25.04.1939
Neðri deild: 52. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í C-deild Alþingistíðinda. (2752)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Finnur Jónsson:

Mér er vel kunnugt um það, að Siglufjarðarbær hefir betri skattstofna en aðrir kaupstaðir af sömu stærð hér á landi, þótt hann fái ekki nein útsvör frá ríkisverksmiðjunum. Þessu til sönnunar vil ég benda á, að af útfluttri síld getur Siglufjarðarkaupstaður lagt á umsetningu, sem svarar 3 millj. kr. á ári, eða sem næst umsetningu, sem mundi svara um 40 þús. skippundum af fiski.