10.03.1939
Neðri deild: 17. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 2 í C-deild Alþingistíðinda. (2704)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Finnur Jónsson:

Síðan þetta frv. fór til 2. umr., hafa Alþ. borizt mótmæli gegn því frá stjórn síldarverksmiðja ríkisins. Ég fékk þessi mótmæli í hendur í gær, og hefi ég því ekki fengið tækifæri til að koma þeim til skila, þar sem ekki hefir verið haldinn fundur síðan í sjútvn. Ég mun að sjálfsögðu leggja þau fram í n. og einnig sjá um, að þau verði lögð fram í lestrarsal.

Verksmiðjustjórnin hefir einum rómi mótmælt því, að þetta frv. nái fram að ganga eins og það er. Það er talið, að það muni ekki geta snert heildarútsvarsupphæðina á öðrum stöðum en í einum hreppi, Presthólahreppi, þar sem verksmiðjurnar greiða annarstaðar lægri hundraðshluta heldur en frv. segir til um. Hinsvegar hefir útsvarshundraðshluti verksmiðjunnar í Presthólahreppi numið 26,29% af öllum útsvörum þess hrepps árið 1937. Ef úr því verður, að verksmiðjan verði stækkuð á Raufarhöfn, þá er sennilegt, að útsvarshluti sá, sem verksmiðjunni er gert að greiða þar, geti farið upp í helming útsvaranna í þeim hreppi.

Ég taldi skyldu mína að skýra frá mótmælum verksmiðjustj., en þau eru ágreiningslaus.

Þá hefir verksmiðjustjórnin beðið sjútvn. að flytja breyt. við frv. til l. um breyt. á l. um síldarverksmiðjur ríkisins, þannig að verksmiðjurnar séu undanþegnar fasteignaskatti samkv. l. um tekjur bæjar- og sveitarfélaga. Í samræmi við þessa beiðni, sem er undirrituð af formanni verksmiðjustjórnar, Þormóði Eyjólfssyni, Sveini Benediktssyni og Jóni Þórðarsyni, hefi ég ásamt hv. þm. Borgf. leyft mér að bera fram brtt. við frv. það, sem fyrir liggur frá hv. þm. N.-Þ.

Með því móti, að síldarverksmiðjurnar greiði bæði útsvar samkv. verksmiðjulögunum upp í ½% og auk þess fasteignaskatt samkv. l. um tekjur bæjar- og sveitarfélaga, þá eru útgjöld ríkisverksmiðjanna orðin svo há, að þær eru verr staddar hvað útgjöld snertir heldur en verksmiðjur einstakra manna. Ég skal geta þess, að á Siglufirði, en hann er það eina sveitarfélag, sem hefir notað þessa heimild, hefir tekizt svo til, að lóðir ríkisverksmiðjanna eru settar í efsta flokk, og þykir mér það undarlegt, hvernig það má vera, að slíkt hefir farið framhjá hæstv. atvmrh., þegar hann samþykkti reglugerðina. Í 1. flokki eru taldar upp allar lóðir undir íbúðarhúsum, og í 2. flokki allar þær lóðir, sem notaðar hafa verið til síldarsöltunar, en í 3. flokk koma aðrar lóðir, og undir það koma lóðir ríkisverksmiðjanna. Nú hefi ég heyrt, að bæjarfógetinn á Siglufirði hafi hælt sér af því, að hann hafi fengið atvmrh. til þess að samþ. þessa reglugerð, án þess að atvmrh. hafi tekið eftir þessu klækibragði.

Vegna þessa hefi ég talið ástæðu til, að það kæmi fram frv. um það, að ríkisverksmiðjurnar væru undanþegnar þessu gjaldi, þar sem ég tel, að það nái ekki neinni átt að setja þær í hærri flokk heldur en síldarsöltunarstöðvar.