10.03.1939
Neðri deild: 17. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í C-deild Alþingistíðinda. (2710)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Finnur Jónsson:

Ég ætla að taka undir með hæstv. atvmrh. um, að málið verði tekið af dagskrá, svo að sjútvn. geti athugað mótmælin gegn frv. og gegn fasteignagjaldinu á verksmiðjurnar. Ég sé ekki ástæðu til að fara út í ræður þeirra, sem talað hafa, en ég vil benda hv. 7. landsk. þm. á, að ég hefi ekki borið saman útsvar síldarverksmiðjanna á Siglufirði við útsvar einstakra manna þar, heldur gert samanburð á gjöldum síldarverksmiðjanna og gjöldum síldarverksmiðja, sem eru eign einstakra manna, og bent á, að ríkisstj. þurfi að sjá um, að gjöldin verði ekki hærri á ríkisverksmiðjunum en öðrum verksmiðjum, því að ríkisverksmiðjurnar ráða síldarverðinu, og óeðlileg hækkun á útgjöldum þeirra verður til þess að lækka bræðslusíldarverðið fyrir sjómönnum. Þetta stendur óhrakið.