08.12.1939
Efri deild: 79. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í C-deild Alþingistíðinda. (2783)

152. mál, bráðabirgðaráðstafanir

*Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Þetta frv., sem nú liggur fyrir til 1. umr. hér í hv. d., er nokkuð einstakt í sinni röð. Þar er farið fram á, að gerðar verði breyt. á löggjöf landsins á stórum lagabálkum, ýmist í meginatriðum eða að nokkru leyti. Þetta frv. kemur hér fram seint á þingi, og geri ég því ráð fyrir að nokkuð verði óhægt um vik með framgang þess. Þetta frv. ræðir um það, að breyta framfærslulöggjöfinni, um að breyta löggjöf um atvinnu við siglingar, um að breyta alþingislöggjöfinni, um að breyta löggjöfinni um háskólann, um að breyta útvarpsl. og launal., fræðslul. og þar að auki nokkur atriði, er snerta almennt framkvæmdavald í landinu, og ennfremur um samninga milli félagsheilda í landinu. Þegar af þessari ástæðu telur Alþfl., að þetta sé ekki þingleg afgreiðsla á löggjöf, eins og hún liggur hér fyrir. Hann telur það ekki til eftirbreytni, að með slíku frv. sé kippt meginstoðum undan mikilsverðri löggjöf í mörgum þáttum í landinu. Vegna þessa telur Alþfl. þetta ekki rétt, heldur óþinglega leið. En hann vill um leið láta þess getið, að hann telur það aðalatriðið, að það er óþingleg leið, sem hér er farin, en hinsvegar hefir hann fundið til þess, að það verður að gera einhverja gangskör að því að breyta mörgu af því, sem fram á er farið hér, en ég tel, að með þessu frv. muni ekki mikið vinnast. Við þessa 1. umr. er ekki ástæða til að fara út í einstaka liði þessa frv. Ég taldi rétt, að þetta sjónarmið Alþfl. kæmi fram við þessa 1. umr., að hann telur þessa leið ekki þinglega og mun láta þann vilja sinn koma í ljós á þann hátt, sem hann telur rétt vera.