20.04.1939
Sameinað þing: 6. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1336 í B-deild Alþingistíðinda. (2665)

Stjórnarskipti

*Héðinn Valdimarsson:

Loks mun nú vera lokið fæðingu þessara íslenzku fimmbura, sem hefir tekið svo langan tíma.

Ræðumenn frá stjórnarflokkunum hafa reynt að skýra frá, hvernig málin standi, einkum hæstv. forsrh. En það kom hvorki fram í hans ræðu né hinna, hvaða framkvæmdir nú skuli gera, eða hvaða nauðsyn ber til að mynda stj. Þessir menn hafa talað um að „sameina lýðræðisflokkana“ o. s. frv. Þetta eru svo almenn orðtök, að allir geta tekið undir þau, enda er meiningin fyrst og fremst sú, að verið er að reyna að skapa eina ákveðna pólitíska stefnu. Ekki einungis vinstri hluti þm. hefir staðið að þessu heldur og afturhaldssamasti hluti þeirra, og það er því undarlegra, sem sérstaklega er verið að tala um að sameina lýðræðisflokkana. Ég vil rétt minna á það, hvernig lýðræðið muni verða framkvæmt t. d. af Stefáni Jóhanni, en hann hefir æðsta vald í Alþýðusambandinu, sem ekkert lýðræði er í.

Og hvernig standa sjálfstæðismálin og uppsögn samninganna við Dani? Þar hefir enginn ágreiningur orðið, enda er ekkert, sem sýnir, að stj. hafi komið þar fram með nýjar eða betri leiðir t. d. það, að snúa sér til lýðræðisþjóðanna í álfunni og fá tryggt hlutleysi sitt.

Öllum er kunnugt um, hvað miklum mótmælum gengislækkunin hefir sætt, og að hún bitnar á almenningi, einkum fátækasta hluta hans, án þess að neinar ráðstafanir komi á móti.

Þá hefir verið getið um það af hálfu forsrh., að að stj. standi flokkar, sem meginhluti þjóðarinnar standi að. Það er alveg ósýnt mál. Við erum nú nýbúnir að hlusta á yfirlýsingar frá nokkrum hluta Sjálfstæðisflokksins, sem áskilur sér allan rétt til að slíta samvinnunni. Það er enginn vafi á því, að eftir þessar yfirlýsingar stangast enn á 2 armar Sjálfstæðisflokksins hér á þinginu. hvað þá heldur úti í landinu. Það virðist nú vera fram komið, að nokkur hluti þessara þm. hafi ekki haft þessar skoðanir, þegar þeir gengu til kosninga, en þá er það skylda þeirra að ganga ekki til nýrrar ríkisstj. öðruvísi en að fyrst fari fram þingrof og nýjar kosningar.

Ég vil ekki fara út í ræðu hæstv. félmrh. Það verða nóg tækifæri til þess síðar. Ég vil benda á, að það hefir verið talað um að halda uppi félagsmálalöggjöf, og þá væntanlega réttindum verklýðsfélaganna, en af hæstv. félmrh. og hans mönnum hefir einmitt verið gengið á rétt þeirra. Auk þess má benda á, að með gengislækkuninni er réttur tekinn af öllum, sem tryggingarbætur fá. Á sama hátt er það um framfærslustyrkinn.

Þá hefir líka verið talað um verkamannabústaði, sem lofaðir hafa verið styrkir til á hverju ári. Að vísu er það tryggt nú, að ½ millj. verði veitt á næsta ári, ef trúa má loforðunum. en ég vil geta þess, að það er hætt við, að það komi að litlum notum, nema breytt verði l. um verkamannabústaði, því að byggingarkostnaður hér í Reykjavík hefir vaxið svo mjög, að hætta er á, að ekki geti nema tekjuhæstu verkamenn notið íbúðanna.

Ég vil svo að síðustu endurtaka það, sem ég hefi áður sagt, að fyrir þeim, sem hafa skapað þessa „þjóðstjórn“, hefir vakað að skapa nýja stefnu í íhaldsáttina. Það er eftir að koma í ljós, hvaða fylgi stj. á hjá landsmönnum. Á þingi er nokkur hluti þm. neyddur til að taka þessa afstöðu. Ég og flokksmenn mínir munum að sjálfsögðu bera fram vantraust.