03.04.1939
Neðri deild: 33. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í B-deild Alþingistíðinda. (277)

69. mál, gengisskráning og ráðstafanir í því sambandi

Haraldur Guðmundsson:

Einn hv. þm., sem hér talaði áðan, lýsti yfir ánægju sinni yfir því, að þetta frv. er fram komið. Það get ég ekki gert. Hinsvegar verð ég að játa, eftir því, sem hæstv. forsrh. lýsti ástandinu áðan, og að því er ég hygg nokkurn veginn réttilega, að ekki verði hjá því komizt, að úr skeri um það, hver leið verði valin til að styðja útgerðina. Og ég er sömu skoðunar og hæstv. forsrh. um, að úr því sem komið er, sé líklegt, að þessi leið, sem hér er bent á, sé sú eina, sem fær er. Ég get þó ekki látið hjá líða að bæta því við, að það er að miklu leyti því að kenna, hver málsmeðferð hefir verið á höfð af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Það er búið að ræða gengislækkun sem yfirvofandi á hverjum degi eða viku í síðustu 6–12 vikurnar, á einn hátt eða annan. Og það liggur auðvitað í augum uppi, að ekkert þjóðfélag getur þolað slíka óvissu í máll sem þessu. Á þetta ástand varð að binda enda, og mér virðist, eins og komið er, að ekki sé nú önnur leið fær þrautaminni, sem getur veitt útgerðinni nokkra hjálp, sem um munar.

Hv. 5. þm. Reykv. lét svo um mælt, að Alþfl. væri meðflytjandi þessa frv. Þetta er með öllu rangt. Hv. þm. Ísaf., sem er meðflm. frv., ásamt 3 öðrum hv. þm., tók mjög skýrt fram í ræðu sinni, að hann flytti frv. persónulega sem einstakur þm. og að skoðanir Alþfl.manna væru mjög skiptar í þessu máli, enda er það fullkomlega rétt. En um hitt er Alþfl. allur sammála, það, að óhjákvæmilegt sé, ekki aðeins vegna sjávarútvegsins, heldur vegna landsmanna allra, að reyna að gera eitthvað sjávarútveginum til viðreisnar. Hv. þingheimur veit, að þetta er svo. Ástand sjávarútvegsins er svo, að það getur ekki lengur dregizt

Ég átti sæti í mþn. í sjávarútvegsmálum, og ég var einn af þeim, sem samþ. að lýsa því yfir, að óhjákvæmilegt væri að leggja til við Alþingi, að gerðar yrðu ráðstafanir til þess að bæta afkomuskilyrði sjávarútvegsins að mjög verulegu leyti. Það var beint framhald af mínu

fyrra starfi í þessum efnum allt frá því stjórnarsamvinnan hófst 1934, sem fram kom í frv. þeim og tillögum, sem Alþfl. flutti varðandi þessi mál. Ég hefi í nefndinni bent á ákveðna leið, sem ég taldi þá, þegar við störfuðum í n. um síðustu áramót, að væri vel fær: að afla fjár á ýmsa vegu, með skatti á vexti og eignamenn, með því að taka af álagningu heildsala og með tollum og samkaupum útgerðarmanna, og leggja svo þetta fé fram sem beinan og óbeinan styrk til sjávarútvegsins. Um þetta fékkst ekki samkomulag í n.hv. þm., sem síðast talaði hér, hv. 6. þm. Reykv., og átti sæti í mþn., tók mjög fálega mínum till., svo að ekki sé frekar að orði kveðið, og mér þykir sýnt, eftir að hafa leitað allrækilega fyrir mér, að þessi leið sé ekki fær, þar sem þingfylgi er ekki fáanlegt fyrir henni. Og eins og þessum málum er komið nú, er mun torveldara að fara hana en var fyrir 3 mánuðum síðan. Ég er svo gerður, að ég fæ mig ekki til þess að neita staðreyndum, og það er staðreynd, að nú er svo komið málum sjávarútvegsins, að grípa verður til stórfelldra aðgerða, sem kosta þungar fórnir. Mér dettur ekki í hug að neita þessari staðreynd, og afleiðingin er sú, að ég tel mér skylt að taka þátt í þeim aðgerðum, svo framarlega sem þær eru á þann veg, að ekki verði beitt meiri harðneskju gagnvart einstaklingum og stéttum en svo, að það sé þjóðarnauðsyn og líklegt til að bæta hag almennings. Ég viðurkenni fyrir mitt leyti, að með samþykkt þessa frv. eru margir einstakir menn hart leiknir, sumir kunna að segja, að þeir sér beittir ranglæti, samkvæmt venjulegum hugsunarhætti. En hvar væri hagur þessara manna kominn, ef undirstöðuatvinnan drægist svo saman, að hún jafnvel félli niður í heilum landshlutum?

