04.01.1940
Neðri deild: 104. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1345 í B-deild Alþingistíðinda. (2691)

Starfslok deilda

Atvmrh. (Ólafur Thors) :

Þó að ég hafi ekki talað um það við alla hv. þdm., þykist ég mega vera þess fullviss, að ég tala fyrir munn okkar allra, er ég þakka hæstv. forseta fyrir hans réttlátu, röggsömu og í alla staði ágætu fundastjórn í hv. d. á þessu þingi sem og áður. Ég veit og viðurkenni, að hann hefir einnig setið í forsetastóli, þegar örðugri hefir verið fundastjórn en á þessu þingi, því að á þessu þingi hefir samstarfið verið óvenju gott. Samt sem áður orkar það ekki tvímælis, að einnig á þessu þingi hefir hann þurft að beita sinni röggsemi, og er ekki lengra að sækja dæmi um það en til síðasta næturfundar, sem var síðastl. nótt, þegar hann hér, að vísu með nokkurri harðstjórn, en með allri virðingu okkar þdm., hélt okkur á fundi til kl. 7 í morgun. Við þdm. erum hæstv. forseta þakklátir fyrir hans stjórn á okkur, og þó að hann verði stundum að taka nokkuð fast í taumana, þá viðurkenna það allir, að hann gerir það aldrei að nauðsynjalausu, en alltaf er það til þess, sem honum ber, að gæta virðingar þingsins.

Um leið og ég fyrir hönd okkar þdm. þakka forseta hans góðu fundarstjórn, vil ég sömuleiðis þakka honum fyrir þau hlýju orð, sem hann mælti til okkar hér áðan, og árna honum allrar farsældar og blessunar. Væntum við þess, að við fáum að sjá hann heilan, er við mætumst hér næst. Og verðum við þá mjög á einu máli um það, hver á að taka þann sess, sem hann situr nú í.

[Deildarmenn risu úr sætum sínum.]