25.04.1939
Neðri deild: 52. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í C-deild Alþingistíðinda. (2746)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Atvmrh. (Ólafur Thors):

Þegar frv. þetta var til umr. hér í hv. deild, greiddi ég atkv. með því, þar sem ég taldi, að ríkisverksmiðjunum væri nú misívilnað. En nú hefir þessu máli undið þannig fram í hv. Ed., að frv. var fært þar í það form, sem það hefir hér, og er mér tjáð, að líkur séu fyrir því, ef hv. Nd. breytir því í hið upphaflega form, að það verði þá fellt í Ed., og yrði þá hlutur ríkisverksmiðjanna gerður þyngri en þó myndi verða samkv. þessu frv. eins og það liggur nú fyrir. Þeim, sem bera hag ríkisverksmiðjanna fyrir brjósti, væri því hentast að samþ. frv. eins og það er nú, og mætti þá taka málið upp að nýju á haustþinginu, ef þurfa þætti. Af þessum ástæðum mun ég greiða frv. atkv. að þessu sinni, en ég er reiðubúinn til að styðja að því, að málinu verði ráðið til lykta á haustþinginu.

Ræðu hv. þm. Ísaf. þarf ég ekki miklu að svara, en þó eru nokkur atriði, sem máli skipta og ég vil minnast á í því sambandi, eins og t. d. það, að ég hygg, að færa megi líkur að því, að verksmiðjur einstaklinga hafi greitt frá 15 og allt upp í 35 aura á mál í útsvar, eins og verksmiðjan á Hesteyri. Að öðru leyti leiði ég athygli að því, að ef það er rétt, sem hv. þm. sagði, þá eru það heldur rök gegn því að hafa ríkisverksmiðjur á Siglufirði. Annars held ég, að verksmiðjurnar þar á staðnum standi betur að vígi en aðrar um viðskipti og það vegi upp á móti því, hve Siglufjarðarbær er þungur á fóðrunum hjá ríkisverksmiðjunum.