22.12.1939
Efri deild: 91. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í C-deild Alþingistíðinda. (2795)

152. mál, bráðabirgðaráðstafanir

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég get ekki setið hjá við umr. þessa máls, þegar það er á ferð. Ég skal játa, að „höggormurinn“ hefir nú tekið allmiklum breyt. til bóta í meðförunum hjá hv. fjhn. Í frv. hennar og brtt. hefir hann ummyndazt eða æxlazt í dálítinn ormagarð með tiltölulega meinlitlum smásnákum, í fimm gr., sem eftir eru af gamla frv. Hvernig afstöðu sem menn taka til þessara breytinga, — og fáa mun langa til að ala alla snákana við barm sér, — geta menn verið þakklátir hv. fjhn. fyrir vikið. Hún hefir hreinsað mikið til.

Fyrsta gr. frv. á nú að verða 6. gr., sem þar var, um ferðaskrifstofu ríkisins. Ég hygg, að mögulegt hefði verið að taka það ákvæði sérstaklega og bæta því aftan við lögin um ferðaskrifstofu ríkisins, eins og n. hefir gert um margar gr. Mér hefði þótt það eðlilegri aðferð.

Um 7. gr., sem verður 2. gr., eru sennilega engin náskyld lög fyrir, sem þörf er að tengja hana við, og má hún þá standa undir nafninu: „nokkrar ráðstafanir vegna núverandi styrjaldarástands“. Hinsvegar sé ég ekki, að hún sé svo mikilsvert bjargráð, að nauðsyn beri til að hafa hana að einu meginatriði slíkra „hætturáðstafana“, — það er ofurlítið broslegt. Sama er að segja um 10. gr., sem verður 3. gr., að það kemur lítið stríðsástandi við, hvort heimila skuli forstjórum ríkisstofnana að ráða, hvaða menn þeir hafa, eða ekki. Greinin hefir þó tekið allmiklum breytingum í átt til hins skynsamlega hjá n. Hún var fyrst svo mikil fjarstæða, að annað eins hefir varla sézt, og brot á lögum og rétti, sem mönnum almennt er veittur, t. d. mátti ekki ráða háseta á skip, hvort heldur væri á nótt eða degi, nema ráðh. samþ. manninn. Það lítur svo út, sem verið sé að þóknast einstökum mönnum í því að láta sjást eitthvað eftir af ungunum, úr því að sá upprunalegi höggormur er dauður. Ég get ekki verið með í þeim skollaleik.

Næsti snákurinn er till. um að fresta prentun á umræðuparti Alþt. Um þetta hefir staðið allmikill styr á undanförnum þingum og ennþá munu vera skiptar skoðanir um það meðal hv. þm. Ég skal ekki fara langt út í það mál, en ég hygg, að sparnaður sá, er af því leiddi, yrði ekki ýkja mikill. Fróður maður hefir gefið mér upplýsingar um, að pappírinn, sem fer í umræðupart Alþt. á ári, sé ekki meira en 4 þús. kr. virði. Það hefir verið gerður sparnaður á útgáfu Alþt. á „tekniskan“ hátt, sem sé með því að nota smærra letur en áður, og yfirleitt hefir efninu verið þjappað betur saman og látið rúmast betur það mál, sem prenta skal. Þá er það sú vinna, sem hér er um að ræða, að það ætti að spara hana. Ég vil segja það, að nú, þegar hv. þm. tala um að auka atvinnu handa mönnum, fer illa á því að bola öðrum burtu, sem vinnu þurfa, og yrði þetta e. t. v. til þess, að nokkrir menn úr prentarastéttinni lentu í atvinnuleysi a. m. k. hvað þetta snertir.

En önnur hlið þessa máls er sú, að ef þetta verður samþ., er það sama sem að loka Alþ. fyrir þeim, sem ekki ættu þess kost að hlusta á umr., ef ekki sæist einn stafur á prenti af því, sem hv. þm. segja. Við þm. segjum hér á Alþ. margt, sem hefir mjög mikla þýðingu að sé skrásett og prentað, að ég ekki tali um að í mörgum tilfellum er vitnað til umr. á Alþ. um mál, þegar á að skera úr vafasömum atriðum lögfræðilega, og dómstólarnir nota það oft sem þrautalending. Það er ekki lengra síðan en í fyrra, að úrslit eins máls ultu alveg á því, hvað hafði verið talað hér á Alþ. Þetta vildi ég segja um þennan snák.

