25.04.1939
Efri deild: 49. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í C-deild Alþingistíðinda. (2737)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Erlendur Þorsteinsson:

Það mundi þurfa æðimörg orð til að hrekja allt það blekkingamoldviðri, sem þyrlað hefir verið um þetta frv. af málsvörum þess, bæði hér og í hv. Nd. Þyrfti þess þó, eftir ræðu hv. 2. þm. S.-M. (IngP), sem leggur til að samþ. frv. eins og það er komið frá hv. Nd. Það verður ekki komizt hjá að skýra frá, hvers vegna verksmiðjurnar komu á Siglufjörð. Og ef fleiri hv. þm. eru eins fáfróðir um þetta og hann virtist vera, veitti ekki af, að þeir fengju einhverja nasasjón af því. Hann gat um, að bærinn hefði sótzt svo eftir verksmiðjunum, að hann hefði gefið til þess lóð, sem manna milli væri metin á 200 þús. kr. Sannleikurinn er sá, að eftir að mönnum var ljóst, að á Siglufirði ættu ríkisverksmiðjurnar að vera, af því að þar er bezta aðstaðan á landinu til þeirra hluta, átti ríkisstj. í samningum við bæjarstj. Siglufjarðar um þessa lóð, og var þeim Böðvari heitnum Bjarkan og Pétri Ólafssyni, sem þá var forstjóri síldareinkasölunnar, falið að meta hana. Þeirra mat, en ekki nein ágizkun manna á meðal, var 200 þús. kr., enda er lega lóðarinnar slík, að dýrmætari blettur yrði þar ekki fundinn. Það varð að samkomulagi milli bæjarstj. og ríkisstj., að bærinn legði fram þessa 200 þús. kr. lóð sem stofnfé í verksmiðjurnar og fengi af því jafna vexti og ríkið af sínu framlagi; einnig var samið um, að bærinn fengi einn mann af þremur í verksmiðjustjórnina. Þetta stóð óbreytt til 1931, að maður einn, sem rétt er að nefna ekki í þessu sambandi, þar sem hann er utanþingsmaður, beitti sér af miklu kappi fyrir að fá þann fulltrúa, sem bærinn átti, úr stjórninni og tókst það loks, en fulltrúi sá, sem kom í staðinn, mun hafa verið talinn fyrir útgerðarmenn. En verksmiðjurnar héldu stöðugt áfram að greiða 5% ársarð af lóðarverðinu, eða 10 þús. kr.

Árið 1935, þegar ákveðið hafði verið að auka ríkisverksmiðjurnar, byggja nýja verksmiðju, mun það hafa verið sótt allfast af bæjarstjórn Siglufjarðar, að ekki kæmu aðrir staðir til greina fyrir hana en Siglufjörður, — þó að raunar hefði ekkert þurft að óttast, því að viðurkennt var, hverja yfirburði sá staður hafði, og búið að byggja þar bryggju og önnur mannvirki, sem nýja verksmiðjan gat notað. Þeir, sem sömdu fyrir ríkisstj., notuðu sér það á þessum atvinnuleysistíma, hve fast var sótt að fá verksmiðjuna, — vegna þeirra manna, sem síldariðjan var þegar búin að draga á staðinn — og höfðu það fram, að Siglufjörður afhenti þessar 200 þús. kr. án þess að gera nokkrar kröfur á móti. Auk þess varð hann að uppfylla lóðarræmu, sem mun hafa kostað 28–30 þús. kr., lengja bryggjur og dýpka við þær, sem mun hafa kostað um 20 þús. kr. M. ö. o. hefir bærinn lagt til þessa mannvirkis um 250 þús. kr. án þess að semja um nokkurt endurgjald.

