25.04.1939
Sameinað þing: 10. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í C-deild Alþingistíðinda. (2768)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Pétur Ottesen:

Ég verð að segja, að þegar maður hlustar á hina frekjulegu túlkun hv. 10 landsk. á hagsmunum Siglufjarðarkaupstaðar, á ekki við málshátturinn, að sjaldan launi kálfur ofeldi. En ég ætla að fullyrða, að ríkið hefir búið svo margfalt betur að þessu bæjarfél. en nokkru öðru í landinu, með því að stofnsetja þar atvinnufyrirtæki, sem framleiðir þriggja millj. kr. verðmæti til útflutnings. Hvernig stæði Siglufjörður nú, ef ekki hefði verið gripið til þessara framkvæmda? Á Siglufirði voru áður tvær verksmiðjur í einkaeign, í eigu útlendinga. Voru þeir ekki báðir búnir að gefast upp á rekstrinum? Hvernig var það með dr. Paul's verksmiðjuna? Hún var búin að standa í 2 ár ónotuð, þegar ríkið keypti hana. Þarna hefir verið sett upp atvinnufyrirtæki, þar sem allt var í auðn. Þess vegna hefir í þessu efni verið búið miklu betur að Siglufirði en öðrum bæjarfélögum. Svo spyrja menn, af hverju Siglufjörður hafi ekki sama rétt og aðrir. Hvaða bæjarfélög mundu ekki fegins hendi taka á móti þeirri aðhlynningu, sem svo stórt atvinnufyrirtæki er, þó að það fengi alls engan fasteignaskatt? Við skulum líta á, hvað þróunin segir í verksmiðjumálunum. Bendir hún á, að einstakir menn færu að reisa verksmiðjur á Siglufirði? Nei, þeir hafa farið framhjá Siglufirði. Þeir hafa reist verksmiðjur við Húnaflóa og við Eyjafjörð. Það eru engar horfur á öðru en að ef þessi stóru fyrirtæki ríkisins væru ekki þarna, væri bara um engan síldariðnað að ræða. Og ég verð að segja, að það var í raun og veru óverjandi undanlátssemi á síðasta þingi, þegar það var tekið í mál, að Siglufjörður skyldi fá að skattleggja menn, sem leggja upp afla; svo eru hagsmunir bæjarfélagsins stórfelldir. Þingið ætti að svara þessari óforsvaranlegu frekju með því að taka líka af Siglufirði réttinn til að leggja á umsetningu verksmiðjanna. Nei, þetta mál liggur svo augljóst fyrir, að það er fyrir neðan virðingu þingsins að ræða kröfur þessara frekjudólga, sem að því standa.

Mér virðist mesti vindurinn vera úr hv. 10. landsk. í seinni ræðu hans, eftir að hv. þm. Ísaf. var búinn að snúa röksemdum hans upp í hreina vitleysu. Annars var það mjög góð lýsing á hugarfari og innræti þessa hv. þm., þegar hann fór að draga það inn í umr., að við hv. þm. Ísaf. hefðum tekizt á á síðasta þingi, og að það væri í ósamræmi við afstöðu okkar nú. Þetta sýnir, hve hæfur þessi hv. þm. er til þingsetu, hversu mikill vesalingur hann er í hugsun og hvað skapgerð hans er aumingjaleg.

Það er upplýst í deilum, sem þessi þm. átti í í Ed. í fyrra, að hann hefir verið nokkuð laus á kostunum pólitískt. Að hann hefði verið í skrifstofu Sjálfstfl. á Siglufirði, en seinna hjá framsóknarmönnum og loks hjá sósíalistum. Mönnum ferst illa að belgja sig, sem komast ekki nema það, sem aðrir fleyta þeim. Það má líkja honum við vesalasta dýr sjávarins, óskabjörninn, sem kemst ekkert nema það, sem aðrir fiskar bera hann á sporði sér.