22.12.1939
Efri deild: 91. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í C-deild Alþingistíðinda. (2793)

152. mál, bráðabirgðaráðstafanir

*Magnús Jónsson:

Ég hefi ekki skrifað undir með fyrirvara eins og hv. 10. landsk., því að tekið er fram í nál., að um einstök atriði frv. hafi nm. óbundnar hendur. Sumum atriðum frv. er ég mótfallinn. Og við 7. brtt. nál. mun ég bera fram brtt., — um samkeppnisprófið, — en geymi mér að ræða það, þangað til hún liggur fyrir. Ég verð að taka undir með hv. 9. landsk. (ÁJ), að ég get ekki, fremur en á undanförnum þingum, fallizt á lækkun útvarpsgjalda af rafhlöðuviðtækjum. Með því fæst ekki sú rétting málsins, sem til er ætlazt, að allir, sem mest þurfa lækkunar, og engir aðrir, fái hana. Eins og segir í bréfi útvarpsstjóra, fer sú skipting alls ekki saman við skiptinguna í rafhlöðunotendur og riðstraumsnotendur. Ég vildi aðeins bæta því við, að þessi tæki eru miklu meira virði fyrir sveitamanninn en t. d. þá, sem búa í Reykjavík. Í sveit nota menn tækin kannske styttri tíma á hverjum degi, en sér til meira gagns. Þau eru t. d. dagblöð þeirra um fréttir allar. — Ég vildi það væri hægt að lækka afnotagjaldið almennt, en þar sem ég hefi ekki rannsakað það mál nóg til þess, að ég treysti mér til að bera fram brtt. í þá átt, vil ég ekki lengja umr. um þetta.

Hæstv. atvmrh. sagði, að afgreiðsla n. hefði að sumu leyti verið léleg, og hann á víst við það, að felldar hafa verið niður sumar gr. frv. Ég vil taka fram, að það er eingöngu vegna tilmæla ríkisstj., sem n. hefir fellt niður úr frv. og leitað samkomulags um það, hvað stuðningsflokkar stj. gætu orðið sammála um, að gengi fram á þinginu. Úr því að leitað er samkomulags, verður maður að beygja sig undir það, þegar það hefir verið gert, hvort sem manni líkar það vel í öllum atriðum eða ekki. — Viðvíkjandi afgreiðslu frv. vil ég segja, að það er ekki fullkomlega formlegt að bera þannig frv. fram og breyta því síðan eins og nú er gert, en aðferðin er hér ekkert höfuðatriði. — Flestar till. „höggormsins“ eru nú annaðhvort eftir skildar í frv., nokkuð breyttar, eða bornar fram að nýju sem sérstök mál. Ég ætla ekki að orðlengja um þetta og ekki heldur að láta rigna neinum illum orðum yfir „höggorminn“. Gamla orðtakið segir, að höggormur sé í hverri paradís. Hann er kannske vitni um það, að hér sé einhver paradís. Og það er það, þegar allir flokkar koma sér saman um að vinna að úrlausn vandamálanna. Það er kannske alveg eðlilegt og sjálfsagt, að þá komi höggormurinn fram. (ÁJ; Og hvernig fór svo með þau, sem voru í paradís?).

Ég vil taka undir það með hv. 10. landsk. (ErlÞ), að réttara hefði verið, að frv. færu til nefndar, og sé ekki, þótt áliðið sé þings, að þetta sé ógerningur. Mér finnst, að þessu máli mætti vísa til n. að lokinni umr. og taka það svo á dagskrá á morgun; þær nefndir, sem ekki væru búnar að taka frv. til meðferðar, hefðu þá fyrirgert rétti sínum til þess. Þó að n. hafi flutt frv., er engin óvirðing að vísa þeim til annarar n., þegar það er gert eftir ósk hennar sjálfrar. Ég mundi greiða atkv. með till., ef fram kæmu, um að vísa hinum einstöku frv. til viðkomandi nefnda, a. m. k. ef þessi fundur dregst ekki svo, að enginn tími verði eftir fyrir nefndir til að starfa.