Nú sýndi það sig, að Siglufjörður komst í fjárþröng og neyddist til að fá lán úr kreppulánasjóði sveitar- og bæjarfélaga. En um leið var líka auðséð, að ekki varð haldið áfram, nema bærinn fengi nauðsynlega tekjustofna. Milliþn. sú, sem rannsakaði hag bæjar- og sveitarfélaga um land allt og skilaði till. í því máli, lagði til, að sett yrði fast vörugjald í öllum kaupstöðum. Það var ekki gert. En óvíst er, að ríkisverksmiðjurnar hefðu með því móti sloppið ódýrar en með núgildandi lögum. Á haustþinginu 1937 samþykkti Alþingi frv. um tekjuauka fyrir bæjar- og sveitarfélög. Þar var heimilað að leggja allt að 2% fasteignagjald á hús og mannvirki. Áður hafði fasteignagjald verið leyft á Ísafirði með sérstökum lögum. Þá lágu einnig fyrir Alþingi lögin um breyt. á l. um síldarverksmiðjur ríkisins. Þar var samþ., að þær skyldu greiða ½% af „brúttó“-söluverði afurða sinna. Það er öllum vitanlegt, að ef Alþingi hefði ætlazt til þess þá, að verksmiðjurnar greiddu ekki annað en það til hins opinbera, mundi það hafa verið tekið fram í lögunum, og það því fremur, sem þá lá einnig fyrir áðurnefnt frv. um fasteignaskatt. — Lögin um hann komu til framkvæmda 1938. Þau gáfu ekki nema um 60 þús. kr. alls á Siglufirði, svo að ekki hrekkur það til allra þarfa. Fasteignagjaldið var ákveðið 2% á Siglufirði, í reglugerð, sem samin var fyrir þáverandi bæjarstjórn og séð um af Guðmundi Hannessyni bæjarfógeta. Nú var því haldið fram í Nd., að bæjarfógetinn hafi flekað atvmrh. til að samþ. reglugerðina. Hinn vil ég heldur trúa, að nauðsyn bæjarins hafi komið ráðh. til að fallast á hana óbreytta. Næsta atvik í málinu er það, að á þessu þingi er flutt frv., sem hér liggur fyrir, þótt nú sé umskapað, um að víkka vegna Presthólahrepps möguleika hans til að njóta ½% gjaldsins af söluverði verksmiðjuframleiðslunnar. Þá kom fram við það og var samþ. brtt. frá hv. þm. Ísaf. (FJ) og hv. þm. Borgf. (PO), þar sem Siglufjörður er sviptur fasteignagjaldi af verksmiðjunum, tekjunum, sem nýbúið er að veita honum. Það hefir verið rætt, hversu óviðeigandi það sé að blanda þessum tveim málum saman í einu frv., og fer ég ekki frekar út í það. Í bréfi um þetta mál frá stjórn síldarverksmiðja ríkisins, dags. 3. marz, er bent á það m. a., að frv. eins og það var í fyrstu muni ekki skipta neinu fyrir verksmiðjur á Siglufirði og Flateyri (Sólbakka), því að ½% veltugjaldið geti aldrei numið meira en ¼ útsvara á þeim stöðum, og hefir ekki numið nema í mesta lagi 1/7 þeirra. Breytingin þurfti ekki að ganga fram nema vegna þessa eina hrepps á Sléttu. Og sú tekjuskerðing, sem brtt. í Nd. hefir í för með sér, bætist að engu leyti upp með fyrri breytingunni. Nú má geta um, að Siglufjörður hefir gengið frá fjárhagsáætlun sinni fyrir árið 1939 og gert ráð fyrir að halda núverandi tekjum. Það virðist nokkuð hart, að Alþingi kippi þá á eftir að sér hendinni og ræni bæinn því, sem það gaf í fyrra. Það mun ekki vera nema upp undir ? af þeim, sem atvinnu sína hafa í bænum, sem hægt er að ná útsvörum af — vegna ranglátrar útsvarslöggjafar. Og þorri þeirra manna, sem búa þar og eiga að bera bæjarfélagið uppi, þegar tekjur af öðru þrýtur, eru fátækir verkamenn og sjómenn með þetta 1800–2000 kr. árstekjur. Í ár verður bærinn að leggja á 237 þús. kr. útsvör og svo til viðbótar, ef hið háa Alþingi ætlast til, að ríkisverksmiðjurnar komist hjá því að greiða þau gjöld, sem nú eru lögboðin. Oft hefir verið látið af því, hve mikla atvinnu verksmiðjurnar sköpuðu Siglfirðingum. Ég hefi hér fyrir framan mig lista yfir alla þá, sem hjá þeim hafa unnið, og yfir kauphæð þeirra. Samkv. þeim lista er kaupið 1500 og allt upp í 3000 kr. á ári, og það eru nálega allar árstekjur þeirra flestra. Þeir fá ekki aðra vinnu. Það er viðkvæðið við þá: Þú ert nú fastráðinn hjá ríkisverksmiðjunum og hefir nóg að gera þar. — Þá er mikið af því látið, hvað skipin, sem leggja afla á land á Siglufirði, gjaldi bænum háar upphæðir. En það eru samt ekki nema 48–80 og kannske 90 kr. af skipi á sumri, — misjafnt eftir stærð. Og þeir peningar renna ekki í bæjarsjóð, þá er ekki hægt að nota til heilbrigðismála, fræðslumála o. s. frv. bænum til menningarauka, heldur ganga þeir í hafnarsjóð. Nú er verið að byggja öldubrjót við Siglufjarðareyri. Það er verk, sem kostar 650–700 þús. kr. Þar af greiðir ríkissjóður 200 þús. kr., en Siglufjörður 450–500 þús. kr. Og þetta er nær eingöngu gert til þess, að stillt verði í sjó við bryggjur ríkisverksmiðjanna og hægt að koma þar við löndunartækjum og bæta stórum aðstöðu þeirra til að hagnast á aukinni síldarmóttöku.

Það er eins og sérstökum ofsóknum sé haldið uppi gegn Siglufirði af sumum mönnum í sölum hins háa Alþingis. Ég veit ekki, hvað veldur. En þeir hv. þm., sem vilja nú svipta bæinn rétti, sem hann er nýbúinn að fá ásamt öðrum kaupstöðum, hljóta að hafa gert sér grein fyrir, hvers vegna þeim finnst sá ójöfnuður réttmætur. Á síðasta þingi voru Hafnarfirði veittar sérstakar tekjur af umferð milli bæjarins og Reykjavíkur. Vestmannaeyjum hafa lengi undanfarið verið veittar tekjur af vörugjaldi. Akureyri er leyft að taka vörugjald af öllu, sem þar er flutt á land, bæði til bæjarins og aðliggjandi héraða. Ísafirði var veittur fasteignaskattur, eins og ég nefndi. En loks þegar Siglufjörður fær jafnrétti 1938 og hlutdeild í sameiginlegum hagsbótum kaupstaðanna, þá geta þessir hv. þm. ekki annað en komið ári síðar með till. um að ræna hann þeim rétti. Þeir hljóta að hafa sínar ástæður. En hverjar eru þær?

Ég vil þakka hv. 2. landsk. (SÁÓ) fyrir brtt. hans og skilning á málinu, og enn meir hv. 9. landsk. (ÁJ) fyrir þá brtt., sem hann hefir gert og gengur lengra í áttina til réttlætisins. Ég mun greiða atkv. með brtt.

En ég hafði vonazt til þess, að hv. Ed. mundi verða móti frv. og færi ekki að svipta Siglufjörð og e. t. v. fleiri kaupstaði þeim tekjum, sem nýbúið er að veita þeim.