10.03.1939
Neðri deild: 17. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 5 í C-deild Alþingistíðinda. (2706)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Finnur Jónsson:

Það kann í fljótu bragði að líta svo út, að hv. þm. N.-Þ. hafi nokkuð til síns máls, að það sé óviðkunnanlegt, að ég og hv. þm. Borgf. skulum bera fram till., sem sjútvn. er beðin að flytja. En ég geri ráð fyrir, að hv. þm. hafi tekið eftir því, að ég sagði, að mér hefði borizt nokkur hluti till. í gær, en síðan hefir ekki verið haldinn fundur í sjútvn.

Þessi till. er eiginlega í 2 liðum. Fyrri liðurinn er um útsvar það, sem lagt er á samkv. verksmiðjulögunum, en síðari liðurinn viðkemur fasteignagjaldi því, sem heimilt er að leggja á fasteignir samkv. l. um tekjur bæjar- og sveitarfélaga. Ég gat þess, að komið hefði til sjútvn. beiðni um að flytja brtt. um það, að verksmiðjurnar væru undanþegnar þessum fasteignaskatti. Það erindi var ekki fullsamið, því það vantaði í það 2 tölur, og því var ekki hægt að leggja það fyrir n. En þar sem það var komið inn í hv. d., þá taldi ég rétt að freista þess að koma málinu fram núna, svo hægt væri að komast hjá að flytja um það sérstakt frv. Ríkisverksmiðjurnar voru frá fyrstu tíð undanþegnar útsvari, en á næstsíðasta þingi var þeim gert að greiða útsvar af umsetningu ½% í bæjar- og sveitarsjóði. Á Siglufirði hefir þetta numið síðastl. ár 16500 kr. Auk þess var þeim gert að greiða fasteignagjald af fasteignum, og er það rétt hjá hv. þm. N.-Þ., að þar eru ríkisverksmiðjurnar ekki verr settar en verksmiðjur einstakra manna. En ég benti á það, sem ég held, að verði ekki hrakið, að ríkisverksmiðjurnar verða með þessu móti verr settar heldur en verksmiðjur einstakra manna, vegna þess, að engin sveitarfélög hafa ennþá notað þessa heimild. Þessi fasteignaskattur hefir numið á Siglufirði 23300 kr. á ári, og þó það kunni að vera hægt að breyta reglugerðarákvæði, þá vil ég benda hv. þm. á, að slíkt er alls ekki á valdi þingsins. Það er bæjarstjórnin á Siglufirði, sem hefir samið reglugerðina um þetta efni, þar sem lóðir ríkisverksmiðjanna eru hafðar í hæsta flokki. Hæstv. atvmrh. hefir staðfest þessa reglugerð, en það er ekki á hans valdi að breyta henni. Það er aðeins á valdi bæjarstj. á Siglufirði. Ef þingið vill leiðrétta þetta ranglæti, þá sé ég ekki aðra leið til þess en að gera það með lagasetningu.

Þegar athugað er, hvernig ríkisverksmiðjurnar verða verr úti hvað gjöld snertir en verksmiðjur einstakra manna, þá er vert að geta þess, að þær 2 stærstu verksmiðjur, sem eru í eign einstakra manna, verksmiðjurnar á Hjalteyri og á Djúpavík, greiða ekki vörugjald af innfluttum og útfluttum vörum. Það nemur hjá ríkisverksmiðjunum á Siglufirði 30–40 þús. kr. á ári. Fasteignagjald þurfa þessar verksmiðjur ekki að greiða, en það nemur hjá ríkisverksmiðjunum um 23 þús. kr. Útgjöld ríkisverksmiðjanna eru þannig 50–60 þús. kr. á ári umfram útgjöld verksmiðja í eigu einstakra manna. Ég geri ráð fyrir, að útsvar það, sem ríkisverksmiðjurnar greiða, sé sambærilegt við það, sem hinar verksmiðjurnar greiða.

Þar sem ríkisverksmiðjurnar ráða að nokkru leyti síldarverðinu, þannig að það verð, sem þær ákveða, er líka greitt af verksmiðjum einstakra manna, þá tel ég, að þinginu beri skylda til að gera aðstöðu ríkisverksmiðjanna þannig, að þær verði samkeppnisfærar við verksmiðjur einstakra manna. Þó að það kunni að vera nokkuð hart gagnvart Siglufjarðarkaupstað, verð ég að telja, að alþjóðarnauðsyn geri það réttmætt, að slík till. nái fram að ganga.