24.02.1939
Neðri deild: 7. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í C-deild Alþingistíðinda. (2699)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Flm. (Gísli Guðmundsson):

Með l. nr. 1 frá 5. janúar 1938, um síldarverksmiðjur ríkisins, var ákveðið, að verksmiðjurnar skyldu greiða útsvar til bæjar- og sveitarfélaga þar, sem þær eru starfandi, eftir því sem nánar er tiltekið í þessum l., og er ákveðið í þeim l., að það skuli nema ½% af brúttó andvirði seldra afurða verksmiðjanna. En skömmu áður en frv. var afgr. frá þinginu. var í Ed. bætt inn í það ákvæði um, að þetta gjald verksmiðjanna til viðkomandi bæjar- eða sveitarfélaga mætti þó aldrei nema meira en 25% af útsvörum þessara bæjar- eða sveitarfélaga. Ég geri nú ráð fyrir, að ef ekki hefði verið orðið svo áliðið þings sem var, þegar brtt. þessi var samþ. í Ed., hefði hún ekki náð fram að ganga hér í Nd. Því að hér í hv. d. minnist ég þess ekki, að nein rödd kæmi fram um að leggja til, að þetta 25% ákvæði væri sett í frv. Enda má ljóst vera, að þetta ákvæði, um það, að þessi útsvör megi ekki nema meira en 25% af útsvörum í viðkomandi hreppi eða kaupstað, hefir við lítil rök að styðjast. Þessi regla kemur ranglátlega niður, þar sem hún miðar eingöngu að því að rýra þessar útsvarstekjur til handa þeim bæjar- eða hreppsfélögum, þar sem lítil er gjaldgeta manna og því möguleikar litlir til að jafna niður útsvörum, en hún kemur ekki niður þar, sem gjaldgetan er meiri. Auk þess getur þessi regla orðið til þess að valda ósamræmi milli þessara gjalda hinna einstöku verksmiðja og getu þeirra til að greiða þau.

Það má að vísu segja, að það sjónarmið hafi nokkurn rétt á sér, að ekki væri eðlilegt, að eitthvert bæjar- eða sveitarfélag gæti fengið svo miklar tekjur af þessu gjaldi, að það slyppi við að leggja á nokkur önnur útsvör, en gæti greitt með þessum tekjum öll sín gjöld. Slíkur hugsanlegur möguleiki er ekki sennilegt að kæmi til greina í framkvæmdinni. En þrátt fyrir það hefi ég viljað gera það til samkomulags við þá, sem kynnu að líta svo á, að hér væri hætta á ferðum um að slíkt gæti komið fyrir, að leggja til, að sú miðlunarleið verði farin, að þetta gjald frá verksmiðjunum megi ekki nema meira en 50% af útsvörum viðkomandi bæjar- og sveitarfélaga á hverju ári.

Hefi ég svo ekki um þetta fleiri orð, en legg til, að frv. verði að lokinni umr. vísað til 2. umr. og sjútvn.

* Stjarna ( * ) framan við nafn ræðumanns táknar, að ræðan sé prentuð eftir handriti innan-þingsskrifara, óyfirlesin af ræðumanni.