár var Jón ritstjóri bændaflokksblaðsins Framsóknar, en hann var einn af aðalstofnendum þess flokks, á árinu 1934.

Jón í Stóradal var atkvæðamaður jafnt utan þings sem innan, hygginn og skapfasur, ötull málsvari stéttar sinnar og hverjum manni þrautseigari og eljusamari við þann málstað, er hann taldi réttan.

Ég vil biðja háttv., deildarmenn að votta minningu þessa merkismanns virðingu sína með því að rísa úr sætum sínum.

[Allir þdm. risu úr sætum.]