21.03.1939
Efri deild: 21. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í C-deild Alþingistíðinda. (2723)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Atvmrh. (Skúli Guðmundsson):

Í þessu frv. til l. um breyt. á l. um síldarverksmiðjur ríkisins, sem nú hefir verið samþ. í hv. Nd. er svo ákveðið, að verksmiðjurnar skuli greiða árlega til bæjar- eða sveitarsjóða, þar sem þær eru starfræktar, ½% af brúttóandvirði seldra afurða ár hvert, en jafnframt tekið fram, að þær greiði ekki útsvar, fasteignaskatt í bæjarsjóð eða sveitarsjóð né heldur tekju- og eignarskatt.

Að því er snertir þetta ½% gjald er hér enga breyt. um að ræða frá því, sem nú er, því að þegar l. um síldarverksmiðjur ríkisins voru sett hér á Alþ. í fyrra, þá var þar ákveðið, að þær skyldu greiða þetta gjald til viðkomandi bæjar- eða sveitarsjóða, sem miðast við umsetningu þeirra.

Ég geri ráð fyrir, að það hafi verið til þess, ætlazt af Alþ., að verksmiðjurnar greiddu ekki önnur gjöld til bæjar- eða sveitarsjóða heldur en þennan umsetningarskatt; og má í því sambandi benda á að áður höfðu þær verið lausar við gjöld til bæjar- og sveitarsjóða. En á því sama þingi voru einnig afgr. l. um tekjur bæjar- og sveitarfélaga, þar sem þeim m. a. var heimilað að leggja fasteignagjald á fasteignir í bæjum og kaupstöðum, og síðan hafa nokkur bæjarfélög notað þennan rétt og sett á fasteignagjöld. Í l. um þetta efni voru að vísu nokkrar ákveðnar fasteignir undanskildar slíkum álögum. En þess mun ekki hafa verið gætt, þegar þau l. voru sett, að undanþiggja síldarverksmiðjur ríkisins þessum gjöldum. Og af þeirri ástæðu er þetta ákvæði komið inn í það frv., sem hér liggur fyrir, að síldarverksmiðjur ríkisins skuli vera lausar við fasteignaskatt og útsvar.

Ég held, að tæplega verði um það deilt, að rétt sé að leysa síldarverksmiðjur ríkisins undan þeirri skyldu að greiða fasteignaskatt eftir að búið er að leggja á þær þá kvöð að greiða ½% af andvirði seldra afurða í bæjar- eða sveitarsjóð, þar sem þær eru starfræktar. Og eins og ég gat um, geri ég ekki ráð fyrir, að til þess hafi verið ætlazt af Alþ., að frekari gjöld yrðu lögð á verksmiðjurnar heldur en þetta ½% gjald.

Það liggur í augum uppi, að þeir bæir eða þau sveitarfélög, sem hafa þessar verksmiðjur hafa af þeim bæði beint og óbeint mjög miklar tekjur. Fyrir utan þetta ákveðna umsetningargjald, sem er beinlínis greitt frá síldarverksmiðjum ríkisins í viðkomandi bæjar- eða sveitarsjóð, hafa þessir staðir mjög miklar tekjur aðrar í sambandi við þennan atvinnurekstur. Ef við tökum t. d. Siglufjörð, þar sem rekstur síldarverksmiðja ríkisins er mestur, þá er það vitað, að einmitt fyrir það, að síldarverksmiðjurnar eru þar, skapast þar ákaflega mikil viðskipti, sem gefa bæjarsjóði Siglufjarðar vitanlega mikla tekjumöguleika. Siglufjarðarbær fær stórfé árlega t. d. í hafnargjöldum af skipum, sem eiga heimilisfang annarstaðar á landinu, en skipta við verksmiðjurnar. Og verzlanir á Siglufirði hafa mjög mikla verzlun við skip, sem leggja upp síld, m. a. hjá þessum síldarverksmiðjum. Og auk þess má benda á þá miklu atvinnu, sem ríkið veitir á þessum stað, vegna þess að það rekur þar síldarverksmiðjurnar.

Mér finnst því, að það alls ekki geti talizt sanngjarnt, að þessir bæir eða sveitarfélög, sem hafa orðið þeirra hlunninda aðnjótandi að fá þennan ríkisrekstur til sín, geti skattlagt þau fyrirtæki umfram þetta ½% gjald af söluverði afurðanna. Og vildi ég, að þetta sjónarmið kæmi fram áður en málið gengur til n., og vænti þess, að hv. sjútvn., sem væntanlega fær þetta mál til meðferðar hér í hv. d., taki þetta til athugunar.