25.04.1939
Efri deild: 49. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í C-deild Alþingistíðinda. (2736)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti! Ég vil reyna að haga svo máli mínu, að ekki þurfi að vekja deilur. Mér er ljóst, að ef málið á að ganga fram, má ekki tefja það.

Eins og sjá má af nál., hefi ég skrifað undir það með fyrirvara og flutt brtt. á þskj. 202. Ég verð að geta þess, að þetta mál er mikið deilumál og hefir horft annan veg við frá mínum bæjardyrum en öðrum. Á síðasta þingi, þegar l. um síldarverksmiðjur var breytt, hafði ég sérstöðu um eitt atriði, veltuskattinn. Ég taldi hann ekki réttlátan, en til samkomulags hafði ég þó gert till. um, að hann yrði nokkur, en sú till. var felld. Ég fullyrði, að meðal fiskimanna er þessi skattur mjög óvinsæll. Hitt er annað mál, hver þörf bæjarfélaginu er á honum. Aftur á móti er það rétt, sem haldið hefir verið fram í umr., að fasteignaskatturinn, sem bæjarfél. mega leggja á allar fasteignir, kom ekki inn í umr. um síldarverksmiðjur ríkisins, en það er ekki af því, að menn hafi gleymt honum, heldur mun það stafa af því, að það er ekkert óvenjulegt, að bæjarfél. sé heimilaður þessi skattstofn. Til samanburðar skal ég benda á, að t. d. kaupfélögin þurfa að greiða fasteignaskatt. Ef um skattstofn er að ræða af hálfu bæjarfél., á hann að koma fram í fasteignaskatti, en ekki veltuskatti. Hinsvegar er ég þeirrar skoðunar, að það eigi ekki að hafa skattstiga fasteignaskatts svo háan, að hann verði mikil byrði á viðkomandi fyrirtæki. Ríkisverksmiðjurnar á Siglufirði hafa lent í hæsta skattstiga. Lóðir þar eru skattlagðar um 2%, en hús um 1%. Til að miðla málum, hefi ég gert till. um ½%, er gildi jafnt fyrir lóðir og hús. Þetta lækkar að sjálfsögðu tekjur bæjarins. Síðasta ár voru þær 23 þús. kr. á þessum skattlið einum. Þetta verð ég að játa, að er of hár skattstigi, og það var bent á það af hv. frsm., hve ólík yrði aðstaða verksmiðjanna við einkaverksmiðjur í samkeppninni við þær, þar sem þær hafa minni útgjöld til opinberra þarfa. Þetta verkar illa á almenningshag, því að ríkisverksmiðjurnar eiga að ákveða verðlagið almennt á vinnslusíld.

Það má ræða þetta mál frá mörgum hliðum. Ég verð að geta þess, að ég hefi breytt hér nokkuð till. um það, hvernig haga skuli útsvarsgreiðslu verksmiðjanna. Í frv. er gert ráð fyrir 40%, en ég hefi viljað lækka það niður í 30%, af því að þetta mun vera sérstaklega stílað upp á verksmiðjuna á Raufarhöfn. Það kom í ljós, að árið 1937 var þessi hluti verksmiðjunnar á Raufarhöfn hærri en heimilt var að greiða, sem sé 26,29%. En 1938, sem var heldur lélegt vinnsluár, nam þetta ca. 8,5%. Nú er í ráði að auka verksmiðjuna á Raufarhöfn og afköst hennar um ?, og jafnvel í lélegu ári hlytu þá tekjur hreppsins alltaf að nema 6000 kr.

Þó að mín afstaða sé sú, sem ég hefi sagt, er ég jafnandvígur veltuskattinum fyrir því og mundi gera till. um það efni og leggja fram, ef ég héldi, að það þýddi nokkuð.

Um brtt. á þskj. 214, sem breytir í minni till. fasteignagjaldsheimildinni úr 0,5% í 0,7%, vil ég ekkert segja fyrr en ég hefi heyrt rök hv. flm. fyrir henni. — Tel ég mér ekki nauðsynlegt að ræða fleira um þetta að sinni.