21.03.1939
Efri deild: 21. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í C-deild Alþingistíðinda. (2725)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Erlendur Þorsteinsson:

Hv. 1. þm. Eyf. hefir að nokkru leyti tekið fram það, sem um þetta mál þurfti að taka fram. Ég vil þó sérstaklega undirstrika það, sem hann sagði um það, hve mjög óeðlilega þetta mál ber að; því að það er gefið mál, að eftir að frv. var breytt í Nd., þá er þetta frv. breyt. á l. nr. 69 frá 31. des. 1937, um tekjur bæjar- og sveitarfélaga o. fl. Ég held því, að hv. Ed. ætti í þetta skipti að bjarga sóma þingsins með því að fella þetta frv. hreinlega; og þeir, sem eru með því að fá þessa breyt. fram á l. um tekjur bæjar- og sveitarfélaga, komi þá fram með frv. um breyt. á viðkomandi l.

Það virðist harla einkennilegt, ef það er rétt skoðað, sem hæstv. atvmrh. tók fram, að Alþ. í fyrra skuli því alveg hafa gleymt að taka fram, hvort síldarverksmiðjur ríkisins skyldu vera undanþegnar fasteignaskatti eða ekki, þegar það er athugað, að hvortveggja frv., bæði frv. um tekjur handa bæjar- og sveitarfélögum og frv. um síldarverksmiðjur ríkisins, eru borin fram svo að segja undir eins og rædd svo að segja samhliða. Má undarlegt heita, ef hv. þm. hafa verið svo gersneyddir allri athugunargáfu, að þeir hafi þá gleymt að taka þetta fram, og að það sé þá aðeins fyrir gleymsku, að það var ekkert tekið fram um að undanþiggja síldarverksmiðjur ríkisins fasteignaskatti.

Ég held því, að það sé næsta augljóst, að þingið hafi beinlínis ætlazt til, að sýslufélög þau og sveitir, þar sem ríkisverksmiðjurnar eru, fengju þær tekjur, sem þingið ætlaði þeim með þessum l. Ég tel ekki ástæðu til við þessa umr. að fara mikið út í einstök atriði þessa máls, en ég vildi leiðrétta þann misskilning. sem kom fram hjá hæstv. atvmrh., þar sem hann komst svo að orði, að ríkisverksmiðjurnar hafi verið lausar við öll gjöld til bæjar- og sveitarfélaga. Ég vil minna hæstv. ráðh. á l. frá 1926. en skv. þessum l. greiddu ríkisverksmiðjurnar allt fram á seinasta ár milli 6 og 7 þús. kr. í fasteignaskatt, sem í þeim var ákveðinn. Það virðist nokkuð hastarlegt, ef Alþ. ætlar, um leið og það gefur bæjar- og sveitarfélögum nýja tekjustofna, að taka aðra tekjustofna af þeim í staðinn.

Ég vona, að þetta frv. lifi ekki af þessa umr., en ef það gerir það, þá mun ég minnast nánar á einstök atriði við 2. umr. Ég vil leyfa mér að gera það að till. minni að ef frv. verði vísað til n., þá verði því vísað til fjhn.