Þá er fimmti snákurinn, sem hefir hér verið getið líf með 17. gr. í hinu upprisna frv. Ég vil einnig taka undir með þeim hv. þm., sem hafa réttilega bent á, að allmikið ósamræmi yrði í því að gera mismun á afnotagjaldi útvarpsnotenda á landinu; m. ö. o., það er verið að taka menn í vissum landshlutum, sem sé sveitunum, í annan flokk afnotagjalda heldur en þá, sem búa í sjávarplássum og kauptúnum. Það hefir verið réttilega bent á, að skattur sá, sem notendur útvarpstækja greiða þar, sem rafmagn er dýrt og rafhlöður eru notaðar, er sízt minni en þar, sem straumlagnir eru. Ég vildi í þessu sambandi benda á það, að árið 1934, þegar till. kom fram hér á Alþ. um að lækka afnotagjöld útvarps, þá lá fyrir, svo sem hv. þm. er kunnugt, rökstutt álit útvarpsstjóra og verkfræðings útvarpsins um þetta mál, og þar kom fram, að kostnaður þeirra útvarpsnotenda, er notuðu rafhlöður, var lægri heldur en hjá þeim, sem notuðu straumlagnir, og var þá miðað við það verð á rafmagni, er almennt tíðkaðist um allt landið. Þá var verð á rafmagni í Stykkishólmi 80 aurar kílówattstundin, á Siglufirði 75 aurar kwst. og í Reykjavík 50 aurar kwst. á ljósataxta. Rafmagnið hefir að vísu lækkað mjög mikið síðan hér í Reykjavík, og e. t. v. á Siglufirði — það er mér ekki fyllilega kunnugt um —, en verð á rafmagni í Stykkishólmi og öðrum kauptúnum landsins, er nota aflstöðvar, sem reknar eru með mótorvélum, mun yfirleitt vera svo hátt, að kostnaður við notkun útvarpstækja mun yfirleitt vera sá sami sem 1931. Verkfræðingur útvarpsins sýndi fram á það árið 1931 að kostnaður við rafhlöðutæki myndi verða 70 kr. á ári, en fyrir rafstraumstæki 70–110 kr., eða að meðaltali 85 kr. á ári. Ég efast um, að þessi hlutföll hafi nokkuð breytzt síðan. Ég sé ekki, að nein rök liggi til grundvallar því að ákveða lægra afnotagjald fyrir rafhlöðutæki heldur en rafstraumstæki, sem geta orðið efnalitlum mönnum fullt eins dýr og rafhlöðutækin. Nú liggja engar skýrslur fyrir um það, hvort útvarpsnotendur eru hlutfallslega fleiri í kaupstöðum og sjávarplássum en í sveitunum. Að vísu má vel vera, að svo sé, að tiltölulega sé meiri þátttaka meðal sjávarsíðumanna um notkun útvarpstækja heldur en þeirra, sem í sveitum búa, en ég vildi, að því yrði stefnt, að útvarpstæki yrðu almenningseign í sveitum landsins, og til þess að það gæti orðið, væri einnig réttlátt að lækka afnotagjöld þeirra, sem verða að búa við rafstraumstæki í kaupstöðum og við sjávarsíðuna, eins og hv. 5. landsk. (ÞÞ) játaði, strax og hægt er.

Ég býst við, að ég og flokksbróðir minn (ErlÞ), sem sæti á í þessari hv. d., berum fram brtt. við þetta frv. við 3. umr., ef hv. Ed. vill leyfa því að ganga áfram. Ef þessi till. verður samþ., mun hún rýra tekjur útvarpsins um 45 þús. kr. á ári, nema þá að frv. verði breytt á þann veg, að bæta megi við álíka upphæð hjá þeim, sem búa við dýran rafstraum. En áður en við berum fram brtt. munum við sjá til, hvernig fer um þetta mál. Raunar hefir sú röksemd verið færð fram fyrir þessari till. af þeim, er fyrir þessu máli hafa talað, að hér væri nú orðinn skortur á rafhlöðum, og má vel vera, að það sé rétt. En það væri ekki nema eðlilegt, að þeim mönnum, sem ekki geta notað útvarpstæki sín, yrði heimilað að sleppa við að greiða afnotagjöld, svo sem þeim mönnum, sem hv. 5. landsk. minntist á.

Þá er það sú stytting á dagskrá útvarpsins, sem fjvn. leggur til. Eitt af hlutverkum fjvn., sem nú hefir haft í mörg horn að líta utan við sitt eiginlega verksvið, virðist vera að gera till. um hana. Öllum mun vera kunnugt um, að nú hefir starfið á þessu þingið verið svo, að við myndum allir vera komnir heim í jólafríið, hefði starf fjvn. ekki verið með þeim endemum, sem raun er á orðin. Dagskrá útvarpsins, sem er hreint verzlunarfyrirtæki fyrir landið, sem útvarpsráð á að vera allsráðandi um, má ekki stytta neitt né spilla henni, án þess að hætta sé á, að útvarpið beri sig verr. Menn kippa að sér hendinni, notendum fækkar, tekjur minnka, því að það liggur í hlutarins eðli, að hlustendum fækkar, þegar dagskrá útvarpsins er orðin léleg og ekki við hæfi landsmanna, — og hvar eru tekjur útvarpsins þá? Ég álít því, að það sé ekki á færi hv. þm. yfirleitt að dæma um, hvort draga skuli úr verkefnum dagskrárinnar eða auka hana. Ég held, að útvarpsráð verði að þreifa sig áfram eftir því, hvað útvarpið þolir með tilliti til hlustenda.

Þetta vildi ég sagt hafa um þá snáka, sem ennþá eru á lífi í þessu frv. Ég er þeirrar skoðunar, að þeir séu þess eðlis, að þeir gætu allir dáið, landslýðurinn myndi yfirleitt geta tekið móti þeim erfiðleikum, sem hann á við að stríða, eftir sem áður; ég sé ekki, að þar sé um bjargráð að ræða í neinni mynd.