Áður en ég vík að efni frv., vildi ég mega beina fyrirspurnum til hæstv. atvmrh., sem er flm. að þessu frv.

Í fyrsta lagi: Er það ekki tvímælalaust, að lifrarhlutur sjómanna á togurum komi undir ákvarðanir frv. um hækkun eftir vísitölu eins og annað kaup?

Í öðru lagi: Er ekki tvímælalaust, að aflaverðlaun á síldveiðum, sem eru miðuð við það, að þau hækki með hækkandi verði á síldinni. standi óbreytt þrátt fyrir samþykki frv.? Á ég þar við, að þegar verð á síld til bræðslu fer upp í 6 kr. málið á premian að hækka um 20% og verða kr. 3,60 pr. 100 mál, en 25%, eða kr. 3,75, ef verðið kemst upp í kr. 6,25.

Í þriðja lagi, hvort hann skilur frv. ekki svo, að allir, sem eru ráðnir upp á aflaverðlaun af fiski, er miðast við magn, þannig að þeir fá ákveðið krónutal fyrir hvert skippund eða smálest, eigi að njóta sama hagnaðar af gengislækkuninni og þeir, sem taka hlutinn sjálfan.

Um einstök atriði frv., mun ég ræða nokkuð við 2. umr. Þá verða væntanlega komnar fram brtt., sem ég hefi lagt fram, en um 3. gr. vil ég segja strax, að ég get alls ekki greitt henni atkv. Ég tel ekki vera nægilega ríka ástæðu til að gera svo stórfelldar ráðstafanir sem þar er gert ráð fyrir, þ. e. a. s. að svipta verkalýðsfélög og atvinnurekendur gersamlega rétti til samninga í heilt ár. Á síðasta ári var samþ. vinnulöggjöf. Þessum l. var ætlað — og ég hygg, að þau muni að miklu leyti ná þeim tilgangi — að fella í ákveðið form meðferð deilumála milli atvinnurekenda og verkamanna, og ég tel enga ástæðu til að ætla, þótt þetta frv. yrði að l., að til svo stórfelldra vinnudeilna muni leiða, að það réttlæti, löngu fyrr en nokkuð slíkt sýnir sig, að banna með l. alla viðleitni atvinnurekenda og verkalýðsfélaga til að semja sín á milli um kaup og kjör. Við afgreiðslu vinnulöggjafarinnar var lögð á það rík áherzla, að skerða í engu samningsrétt aðilja sjálfra. Sérstaklega tel ég, þegar það nú er sýnt, að stærsta verkalýðsfélag landsins, verkamannafélagið Dagsbrún í Reykjavík, hefir af einhverjum ástæðum samið um óbreytt tímakaup að því er mér skilst næsta 15 mánuðina, þ. e. a. s. til 1. júlí 1910, og er jafnbundið af þessum samningi og lög væru, að enn minna tilefni sé til þess að setja svo fjarstæð og harkaleg ákvæði sem gert er í 3. gr.

