21.03.1939
Efri deild: 21. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í C-deild Alþingistíðinda. (2724)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Bernharð Stefánsson:

Á seinna þinginu 1937 voru sett tvenn l., sem hæstv. atvmrh. gat nú um. Önnur l. voru um tekjur bæjar- og sveitarfélaga og eftirlit með fjárstjórn bæjar- og sveitarstjórna, en hin l. voru um síldarverksmiðjur ríkisins. Í l. um tekjur bæjar- og sveitarfélaga er í 4. gr. tekið fram, hvaða fasteignir séu undanþegnar fasteignaskatti, þó að fasteignaskattur sé lagður á. Þar eru taldar fyrst og fremst fasteignir bæjar- og sveitarfélaganna sjálfra, ef ekki er um leigulóðir eða leigujarðir að ræða. Síðan eru taldar upp kirkjur, íþróttahús og samkomuhús, ef þau eru ekki leigð til tekna fyrir viðkomandi bæjar- eða sveitarfélag, þá skólahús, barnahæli, sjúkrahús, elliheimili, þinghús og annað slíkt. Síðan er það tekið fram að undanþegin þessum fasteignaskatti séu hús annara ríkja, sem notuð eru fyrir sendimenn þeirra, og lóðir tilheyrandi þeim.

Má nú nærri geta, hvort það sama þing, sem setti þessi l., og jafnframt og samhliða því, sem það fjallaði um þau, var einnig að fjalla um l. um síldarverksmiðjur ríkisins, hefði gleymt að undanþiggja verksmiðjurnar fasteignaskatti, ef það hefði verið vilji þingmanna. Enda var það svo, að Alþ. mundi ákaflega vel eftir síldarverksmiðjum ríkisins, er það fjallaði um l. um tekjur bæjar- og sveitarfélaga, því að einmitt þegar deilt var hér um það út af því frv., sem síðan varð að l. um síldarverksmiðjur ríkisins, hvort ætti að leggja á þær umsetningarskatt til bæjar- og sveitarfélaga, og þá líka um það, hve hár hann ætti að vera, þá voru menn hér á hæstv. Alþ., sem héldu því fram, að þar sem Siglufjörður og aðrir staðir, þar sem síldarverksmiðjur ríkisins væru, fengju nú möguleika til þess að fá nokkrar tekjur af þessum fyrirtækjum gegnum fasteignaskatt, þá væri enn síður þörf á að heimila þeim að leggja gjöld á framleiðsluna. Nei, að Alþ. hafi ekki gætt þess að undanþiggja síldarverksmiðjur ríkisins fasteignaskatti, en hafi ætlað sér það, eins og hæstv. atvmrh. heldur fram, er því einber fjarstæða og ekkert annað.

Nei, Alþ. 1937 ætlaði þeim bæjar- og sveitarfélögum. sem svona stendur á um, þessar tekjur, ½% af brúttóandvirði framleiðslu síldarverksmiðjanna, og svo samskonar fasteignaskatt af eignum þeirra eins og lagt væri á sambærilegar fasteignir í bæjar- og sveitarfélögum; það er alveg tvímælalaust. Að samþ. þetta frv. eins og það liggur fyrir er því ekkert annað en það, að hæstv. Alþ. sér sig um hönd. Alþ. hefir sýnt bæði Siglufjarðarbæ og öðrum stöðum, þar sem síldarverksmiðjur ríkisins eru, framan í það, að þeir gætu fengið þessar tekjur af fasteignaskattinum. En svo bara eftir rúmt ár á að svíkja um þetta. Það er ekkert annað en þetta, sem fram hefir farið með þessu. Að þingið hafi ekki vitað, hvað það var að gera í þessu máli fyrir 2 árum, nær ekki nokkurri átt, — það vitum við allir.

Hvað því við kemur, að bæir þeir, sem hafa síldarverksmiðjur ríkisins hjá sér — og þá er aðallega talað um Siglufjarðarbæ —, hafi svo miklar tekjur af verksmiðjunum óbeint með þeim hlunnindum, sem því fylgir að hafa þær hjá sér, eins og hæstv. ráðh. var að tala um, þá ber náttúrlega að viðurkenna það. En því fylgir líka ýmis kostnaður, sem Siglufjarðarbær t. d. hefir af því, að fjöldi aðkomufólks safnast þangað á sumrin vegna atvinnu í sambandi við þessar verksmiðjur, beint eða óbeint. (SÁÓ: Eins og hvað?). Eins og t. d. að það þarf aukna lögreglu. Það kemur fyrir, að það þarf að líta eftir þessu aðkomufólki. En hvað um það; hvernig sem menn líta á það, vil ég, að það komi hreint fram, að hér er ekki verið að leiðrétta neitt, sem farizt hefir fyrir rúmu ári síðan, heldur á hér að taka aftur það, sem þá var veitt. Og það á að kannast við það en ekki að vera með neinar blekkingar um það, að Alþ. hafi ætlað sér að gera í þessu efni annað en það, sem það gerði þá.

En hvað sem þessu líður, held ég að allir geti verið sammála um eitt og jafnvel þeir líka, sem vilja svipta Siglufjörð þessum tekjum, sem honum ber samkv. núgildandi l. að hafa af fasteignaskattinum, sem sé það, að ákvæði um það ættu alls ekki að koma fram í frv. því, sem hér liggur fyrir um síldarverksmiðjur ríkisins, heldur vitanlega að vera borið fram sem sérstakt frv. til l. um breyt. á l. um tekjur bæjar- og sveitarfélaga og eftirlit með fjárstjórn bæjar- og sveitarstjórna, og koma þá inn í 4. gr. þeirra l., sem er tæmandi upptalning á því, hvaða fasteignir það eru, sem ætlazt er til að undanþegnar séu fasteignaskatti. Það er náttúrlega mál út af fyrir sig, þó að menn séu þannig hugsandi, að eftir allt talið um þetta efni fyrir rúmu ári síðan og þeirra álit þá um að það þyrfti að bæta úr tekjuþörf bæjar- og sveitarfélaga, að þeir vilja nú taka aftur það, sem þeir veittu þá. En mér finnst, að menn gætu þó haft svona nokkurn veginn þinglega afgreiðslu á þeim gerðum sínum.

Þessar umr. eiga kannske betur við 2. umr. Skal ég því ekki fara lengra út í þetta hér. Mér sýnist frv. þetta þannig úr garði gert, að því sé ætlað að breyta allt öðrum l. heldur en það er borið fram til að breyta. Af þeirri ástæðu sýnist mér, að slíkur óskapnaður sem frv. er ætti ekki að lifa af þessa umr. En ef það samt sem áður gerir það, vona ég að það verði tekið til athugunar að bera þetta rétt fram. Eða hvernig á nú bæjarfélag eins og Siglufjörður að fara að, ef frv. þetta verður samþ. eins og það er, þar sem á hinn bóginn l. um tekjur bæjar- og sveitarfélaga segja, að það megi leggja á allar fasteignir til tekna fyrir viðkomandi bæjarfélag, nema þær, sem taldar eru upp í 4. gr. þeirra l., þar sem síldarverksmiðjur ríkisins eru ekki nefndar. En hér á að samþ. önnur l., sem segja, að síldarverksmiðjur ríkisins skuli vera undanþegnar fasteignaskatti. Eftir hvorum l. á svo að fara? Hér er ekki tekið fram í þessu frv., að nein ákvæði í l. um tekjur bæjar- og sveitarfélaga séu úr gildi numin. Mér sýnist þetta stangast svo, að frv. þetta sé, eins og það liggur fyrir hér, hreinasta della.