25.04.1939
Sameinað þing: 10. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í C-deild Alþingistíðinda. (2775)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Skúli Guðmundsson:

Það er nú óþarfi að lengja umr., því að margt er búið að segja um þetta mál.

Hv. 10. landsk. veik að því, að Siglufjörður hefði lagt fram mikið fé til hafnargerðar þar, og það væri mjög til hagsbóta fyrir ríkisverkmiðjurnar. Hann talaði líka um þau fríðindi, sem þær nytu hjá bænum, og að eðlilegt væri, að þær greiddu mikið til hans í staðinn. Mér kom nokkuð undarlega fyrir sjónir, að hæstv. atvmrh. skyldi hálfgert taka undir þetta. Allir vita, að fleiri staðir en Siglufjörður mundu fegnir taka móti hundruðum þúsunda í styrkjum frá ríkinu til hafnarmannvirkja. Það sýna þær mörgu umsóknir, sem þinginu berast um slíka hjálp. Hitt er líka öllum ljóst, að Siglufjarðarbær hefir mjög mikinn hagnað, beinan og óbeinan, af rekstri ríkisverksmiðjanna; t. d. má nefna tekjur hafnarsjóðs af skipum, sem skipta við verksmiðjurnar, álögur bæjarsjóðs á allt það fólk, sem þar vinnur, og þær verzlanir, sem fá aukin viðskipti vegna verksmiðjurekstrarins. Þar að auki eru þau beinu gjöld, sem bærinn leggur á verksm. fyrir utan fasteignagjaldið. Hv. þm. (ErlÞ) var að telja upp þessar álögur. Einmitt sú upptalning fannst mér vera rök fyrir brtt. okkar þremenninganna. Það, að 70–80 þús. kr., eins og hv. þm. Ísaf. skýrði frá, skuli renna frá verksmiðjunum til bæjarins auk fasteignagjaldsins. mælir ákaflega með því, að rétt sé að létta fasteignagjaldinu af verksmiðjunum, eins og við leggjum til.

Þó að bæði hv. 10. landsk. og 7. landsk. hafi haldið því fram, að hv. þm. Ísaf. fari hér með rangt mál, hefir hvorugur þeirra fært rök fyrir því. Hv. þm. Ísaf. sundurliðaði það og rökstuddi, að verksmiðjurnar greiddu til bæjarins 22 aura á hvert síldarmál, miðað við aflann síðasta sumar. Síldarverksmiðjur greiddu annarstaðar 3½ og upp í 6 aura á síldarmál, samkv. þeim upplýsingum, sem gefnar eru. Ef fasteignagjaldið, sem svarar til 7 aura á mál, er látið haldast, og jafnvel þó að það væri eitthvað lækkað, eru ríkisverksmiðjurnar mjög illa settar móts við verksmiðjur í einkaeign. Gjaldið er því verndarskattur til hagsbóta fyrir einkaverksmiðjurnar í samkeppninni, þar sem þær greiða sama síldarverð og ríkisverksmiðjurnar, en hirða mismuninn, sem á sköttum verður. En skattarnir lenda í raun og veru á engum öðrum en þeim, sem leggja síld inn í verksmiðjurnar, útvegsmönnum og sjómönnum.

Það var rétt hjá hv. 10. landsk., að halli hefði orðið á Sólbakkaverksmiðjunni í Önundarfirði og einnig einhver á Húsavík. Þetta bendir til, að Sólbakkaverksmiðjan eigi ekki að standa þar, heldur væri sá iðjurekstur betur kominn annarstaðar og einhver annar atvinnurekstur þar í staðinn. Því að vitanlega verður að reyna að stuðla að því, að slíkur atvinnurekstur sé efldur þar, sem aðstaðan er bezt.

Hv. 3. þm. Reykv. hefir einnig talað í þessu máli og tekið í streng með hinum landskjörnu. Það getur ekki verið umhyggja fyrir sjómönnum, sem knýr hann til þess, heldur eitthvað annað. Því að eins og ég benti á, hljóta sjómenn og útgerðarmenn að bera það, þegar óeðlilega þungir skattar liggja á verksmiðjunum.

Það lætur mjög undarlega í eyrum, þegar talað er um, að illa sé búið að Siglufjarðarbæ. Allir aðrir bæir myndu fagna slíkum verksmiðjum, þó að þær greiddu ekki eyri í bæjarsjóð.

Ég tel, að ef fasteignagjaldið verður ekki afnumið, sé það í fullu ósamræmi við aðrar gerðir þessa þings til viðreisnar sjávarútveginum. Bærinn fær þrátt fyrir það umsetningargjald og vörugjald, auk fleiri gjalda og margskonar hlunninda í sambandi við verksmiðjureksturinn.

Ég vona, að hv. þm. geti fallizt á þessa brtt. og samþ. frv. svo breytt.