Annars verð ég að segja, að það lítur út fyrir, og það segi ég í sambandi við ummæli hv. 3. þm. Reykv. um hv. þm. Ísaf., þar sem hann valdi honum þau orð, að hann væri svikari við verkalýðinn, ef hann tæki ábyrgð á slíkum aðgerðum sem gert er ráð fyrir í þessu frv., að hv. þm. loki alveg augunum fyrir því, sem honum er þó fullkunnugt um, þ. e. hvernig ástandið í landinu er nú. Hann veit og hefir vitað það lengi, að óhjákvæmilegt var að annaðhvort hlaut að koma, gengislækkun, jafnvel meiri en gert er ráð fyrir í þessu frv., eða þá að samþ. yrðu stórkostlegar tollahækkanir. Vitandi þetta hvorttveggja hefir hann, að því er ég bezt veit án þess að halda fund um það í félaginu Dagsbrún, samið um óbreytt tímakaup fyrir verkamenn í félaginu til 1. júlí 1910. Ég neita ekki að taka á mig ábyrgð sem þm. í þessu máli, en hv. 3. þm. Reykv. telur sitt hlutskipti hér gott, að koma sér undan slíkri ábyrgð. En ábyrgðin gagnvart verkamönnunum í Dagsbrún, — hvernig ætlar hann að komast undan henni, að afsaka það að hafa gert þennan samning, vitandi að annaðhvort hlaut að koma gengislækkun eða tollahækkanir, sem hefðu sömu áhrif á verðlagið. (HV: Við skulum tala um það á Dagsbrúnarfundi annað kvöld). Það hefir stundum orðið hlutskipti mitt og annarra Alþfl.manna að bæta fyrir fljótræði þessa hv. þm., og hefir það oft kostað mikið erfiði. Það lítur út fyrir, þótt hann sé nú kominn í annan félagsskap, honum geðfelldari, að þá eigi það enn að vera hlutskipti okkar Alþfl.manna að bæta fyrir afglöp þessa hv. þm. Hvar væru nú Dagsbrúnarmenn staddir með sitt kaup, ef Alþfl. hefði ekki lagt megináherzlu á að bæta fyrir afglöp þessa hv. þm., eins og nú er gert með 2. gr. þessa frv. En þar er það gert með því að bæta þeim með kauphækkun að hálfu dýrtíðaraukninguna, ef hún nemur 10%, og að 2/3 það, sem hún verður yfir 10%. En hvað hefir hv. þm. gert til að tryggja þetta? Ég veit ekki til, að hann hafi gert neitt, þvert á móti bundið hendur félagsins. Hvar væri hann staddur gagnvart sínum umbjóðendum í Dagsbrún, ef ekkert hefði verið gert til að bæta úr hans fljótfærni og glapræði?

Það er kannske rétt, að ég víki að því um leið, að rekkjunautur hv. þm., hv. 5. þm. Reykv., las hér upp nokkrar prýðilegar greinar úr Alþýðublaðinu frá árinu 1937. Hann sleppti að vísu að lesa þar upp lýsingarnar, sem hv. 3. þm. Reykv. gaf þá af honum. Hann ætti að lesa þær ásamt Þjóðviljanum, þar sem verið er að lýsa hv. 3. þm. Reykv. Það væri ekki óskemmtilegt að hlýða á þær nú. Hv. þm. segir, að ég hafi skipt um skoðun í gengismálinu frá því árið 1932. Hann má gjarnan orða það svo. Hið rétta er, að gildi krónunnar er ekki hið sama nú og það var þá. Hygg ég, að ekki þurfi að leiða að því mörg rök. Ég sagði áðan, að mér dettur ekki í hug að neita staðreyndum, og ég vil ekki neita því ástandi, sem er. Það þýðir ekki, það breytist ekki fyrir það. Það er bleyðiskapur að þora ekki að horfast í augu við raunveruleikann. Ástandið er breytt frá því, þegar þessar greinar voru skrifaðar. Þær ráðstafanir, sem dugðu þá, duga ekki nú, og verður því að grípa til annarra. Þegar óhjákvæmilegir erfiðleikar steðja að, stoðar lítið til bjargar að þvo hendur sínar og segja: Við skulum ekki skipta okkur af þessu, heldur láta hina samþ. það og skamma þá svo á eftir fyrir það, sem þeir verða að gera. Það er auðvelt að tala um 60 millj. kr. lántöku, en slíkt skraf stoðar ekkert, bjargar engu út af fyrir sig.

