25.04.1939
Efri deild: 53. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í C-deild Alþingistíðinda. (2757)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Bernharð Stefánsson:

Ég ætla ekki að fara að ræða um þetta mál nú, því að öll rök, bæði með og móti þessu frv., hafa nú komið fram, og ég ætla ekki að endurtaka neitt af því. Mér þykir líklegt, að þessi hv. deild vilji láta frv. vera í þeirri mynd, sem hún hefir áður samþ. það í, og mér finnst, að ekkert vit sé í því að skipta hv. Alþ. í tvær deildir, ef það á að vera svo, að Ed. eigi endilega að beygja sig fyrir því, sem Nd. hefir samþ., enda þótt það sé alveg þvert á móti því, sem Ed. hefir samþ. fyrir stuttu síðan.

Við þrír dm. hér í Ed. höfum þess vegna leyft okkur að bera fram skrifl. brtt. við þetta frv. Hún miðar, í stuttu máli sagt, að því að færa þetta frv. í það horf, sem það var samþ. í hér í hv. Ed. í morgun, og ég vil leyfa mér að afhenda hæstv. forseta þessarar d. þá brtt.