03.04.1939
Neðri deild: 33. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í B-deild Alþingistíðinda. (273)

69. mál, gengisskráning og ráðstafanir í því sambandi

*Héðinn Valdimarsson:

Þá er nú loksins komið þetta frv. um gengislækkun, sem svo lengi hefir verið búizt við. Vil ég fyrst minnast á það í sambandi við, hvernig það hefir verið undirbúið.

N., sem starfaði að þessum málum, hafði lokið störfum sínum fyrir þing, en nál. er fyrst útbýtt nú á þessum fundi. Það hefir ekki mátt ræða málið í blöðum eða á fundum og hvergi fyrr en málinu er dembt fyrirvaralaust hér inn í d. Það hefir ekki mátt sýna þetta plagg fyrr en málinu er skellt á, og ber það ekki vott um góða samvizku.

Í öðru lagi hefir mikið verið talað um það, að ekki mundi vera gengið að því að lækka gengi krónunnar, nema svokölluð þjóðstjórn yrði mynduð af Framsfl., Alþfl. og Sjálfstfl. En eftir þá yfirlýsingu, sem hæstv. forsrh. gaf, þá er ekki ennþá fenginn grundvöllur fyrir myndun þeirrar stjórnar, og þó kemur þetta frv. fram. Og þá er mér spurn: Hvernig stendur á, að þetta frv. er ekki komið fram fyrr? Hvers vegna gat það ekki komið fram fyrr? Hvers vegna að draga það fram á síðustu daga fyrir páska? Standa allir þessir flokkar að þessu frv. sem flokkar, eða eru það þeir einstöku þm., sem bera frv. fram. Kemur það væntanlega í ljós í umr.

Það er mikið talað um að bæta kjör sjávarútvegsins, og eru sjálfsagt allir sammála um, að það væri vel, ef svo væri hægt, sérstaklega togaraútgerðarinnar. En það, sem hér er verið að gera, er annað og miklu meira en að bæta hennar kjör. Það er verið að ráðast aftan að öllum launþegum í landinu, stela 22% af launum þeirra, svíkja þá um 22%, án þess að bera það undir nokkra aðra en þá fáu menn, sem setíð hafa hér á fundum, ýmist á Hótel Borg eða þá hér í hinu háa Alþingi.

Ég hefi ekki haft tíma til að lesa grg. frv., því að svo mikið lá á að koma málinu áfram, að veita þurfti margföld afbrigði, svo að þm. gátu ekki einu sinni lesið frv., en eftir ræðum þeirra, sem hér hafa talað, lítur út fyrir, að tap á togaraútgerðinni hafi að undanförnu verið um 1 millj. kr. á ári. Ég verð því að segja, að það er hastarlegt, að vegna taps, sem þó er ekki talið nema meiru en hundruðum þúsunda, skuli eiga að taka milljónir og velta því yfir á aðra, og sjávarútveginn líka, sem þetta er þó talið gert fyrir, því að hinn innlendi kostnaður, sem hann þarf að greiða, svo sem vinnulaun o. fl., hlýtur að hækka að miklum mun og vega fyllilega á móti þeim kjarabótum, sem þessar ráðstafanir eiga að vera fyrir útveginn. Annars veit ég ekki. hvaða ráðstafanir eru hugsaðar í sambandi við þetta mál aðrar og meiri en þær að stela 22% af launum landsmanna. það má svo sem vel vera, að setja eigi upp ríkislögreglu samhliða þessum ráðstöfunum svona til þess að kóróna allt saman. Annars má óhætt fullyrða, að sú stétt manna í landinu, sem kemur til með að hafa mest gagn af þessum ráðstöfnnum, er stétt sú, sem fer með gjaldþrota togaraútgerðarfyrirtæki.

Háttv. þm. Borgf. hefir með mörgum og háværum orðum útmálað það, hversu mjög útgerðarmennirnir legðu sig fram um að útvega hinn erlenda gjaldeyri, hvílíka þjóðþrifastétt þar væri um að ræða. Úr því að farið er að tala um þjóðþrifastéttir í þjóðfélaginu, þá vil ég í því sambandi minna á hið mikla þjóðþrifastarf, sem sum verzlunarfyrirtæki landsins hafa leyst af höndum nú á hinum síðustu og verstu tímum, og vil ég því til sönnunar minna á hin miklu innkaup á matvörum og kolum, sem sum firmu gerðu síðastl. haust, þegar stríðshættan var sem mest. En eins og kunnugt er, þá var það eini undirbúningurinn, sem stjórnin gerði í sept. síðastl. vegna hinnar alvarlegu stríðshættu, að hún gekk hér á milli nokkurra verzlunarfyrirtækja og bað þau um að nota lánstraust sitt erlendis til hins ýtrasta og slá um kol og fleiri nauðsynjavörur eftir því, sem föng voru til. Varð þetta til þess, að útvegað var allmikið af vörum upp á svo langa „krít“, að sumt af þeim á jafnvel ekki að greiðast fyrr en í sumar. Þetta eru svo launin, að komið er aftan að þessum sömu mönnum og þeir látnir tapa stórfé fyrir það eitt, að þeir urðu við beiðni stjórnarvaldanna um það að birgja landið upp með nauðsynjavörum á hinum alvarlegustu tímum. Þá eru og hér engin ákvæði um gengisjöfnunarsjóð eða neitt slíkt, sem jafnan þarf að vera fyrir hendi, þegar um gengisbreytingar er að ræða. Það er allt á sömu bókina lært, eintómt fálm og ráðleysi. Þá er og ein hlið þessa máls, sem ekki hefir neitt verið minnzt á, en það eru hin miklu lánstrausts- og álitsspjöll, sem lög þessi koma til með að hafa fyrir landið á erlendum vettvangi. Ég vil því leyfa mér að beina þeirri fyrirspurn til stjórnarinnar, hvort hún hafi gert nokkrar ráðstafanir í þessu efni, hvort hún hafi gert nokkuð í þá átt að draga úr áhrifum þessara laga á traust landsins erlendis. Um þetta óska ég svars.