Ég skal ekki deila um það við hv. 5. þm. Reykv., hversu svívirðilegt það sé að hafa skoðanaskipti. Hann segir, að það sé að svíkja sinn flokk, og að ég hafi haft skoðanaskipti síðan 1937 og þar með svíkið minn flokk, eins og hann orðaði það. Þetta er vitanlega alls ósatt. En hvað mun þá um þennan hv. þm.? Enginn hefndi greypilegar föður síns en sá, sem át föðurbana sinn. Enginn hefur greypilegar svikið sinn flokk síðan 1937 en hann. Ég man ekki betur en að Kommúnistaflokkurinn væri þá hans heimkynni. Hann átti að bjarga þjóð og föðurlandi, gott ef ekki allri veröldinni. Þá var ekki margt gott um hv. 3. þm. Reykv. Enginn var nú verri en hann; sósíalfasisti, olíukóngur eða olíuokrari og umboðsmaður brezka auðvaldsins voru lýsingarorðin, sem notuð voru á hann þá. Undir kommúnistunum var þá öll framtíð þjóðarinnar komin, gæfa hennar og gengi. En hvað skeður? Í hvaða flokki er hv. 5. þm. Reykv. nú? Hann segist vera í Sósíalistafl. Hann hefir þá svikið Kommfl., Sósíalistafl. er búinn að éta hann. Hv. þm. hefir lagt Kommfl. niður, þennan flokk, sem átti að bjarga alþýðunni, já, allri þjóðinni. Nú er það Sósíalistafl. með hv. 3. þm. Reykv. sem formann út á við og hv. 1. landsk. fyrir formann inn á við, sem allt byggist á. Þó að honum finnist mikið til um það, sem hann kallar mín skoðanaskipti, þá verður hann að viðurkenna, að það eru aðeins smámunir í samanburði við þau endaskipti, sem orðið hafa á skoðunum hans. (EOl: Hefir verið breytt afstöðunni í gengismálinu? — BrB: Er hv. þm. frv. fylgjandi? — Forseti hringir). Hv. þm. segir, að ef þetta frv. verður að l., þá sé velt þar með 10–12 millj. kr. þunga yfir á launaþega í landinu. Mest af ræðu hans fór í að lýsa, hversu miklar hrellingar væru búnar stórkaupmönnunum í landinu og verzlunarstéttinni. Það kann að virðast undarlegt í fljótu bragði, að form. Dagsbrúnar skuli fyrst og fremst hugsa um hlutskipti stórkaupmanna og milliliðastéttarinnar. En þetta er þó vel skiljanlegt, honum rennur blóðið til skyldunnar til sinnar stéttar.

Það, sem hann segir um álögur á launþega í landinu, er fjarri öllum sanni. Miðað við innflutning síðasta árs, ætti innflutningsverð á innflutningsvörum að hækka um 10 millj. kr., en af því fer sennil. um helmingur til framleiðslu vegna útflutningsins. Segjum, að hinn helmingurinn fari til að fullnægja neyzlu og notaþörf einstaklinganna. Verðhækkun á þeim hluta kemur því fram sem aukin dýrtíð í landinu. Í því sambandi vil ég spyrja hæstv. atvmrh. að því, hvort hann hafi gert ráðstafanir til þess, að verðlagsn. sé við því búin að hafa hemil á verðhækkun, sem búast má við, að komi, um leið og gengið lækkar, og muni gera þær ráðstafanir, sem nauðsynlegt er í því sambandi, til þess að koma í veg fyrir, að gengislækkunin verði notuð sem átylla til óeðlilegrar álagningar.

Ég verð því miður að játa, að þótt þetta frv. verði samþ., þá er þar með engan veginn gefin full trygging fyrir því, að sjávarútveginum sé þar með borgið. En ég tel, að þetta sé tilraun, sú eina tilraun, sem eins og komið er, er hægt að gera, með þeim viðbúnaði, sem fyrir hendi er nú, tilraun til að bjarga sjávarútveginum úr þeim ógöngum, sem hann er nú í, tilraun, sem ætla verður, að veiti verulegan stuðning og svo mikil þörf er á að gera, að ég tel óhjákvæmilegt, að hún verði framkvæmd. Ef ég væri viss um, að sú hjálp, sem frv. kemur til með að veita sjávarútveginum, og sú atvinnuaukning, sem menn vona, að af því leiði, mundi gera meira en að vega upp á móti þeirri verðhækkun, sem það veldur, hefði ég ekki talið mig þurfa að leggja jafnríka áherzlu og ég hefi gert í undanfarandi samningum á það að tryggja, að lægst launuðu stéttirnar fengju kauphækkun, miðaða við þá dýrtíð, sem leiðir af frv. En ef vonir manna um atvinnuaukningu skyldu rætast, þá er fullvíst, að hagur þessara stétta verður sízt lakari, vonandi betri eftir en áður, ef frv. er samþ. Skal ég sýna þetta með einföldu dæmi.

