05.01.1940
Sameinað þing: 27. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1346 í B-deild Alþingistíðinda. (2693)

Þinglausnir

Á 27. fundi í Sþ., 5. jan., las forseti upp svo fellt yfirlit um störf þingsins:

Þingið hefir staðið frá 15. febr. til 26. apríl 1939 og frá 1. nóv. s. á. til 5. jan. 1940, eða

samtals 137 daga.

Þ í n g f u n d í r hafa verið haldnir:

í neðri deild

104

— efri deild

105

— sameinuðu þingi

27

Alls 236 þingfundir

Þ i n g m á l og úrslit þeirra:

l. Lagafrumvörp:

1. Stjórnarfrumvörp:

a. Lögð fyrir neðri deild

12

b. — — efri deild

7

e. — — sameinað þing

3

— 22

2. Þingmannafrumvörp:

a. Borin fram í neðri deild

83

b. Borin fram í efri deild

37

— 120

Þar af:

142

a. Afgreidd sem lög:

stjórnarfrumvörp

22

þingmannafrumvörp

59

— alls

81 lög

b. Felld:

þingmannafrumvörp

2

c. Afgr. m. rökst. dagskrá:

þingmannafrumvörp

5

d. Vísað til stjórnarinnar:

þingmannafrumvarpi

1

e. Ekki útrædd:

þingmannafrumvörp

53

142

II. Þingsályktunartillögur:

a. Bornar fram í neðri deild

4

b. — — í efri deild

3

c. — — í samein. þ.

22

29

Þar af:

a. Þingsályktanir afgr. til stj.:

1. ályktanir Alþingis

8

2. álykt. neðri deildar

1

— alls

9 þál.

b. Felldar

2

e. Tekin aftur

1

d. Ekki útræddar

17

29

III Fyrirspurnir:

Bornar fram í efri deild.

2

2

Þar af annari svarað.

Mál til meðferðar í þinginu alls

173

Síðan mælti

forseti (HG) ; Störfum þessa Alþingis er nú lokið. Það er hið 54. í röðinni síðan Alþingi var endurreist og var sett á l009. ári frá stofnun Alþingis.

Alþingi hefir að þessu sinni haft langa setu. Ástandið í alþjóðamálum og áhrif þess á innanlandsmálefni er orsök þessa. Af þeim ástæðum þótti eigi fært að ljúka störfum Alþingis á síðastliðnum vetri eða vori, og var því fundum þess, frestað frá því snemma vors til hausts.

Áður fundum Alþingis var frestað tókst samkomulag með höfuðflokkum þingsins um myndun samsteypustjórnar. Vegna erfiðleika aðalatvinnuvega þjóðarinnar, er stöfuðu af markaðsbresti, viðskiptahömlum, aflaleysi og sýki í búpeningi landsmanna, ásamt ófriðarhættunni og hinu ískyggilega útliti í alþjóðamálum, komu þessir flokkar sér saman um að leggja í bili ágreiningsmálin til hliðar og reyna að vinna sameiginlega að því að mæta þessum sérstöku erfiðleikum og yfirstíga þá. Er þess að vænta, að sá samhugur, er þessi tilraun ber vott um, megi létta baráttuna fyrir því að tryggja lífsafkomu þjóðarinnar, sjálfstæði hennar og hlutleysi á þeim voðatímum, er nú standa yfir.

Þótt land vort liggi fjarri miðstöðvum heims. verður eigi hjá því komizt, að áhrifa styrjaldarinnar miklu, er nú geisar, kenni hér beinlínis og mjög tilfinnanlega. Jafnframt hafa atburðir þeir, sem gerzt hafa í ýmsum löndum álfunnar, vakið ugg og kvíða í brjóstum landsbúa flestra.

Ófriðarhættan fyrst, síðan styrjöldin sjálf og það ástand sem hún hefir skapað í innanlandsmálum, hafa því sett sinn sérstaka svip á Alþingi og mótað störf þess í höfuðdráttum.

