25.04.1939
Sameinað þing: 10. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í C-deild Alþingistíðinda. (2765)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Atvmrh. (Ólafur Thors):

Þegar þetta frv. var til 1. umr. og atkvgr. í Nd., greiddi ég atkv. með því út frá því sjónarmiði, að ég taldi æskilegt að létta af nokkrum gjöldum, sem hvíldu á ríkisverksmiðjunum, með hliðsjón af því, að það væri um misrétti að ræða milli ríkisverksmiðjanna annarsvegar og verksmiðja einstaklinga hinsvegar.

Ég álít, að rétt væri að ganga nú frá frv. eins og Ed. afgreiddi það. Því frekar á að gera það, þar sem mér hefir verið tjáð af fulltrúum 2 stjórnmálaflokka á Siglufirði, hv. 10. landsk. og fulltrúa Sjálfstæðisfl. þar, Ole Hertervig, að ef 1. verða afgr. eins og þau nú liggja fyrir, þá muni Siglufjörður láta þau ná einnig til ársins 1938 og þannig ívilna ríkisverksmiðjunum um 8–9 þús. kr. frá því, sem l. standa til.

Það hefir komið fram í umr., einnig frá hv. 10. landsk., að Siglufjörður eigi töluverðan rétt á því að hafa þær tekjur, sem hér er farið fram á með frv. Hinsvegar mótmælir hv. þm. Ísaf. því harðlega. Það er ekki gott að átta sig á, þegar 2 jafnmætir menn úr sama flokki deila, og annar segir það svart, sem hinn segir hvítt, hvur hafi á réttu að standa. Ég hefði gjarnan viljað eiga þann hlut að þessu máli, að það yrði til lykta leitt þannig, að Siglufjörður bæri þar ekki skarðan hlut frá borði. Ég vildi líka eiga þann hlut að máli, að samkomulag næðist, svo báðir þeir aðilar, sem hér eiga hlut að máli, mættu sæmilega við una. En eftir því, sem málefni standa til frá mínum bæjardyrum, og með hliðsjón af hinum mismunandi rökum og staðhæfingum, sem komið hafa fram frá hv. 10. landsk. og hv. þm. Ísaf., þá mun ég greiða atkv. gegn brtt. hv. þm. Ísaf. og hv. þm. Borgf., en verði það svo, að sú till. verði samþ. og frv. þá komið í sinn upphaflega búning, þá sé ég mér þó ekki annað fært — og það þrátt fyrir nýjar upplýsingar, sem þó því miður hafa verið vefengdar, — en að greiða atkv. með frv., þó þar með yrði að afgreiða málið í öðru formi en það nú er í.

Nú er hér annarsvegar um að ræða bæjarfélag, en hinsvegar fyrirtæki, sem er í nánum tengslum við ríkið, og hversu sem fer um þetta mál í þinginu, þá geri ég mér vonir um, sérstaklega ef hæstv. félmrh. á hér einnig hlut að, að það megi takast, hvað sem l. líður, að gera viðunandi samkomulag í þessu efni eftir að þingi er lokið. Ég verð að segja, að ef þær upplýsingar, sem hv. 10. landsk. gaf hér áðan, standast dóm reynslunnar, þá er það engum vafa undirorpið frá mínu sjónarmiði, að hann hefir góðan málstað að flytja, og að ekki er gengið á hlut ríkisverksmiðjanna miðað við það, sem aðrar verksmiðjur eiga við að búa.

Um leið og ég endurtek, að ég mun greiða atkv. á móti brtt., en með frv., þá vil ég lýsa því yfir, að það bindur ekki mína afstöðu til þessa máls í framtíðinni, því hún mun einungis velta á niðurstöðu rannsóknar, sem ég mun hlutast til um, að fari fram um þetta mál.

Að öðru leyti vil ég segja, að ég kann ekki við, sérstaklega ekki frá þeim hv. þm., sem telja sig bera hagsmuni verkalýðsins sérstaklega fyrir brjósti, að verið sé að átelja ríkisverksmiðjurnar og þar með ríkissjóð fyrir þá viðleitni, sem sýnd hefir verið í því að starfrækja verksmiðjur, sem annars hefðu verið óstarfræktar, eins og var um verksmiðjurnar á Sólbakka og á Húsavík. Það eru tvö sjónarmið, sem athuga verður jöfnum höndum og er annað þeirra að reka fyrirtækin þannig, að sem beztrar hagsýni sé gætt, og reyna að láta þau skila arði, en hitt er líka atriði, sem þarf að taka tillit til, að láta ekki niður falla um hábjargræðistímann atvinnu mörg hundruð manna á Sólbakka og á Húsavík, sem niður hefði fallið, ef ríkið hefði ekki gert skyldu sína. Það er sjónarmið, sem vert er að hafa í huga, enda verð ég að draga í efa, að það þurfi að vera um taprekstur að ræða, og hefi ég þá í huga aðra verksmiðju, sem stendur eins að vígi, en er þó rekin með arði. Það er að því leyti um aðra afstöðu að ræða, að það koma fleiri sjónarmið til greina af hendi hins opinbera heldur en þegar um er að ræða fyrirtæki í einkarekstri. Ég verð því að vísa alveg frá þeim orðum, sem látin voru falla í garð verksmiðjustj. og þar með ríkisstj., út af viðleitni til að halda uppi starfrækslu, sem annars hefði fallið niður og þar með valdið atvinnuleysi. En auk þess, sem sjónarmiðið um atvinnuaukningu verður að vera ríkt í huga ráðamanna þjóðarinnar, þá er þess einnig að gæta, að þarna er um að ræða aukna möguleika til gjaldeyrisöflunar.

Ég held því, að það sé ekki ástæða til að draga þessa hlið málsins inn í umr., og ég hygg, að það sé ekki hagkvæmt fyrir þá, sem berjast fyrir hagsmunum Siglufjarðar.