21.03.1939
Efri deild: 21. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í C-deild Alþingistíðinda. (2726)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Atvmrh. (Skúli Guðmundsson):

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál við þessa umr., því vitanlega verður málið athugað í n., sem ég tel sjálfsagt að verði sjávarútvegsnefnd.

Út af því, sem hv. 1. þm. Eyf. og hv. 10. landsk. héldu fram, að það væri fjarstæða að halda því fram, að Alþ. hefði ekki til þess ætlazt, að verksmiðjurnar greiddu gjöld umfram þetta ½% umsetningargjald, þá skal ég ekkert fullyrða um skoðanir einstakra hv. þm. í þessu efni, en ég vil benda á, að meiri hl. hv. Nd. hefir þegar fallizt á þetta með því að samþ. þetta frv., sem hér liggur fyrir. Nd. taldi ekki heppilegt, að bæjar- og sveitarfélögum yrði leyft að skattleggja verksmiðjurnar á þennan hátt, og ég vænti þess, að Ed. komist á sömu skoðun að athuguðu máli. Ég tel — og er þar á annari skoðun en hv. 1. þm. Eyf. — að hér sé um leiðréttingu að ræða. Ég tel, að það hafi við afgreiðslu málsins í fyrra verið lagðar óeðlilega miklar kvaðir á þennan atvinnurekstur.

Út af því, að þetta hefði átt að koma fram sem breyt. við önnur l., þá er það auðvitað hlutur sem má deila um, og ég skal viðurkenna, að það hefði alveg eins mátt fara þá leið, en að það sé á nokkurn hátt óþingleg afgreiðsla þessa máls, sem hér er viðhöfð, það finnst mér fjarstæða. Ég sé ekkert athugavert við það, að í l. um síldarverksmiðjur ríkisins. þar sem ákveðið er, hvað þær eiga að greiða af umsetningu í bæjar- og sveitarsjóði, séu einnig ákvæði um það, að þær séu undanþegnar öðrum gjöldum. Ég vil benda hv. 1. þm. Eyf. og 10. landsk. á það, að ef þetta ákvæði á ekki við í þessum l., þá hefði ákvæðið um ½% umsetningargjaldið átt að setjast inn í l. um tekjur bæjar- og sveitarfélaga. En þetta álít ég vera aukaatriði. Það hefir vitanlega sama gildi, þó það sé sett inn í l. um síldarverksmiðjurnar.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð, en vil aðeins undirstrika það, sem ég hefi áður haldið fram, að ég tel ósanngjarnt að skattleggja þannig sjávarútveginn til ágóða fyrir einstök bæjar- og sveitarfélög. Ég held, að það sé óhætt að fullyrða, að hvert einasta bæjar- eða sveitarfélag mundi þakksamlega taka á móti slíkum atvinnurekstri frá ríkinu, og það jafnvel án þess að gera nokkrar kröfur um nokkrar álögur. Það mundi verða álitið svo mikið hagsmunamál að fá þennan atvinnurekstur, eins og nú er háttað um atvinnurekstur hér á landi. Og þessi gjöld koma vitanlega niður á sjómönnum og útgerðarmönnum, sem stunda síldveiðar og skipta við ríkisverksmiðjurnar, því að þeim mun minna geta verksmiðjurnar greitt fyrir hráefni. sem þær þurfa að greiða meira til viðkomandi bæjar- eða sveitarfélags í opinber gjöld.