22.12.1939
Efri deild: 91. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í C-deild Alþingistíðinda. (2789)

152. mál, bráðabirgðaráðstafanir

*Atvmrh. (Ólafur Thors):

Eins og hæstv. forseti gat um, þegar þetta mál var tekið á dagskrá, og einnig kom fram í ræðu hv. frsm. fjhn., þá hefir þetta mál sjálft og þau önnur frv., sem á eftir koma á dagskránni, verið þrautrædd innan þingsins, og þá sérstaklega innan þeirra þingflokka, sem standa að ríkisstj. Ég tel mig því verða við tilmælum hæstv. forseta, þegar ég læt hjá líða að gera einstakar gr. þessa frv. eða þau frv., sem á eftir koma á dagskránni, að umræðuefni. En ég vildi aðeins láta þau orð falla, að það er rétt, sem hv. frsm. n. sagði, að þessi mál, sem nú liggja fyrir, bæði þetta, sem hér er til umr., og hin, sem eru á dagskránni á eftir því, eru nú flutt í raun og veru, eða að mestu leyti, í samræmi við till. ríkisstj. Og ríkisstj. hefir, eins og hv. frsm. tók fram, verið um það í samráði við þá flokka, sem styðja stjórnina.

Almennt verð ég að segja það um málið, að ég tel, að þetta frv., eins og það nú er orðið, og með hliðsjón af þeim frv., sem flutt eru af hv. n. í tilefni af þessu frv. eins og það var borið fram, þá tel ég, að þessar breyt. n. séu að sumu leyti lélegri en ákvæði frv., sem þeim er ætlað að breyta, en að sumu leyti betri. Og hvað sem því líður, þá eru nú þær till., sem fyrir liggja, ýmist sem brtt. við þetta frv. eða sem sérstök frv., fluttar í tilefni af þessu frv., og ég hygg, að í þessu spegli sig að mestu leyti sá vilji, sem getur heitið sameiginlegur vilji þeirra flokka, sem styðja ríkisstj., þannig að þm. þeirra flokka ýmist hafi áhuga fyrir málunum eða þeir vilji sætta sig við þau til samkomulags.

Ég er sérstaklega ánægður yfir því, að felldar eru niður 13. og 18. gr. frv., en skal ekki gera sérstaklega grein fyrir því. Það er flestum hv. þdm. kunnugt, hvað veldur því hjá þeim mönnum, sem lagzt hafa á móti þeim gr.

Að öðru leyti vil ég aðeins í sambandi við málin, sem koma hér á eftir á dagskránni, taka það fram (ef hæstv. forseti telur það ekki óleyfilegt), vegna þess að tvö þeirra mála heyra undir það ráðuneyti, sem ég veiti forstöðu, að ég tel þau til bóta, þ. e. a. s. frv. til l. um breyt. á l. um rannsóknarstofnun í þarfir atvinnuveganna við Háskóla Íslands og frv. um breyt. á l. um fiskimálan.

Skal ég svo ekki ræða einstök málsatriði í þessu frv. eða hinum, sem á eftir koma. En út af till., sem fram komu frá hv. 10. landsk. og hv. frsm. n. tók ekki illa undir, að málinu væri vísað til n., sem þau annars heyra undir, þá vil ég segja það, að ég er á móti því, því að þau mál eru þrautrædd innan stjórnarflokkanna. Og það er engin ástæða til að ætla, að það mundi hafa áhrif á endanlegar niðurstöður í þessum málum, þó að sú málsmeðferð væri viðhöfð. Atkvgr. mun sýna, að meiri hl. þdm. mun aðhyllast þessi mál eins og þau nú liggja fyrir. En ef þeim er vísað til n., getur það valdið óþægilegum örðugleikum og töfum á þingstörfum. En nokkuð mikið er enn óunnið af þingstörfum áður en þinginu lýkur. Og þó að vilji fáist fyrir því, bæði ríkisstj. og hv. þm., að Alþ. ljúki fyrir áramót, þá vil ég mælast til þess við hv. 10. landsk. og frsm. n., sérstaklega hv. 10. landsk., að það verði látin niður falla óskin um það, að frv. verði send til n. Mér er ekki alveg fullkunnugt um, hvenær fjárl. koma til umr. A. m. k. verður það ekki seinna en strax eftir jólin. Og þá væri æskilegast, að meðferð þeirra mála, sem deildirnar þurfa að fjalla um, gæti verið lokið að svo miklu leyti sem unnt er.