Gengislækkun krónunnar sjálf er 18%, hækkunin á sterlingspundi er þá 21–22%, og má gera ráð fyrir, að erlendar vörur hækki um sem þessu svarar, nema þá þær, sem nú þegar er svo óhæfileg álagning á, að verðlagsnefnd geti dregið úr álagningunni og þar með haldið verðinu niðri. Fljótt á litið mætti ætla, að verðið á erlendum vörum þurfi að hækka jafnmikið og sterlingspundið. En þetta er ekki rétt. Það er aðeins innkaupsverðið, að viðbættri fragt og verðtolli, sem þarf að hækka. Húsaleiga og annar innlendur kostnaður á ekki að hækka. Mér hefir tjáð maður, kunnugur þessum málum, að yfirleitt þurfi erlendar vörur ekki að hækka nema sem svarar 12% af útsöluverði. En útlendu vörurnar eru ekki nema nokkur hluti þess. sem fólk þarf að nota. Mjólk og kjöt á ekki að hækka, húsaleiga a. m. k. ekki næsta ár. Dýrtíðaraukningin í heild ætti því að verða miklu minni, sennilega alls ekki að þurfa að fara yfir t. d. helming gengislækkunarinnar eða verða 9–10%. En gerum nú ráð fyrir því versta. Setjum svo, að dýrtíðaraukningin yrði t. d. 13%. Þá á kaupgjald verkafólks og láglaunafólks, sem ekki hefir 3600 kr. árstekjur, að hækka um 7% frá 1. júlí n. k. Raunverulegur mismunur yrði því 6%. Séu nú vonir manna um atvinnuaukningu á rökum reistar, þá mundi þessi mismunur verða fljótt upp unninn. Það þarf ekki mikla atvinnuaukningu til þess að jafna þennan mismun. Menn, sem hafa haft 8 mánaða atvinnutíma á ári, mundu þurfa að fá sem svaraði hálfsmánaðar atvinnuaukningu til að vinna mismuninn upp, þ. e. a. s., að á móti 8 mánaða vinnu áður, komi nú 8½ mánaðar vinna. En fari nú hinsvegar svo, að þessar vonir ekki rætist og atvinna aukist ekki, vegna enn vaxandi erfiðleika saltfisksveiðanna, þá verð ég að játa, að örðugt hefði orðið að tryggja fullnægjandi stuðning á annan hátt. Það er hægt að afla 3–4 millj. kr. til styrktar útgerðinni án þess að ofbjóða skattþoli manna, et rétt er að farið og ekki hlífzt við að taka verzlunarhagnaðinn, en 6–7 millj. er ekki hægt að taka á þann hátt, án þess það verki á sama hátt og gengislækkunin. Þetta verðum við að játa. Ég vil taka undir ummæli hv. 5. þm. Reykv., að það er engan veginn rétt að tala um sjávarútveginn sem einhverja óþekkta stærð, svífandi í lausu lofti, og ég tek einnig undir það hjá honum, að það sé mjög óviðeigandi og verra en það, af einstökum útgerðarmönnum, sem svo eru illa staddir sem raun er á orðin, að festa stórfé í þeim framkvæmdum, sem hann drap á. En í sambandi við þau önnur ummæli, sem hann viðhafði um gjaldþrotafyrirtækin, þá vænti ég, að hæstv. fjmrh. muni gefa ákveðnar upplýsingar.

Þegar ég ber saman ræður þeirra hv. 5. þm. Reykv. og hv. 6. þm. Reykv., þá verð ég að segja, að mér finnast skoðanir þessara mætu samherja í þessu máli vera nokkuð ósamstæðar. Þeim kemur ekki vel saman um það, hverjir það séu raunverulega, sem bera þunga þessara ráðstafana, hvort það séu stórkaupmenn, millistéttin eða verkamenn. Ég verð að segja, að ég er að ýmsu leyti sammála hv. 6. þm. Reykv. um þetta atriði. Millistéttirnar verða tvímælalaust harðast úti í bili, en kauphækkun verkafólks og láglaunafólks er líka til hagnaðar fyrir þær, því við þetta kaup verður miðað, þegar aftur verður breyting á launum millistéttanna. Ég tel ennfremur, að á undanförnum árum hafi nokkur hluti verzlunarstéttarinnar og iðjurekenda haft alveg óhæfilegan gróða vegna verndaðrar aðstöðu og sennilega getað safnað stórfé. Og ég tel það beina skyldu þeirrar ríkisstjórnar, sem fer með völd, að gæta þess í framkvæmd laganna, ef þetta frv. verður að l., að þessir menn verði ekki látnir sleppa við að bera sinn hluta þeirrar byrðar, sem þau leggja á þjóðina. Undir því, hversu ríkt er gengið eftir því, að eigi sé tekinn óhæfilegur milliliðagróði og dýrtíðin með því aukin umfram það, sem óhjákvæmilegt er, og hinu, að þær bætur og kauphækkanir, sem Alþfl.menn fengu ákveðnar með 2. gr. frv., séu látnar koma til fullra framkvæmda, er það komið að miklu leyti, hvort lögin koma að haldi eða eigi.

Ég get að svo mæltu lokið máli mínu nú.