22.04.1939
Efri deild: 47. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í C-deild Alþingistíðinda. (2731)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Frsm. (Ingvar Pálmason):

Ég skal ekki hafa langa framsögu fyrir hönd sjútvn. um þetta frv. N. er sammála um eitt: að málið eigi að ná fram að ganga. Hinsvegar liggur fyrir brtt. frá hv. þingmönnum Eyf. og hv. 9. landsk., sem n. hefir ekki tekið sérstaklega afstöðu til, en einn nm. hefir skrifað undir nál. með fyrirvara, og kemur hann fram í brtt. á þskj. 202.

Það, sem ég kann að segja um frv. fram yfir þetta, verður mest frá eigin brjósti, því að hv. nm. hafa nokkuð misjöfn sjónarmið. Vilja þeir að vísu gera breytingar frá núgildandi l., en eru ekki sammála um, hverjar þær skuli vera.

Þegar samþ. var á Alþ., að verksmiðjurnar skyldu gjalda í sveitarsjóði eða bæja ½% af framleiðslu sinni, var ekki komið í ljós eins og nú, að fasteignagjald til bæjarsjóðs t. d. á Siglufirði er hærra orðið en menn bjuggust við.

Ef ríkisverksmiðjurnar eru bornar saman við einkafyrirtæki, sem rekin eru annarstaðar á landinu, kemur í ljós að þær verða harðar úti með gjöld til þess opinbera en einstaklingar, a. m. k. utan Siglufjarðar. Því verða síldarverksmiðjur ríkisins ekki eins samkeppnisfærar og ella myndi, þar sem þær verða að taka síld til vinnslu af seljendum og svara svo út því verði, sem vinnslan gæfi efni til, en hinar verksmiðjurnar kaupa síldina föstu verði. Og þegar þetta munar t. d. 50 þús. kr. eins og er, ef miðað er við verksmiðjuna á Djúpuvík, er auðséð að ríkisverksmiðjurnar standa miklu verr að vígi en einkafyrirtæki, en það getur þó ekki hafa verið meining löggjafans. Því hefir komið fram till. í hv. Nd. um að fría ríkisverksmiðjurnar algerlega við fasteignaskatt til bæjar- og sveitarfélaga og tekju- og eignarskatt til ríkissjóðs. Er ekki nema sjálfsagt, að þær séu a. m. k. lausar við skatta til ríkissjóðs.

Ég skal geta þess, að þessi hálfi hundraðshluti, sem er gjald af framleiðslu verksmiðjanna, nam 1937 27000 kr. til Siglufjarðarbæjar og nokkru minna 1938. Þetta gjald virðist því sanngjarnara en fasteignaskatturinn, að það fer hækkandi og lækkandi eftir því sem verksmiðjurnar framleiða, — ef þessi fyrirtæki eiga á annað borð að greiða í bæjarsjóði eða sveitarsjóði. Í lögunum eins og þau eru nú má þetta gjald ekki verða meira en 25% af tekjum viðkomandi bæjar- eða sveitarfélags. En í frv. er lagt til, að hækka megi það upp í allt að 40%. Það er ekkert launungarmál, að fyrst og fremst er frv. flutt með tilliti til Raufarhafnar. Frá stjórn síldarverksmiðja ríkisins liggur skjallega fyrir, að það komi eiginlega aldrei til mála, að þetta ákvæði takmarki greiðslur þeirra á Siglufirði, — næst því mun það hafa komizt 1937, þegar það nam 13% af heildartekjum bæjarins. Þá kemur bara til álita: Er það sanngjarnt, að Presthólahreppur njóti þeirra hlunninda að mega taka allt að 40% tekna sinna frá verksmiðjunum, þegar engir aðrir geta notið þess ákvæðis? Ég hygg, að svo sé. Þar eru ekki til hliðsjónar nema verksmiðjur í einkarekstri, á Djúpuvík, Hjalteyri og Hesteyri. Frá síðastnefnda staðnum hefi ég ekki tölur. Á Djúpuvík hefir verið lagt á 8 þús. kr. útsvar og það er um ? af öllum útsvörum hreppsins. Á Hjalteyri er útsvarið 7 þús. kr., og það mun vera nálægt helmingi útsvara þess sveitarfélags. Þá virðist mér þessi breyt. vegna Raufarhafnar vel forsvaranleg og bót á l., enda kemur hún alls ekki til með að gera verksmiðjuna ófæra í samkeppni við aðrar verksmiðjur.

Þá kem ég að atriðinu, sem bætt var inn í hv. Nd., að undanþiggja ríkisverksmiðjurnar fasteignaskatti til bæjarsjóðs. Þá kemur aftur að samanburði við Hjalteyri, Hesteyri og Djúpuvík, þar sem um ekkert slíkt gjald er að ræða. Það virðist á nokkrum rökum reist að gera aðstöðu síldarverksmiðjanna á Siglufirði svipaða og þar. Auk þess er fasteignaskatturinn á ríkisverksmiðjunum á Siglufirði óeðlilega hár, ég held ósambærilegur við allt, sem taka mætti til samjöfnunar. Það er fært til andmæla þessu atriði, að svipta Siglufjarðarbæ þarna gjaldi af húsum og lóðum, að lagðar séu á hann byrðar vegna síldarverksmiðjanna, án þess að honum sé gert mögulegt að ná nokkru af þeim í staðinn. Og vitanlega má segja, að þarna fái verksmiðjurnar sérstök hlunnindi — verkalýðnum til handa. En þegar keppt hefir verið um að fá ríkisverksmiðjurnar þarna, hefir aldrei verið talað um, að þær mundu verða Siglufjarðarbær til þyngsla. Bærinn sóttist svo eftir því, að hann lét handa verksmiðjunum lóð, sem mig minnir að væri metin manna milli á 200 þús. kr. Einhvers virði hefir bærinn þá talið sér að fá þær. Ég hefi enga tilhneigingu til þess að toga skóinn niður af Siglufirði, og það er nú svo, að maður er í nokkuð mörgum málum hér að berjast við Siglufjörð. Það er dálítið leiðinlegt. En ég get ekki lokað augunum fyrir því, að Siglufjörður sé á sumum sviðum fullágengur. Og það verður að tryggja það með fullri festu, að hann geti ekki skattlagt verksmiðjurnar umfram það, sem annarstaðar er hægt. Það er ómótmælanlegt, að hann hefir afarmikið af sínum tekjum beint og óbeint upp úr því, að þær hafa verið settar þar á stofn, og ég hygg, að þrengra hefði verið þar fyrir dyrum, ef þær hefðu aldrei verið settar. Því ósanngjarnara er að skattleggja þær svo sem gert hefir verið. Nú hygg ég, að málið standi þannig, að bæjarstj. mundi vilja fallast á að lækka fasteignaskattinn um helming. En hann hefir verið 2% af lóðum og 1% af húsum og mannvirkjum og nemur nú 23312 kr. sem stendur. — Um það, hvort einhverja miðlunarleið beri að fara, geta verið deildar meiningar. Brtt. hv. 2. landsk. er það stillt í hóf — þó að hærra megi alls ekki fara — að ég mundi ekki ganga frá að samþ. frv., þótt hún næði fram að ganga. En ég mæli eindregið með því að afgreiða frv. eins og það liggur fyrir.