Mikilverðasta málið, sem Alþingi að þessu sinni afgreiddi verður að teljast breytingin á verðgildi íslenzkrar krónu og ráðstafanir þær, sem gerðar hafa verið í sambandi við hana og verðhækkun þá, er styrjöldin veldur. Ráðstafanir þessar hníga í þá átt að skapa aukið öryggi fyrir þær stéttir þjóðarinnar sérstaklega, sem lakast eru settar jafnframt því sem þeim er ætlað að draga úr innanlandsdeilum og hindra verðhækkun eftir ýtrustu geta. Styrjöldin hefir gert þessar ráðstafanir óhjákvæmilegar í bili, og er það von alþingismanna. að þær komi að því haldi, sem til er ætlazt. Nokkrar þeirra eru þess eðlis, að þeim er ætlað að gilda aðeins stutt tímabil, meðan brýnasta nauðsyn krefur, og falla niður síðan.

Annað höfuðverkefni Alþingis hefir verið afgreiðsla fjárlaga fyrir þetta nýbyrjaða ár.

Vegna óvissunnar um atvinnu hefir orðið óhjákvæmilegt að auka fremur en minnka framlög til verklegra framkvæmda og stuðnings við atvinnuvegi landsmanna, auk þess sem ýmsir útgjaldaliðir hljóta að hækka vegna verðhækkunar styrjaldarinnar og gengislækkunarinnar. Eru því heildarútgjöld fjárlaganna að þessu sinni áætluð nokkru hærri en undanfarin ár — og nálgast nú tvo tugi milljóna.

Þá hafa og verið sett lög um aukningu ríkisverksmiðjanna á Raufarhöfn og Siglufirði, til þess að auka möguleika landsbúa til að notfæra sér auðæfi hafsins, síldina, enn betur en orðið er.

Alþingi hefir samþykkt ný hegningarlög í stuð þeirra, er áður giltu og í höfuðatriðum voru frá 7. tugi fyrri aldar. Eru hin nýju lög í samræmi við nútíma hugsunarhátt og réttarvitund og í aðaldráttum svipuð nýjustu löggjöf frændþjóða okkar í þessum efnum. Þá hefir og tollalöggjöfin verið færð í nýjan búning, gerð einfaldari og auðveldari í framkvæmd, og að því leyti samræmd nýjustu erlendri löggjöf.

Með samþykkt íþróttalaganna hefir löggjöfin verið færð inn á nýtt svið, og er þess að væntu. að meiri og skipulegri rækt verði framvegis lögð við líkamsmenningu þjóðarinnar og að þess sjáist vottur í aukinni hreysti og heilbrigði. Með lögum um stríðstryggingu áhafna á íslenzkum skipum er viðurkennd skylda löggjafans að sjá um, að sjómennirnir, sem sigla um hættusvæði ófriðarins til að koma vörum okkar í verð og sækja nauðsynjar landsbúa, falli ekki óbættir, ef illa fer, jafnframt því. sem með þeim er spor stigið í þá átt að færa tryggingarnar hingað inn í landið.

Enn sem fyrr munu dómar um störf Alþingis verða mismunandi nokkuð. Jafnan sýnist sitt hverjum. Þó er það ætlun mín, að þeir muni að þessu sinni fara minna á dreif en oft áður. En um eitt ættum vér allir að geta urðið sammála: að óska þess, að störf Alþingis megi nú að þessu sinni, og ætíð verða þjóðinni til gæfu og farsældar, létta lífsbaráttu hennar. viðhalda og auka lýðræði innanlands og tryggja sjálfstæði hennar og hlutleysi. — Og að lokum er það ósk og von vor allra, að gifta lands vors reynist enn svo mikil, að oss lánist að komast hjá því, að verða beinir eða óbeinir þátttakendur í þeim hryllilega harmleik, er margur þjóðir álfunnar nú leika.

Að svo mæltu vil ég flytja alþingismönnum þakkir fyrir störfin á þessu Alþingi og óska þeim sem heima eiga utan Reykjavíkur, góðrar ferðar og heimkomu, og öllum Íslendingum góðs og farsæls árs.