Eins og kunnugt er, þá hefi ég bent á aðrar leiðir til úrbóta á því ástandi, sem hér hefir skapazt hin síðari ár og nú ætlar allt að sliga, en stjórnin hefir ekkert sinnt þeim, ekki svo mikið sem spurzt fyrir um lánsmöguleika erlendis, hvað þá meir. Hér er þó að ræða um mál, sem snertir allan almenning, því að verðhækkun á nauðsynjavörum manna er óumflýjanleg; hljóta þessar ráðstafanir því að hitta bændur, og það jafnt austur í Rangárvalla- og Árnessýslu sem uppi í Borgarfirði, að ég nú ekki tali um verkamannastéttina.

Í stað þess að tala um sjávarútveginn sem einhverja höfuðskepnu, sem allt byggist á, væri ekki úr vegi að benda á verkafólkið, sem vinnur að framleiðslunni; undir því er ekki minna komið en þeim, sem fyrirtækjunum stjórna. Í frv. er ákvæði um það, að kaup megi almennt ekki hækka til 1. apríl 1940, en sú hækkun, sem komið getur til greina hjá ófaglærðu fólki í ár, á að miðast við þá hækkun vöruverðs, sem verður frá 11. apríl til 1. júlí í ár. Getur því engin hækkun á kaupi komið til greina fyrr en 1. júlí n. k.. og þá því aðeins, að meðalframfærslukostnaður hafi hækkað meira en 5%, miðað við hliðstæðan kostnað mánuðina jan.–marz þ. á. — þá getur kaup ófaglærðs fólks hækkað sem nemur ½ þeirrar hækkunar, alls ekki meira, fyrr en þá að hækkunin er komin yfir 10%, þá getur kauphækkunin numið 2/3 hlutum á móts við hækkun framfærslukostnaðarins.

Hv. þm. Ísaf. fór að minnast á verkalýðsfélagið Dagsbrún og þóttist vera að vinna fyrir það. Út af þessum ummælum hv. þm. vil ég nota tækifærið til þess að skýra honum frá því, að öll ráð hans eru fyrirlitin í því félagi, sem ekki er að ófyrirsynju, þar sem hann er ekki aðeins svikari við verkalýðinn hér í Reykjavík, heldur og svikari við allan verkalýð landsins. ( Forseti hringir).

Það er svo sem óþarfi að taka það fram, eða ætti að vera það a. m. k., að þessi nákvæmi útreikningur á launum manna og jafnvel heilla stétta er bara helber vitleysa, því að laun manna hljóta jafnan að miðast við það eitt, hvað fólkið kemst af með minnst til þess að geta dregið fram lífið, svo fremi sem ekki er beinlínis fasistísk stjórn. Annars er það undarlegt, að þeir menn, sem telja sig vera að berjast fyrir umbótum á kjörum verkalýðsins, skuli koma fram með þessar kauplækkunartillögur og takmarkanir, því að hér liggja alls ekki fyrir neinar sannanir eða vonir um aukna atvinnu, sem gætu að einhverju leyti réttlætt þessar ráðstafanir. Sé t. d. litið til ísfisksveiðanna, þá er sá „kvóti“ alveg fullnotaður, svo að ekki getur verið um að ræða atvinnuaukningu við þær. Hinu sama máli gegnir um saltfiskinn, hann er að kalla óseljandi umfram það, sem var síðastl. ár. Norðmenn hafa t. d. að mestu yfirtekið markaðinn í Portúgal og birgt þar upp með saltfisk, sem dugir a. m. k. í eitt ár. Mér er því alls ekki ljóst, hvernig hér getur verið um hugsanlega atvinnuaukningu að ræða. Það liggur miklu nær að álykta, að fram undan sé afvinnurýrnun. Þá getur þetta ekki orðið til þess að hvetja menn til þess að ráðast í byggingar, þar sem allt byggingarefni hlýtur að hækka um 22%. Nei, allt þetta bull um atvinnuaukningu af völdum gengislækkunarinnar er því bara fals og ekkert annað, sett fram til þess eins að reyna að villa mönnum sýn.

Af því, sem ég nú hefi tekið fram, og sömuleiðis sakir þess, að forsendur þær, sem hæstv. atvmrh. lagði til grundvallar fyrir málflutningi sínum, voru svo óljósar, að ekki verður á þeim byggt sem grundvelli fyrir slíkum ráðstöfunum sem þessum, þá leyfi ég mér að bera fram svo hljóðandi rökstudda dagskrá:

„Þar sem neðri deild Alþingis hefir vantraust á núverandi stjórn, telur deildin ekki rétt að afgreiða á þinginu mál, er gera stórfellda röskun á fjárhags- og atvinnumálum þjóðarinnar, meðan hún situr við völd, og vísar því frv. til l. um gengisskráningu og ráðstafanir í því sambandi frá og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.

Héðinn Valdimarsson. Ísl. Högnason. Einar Olgeirsson.“