22.12.1939
Efri deild: 91. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í C-deild Alþingistíðinda. (2796)

152. mál, bráðabirgðaráðstafanir

Árni Jónsson:

Það hefir komið till. um að vísa þessum málum, sem sett hafa verið fram í einu frv., til viðkomandi nefnda, og styð ég þá till. Andstaðan móti frv. hefir ekki snúizt svo mjög um efni þess, heldur um hitt, að menn hafa sætt sig illa við formið. Ég álít, að ekki sé rétt að gefa fleiri höggstaði á formshlið málsins með því að synja þess nú, að það verði rætt í nefndum og fái þinglega meðferð.

Ég hefi fáu að svara hv. 5. landsk. Það er gamalt áhugamál hans að fá nokkra lækkun á afnotagjöldum til útvarpsins. En það er einnig ljóst, að ef það yrði samþ. nú, þá verður að sinna einnig öðrum kröfum um lækkun á afnotagjöldum. Því að það eru margir aðrir, sem ekki myndu fá neina lækkun, en eru þó verr staddir, og bændur standa ekki verr að vígi nú en áður til að greiða afnotagjöldin. Hv. 5. landsk. er á annari skoðun. Ég játa, að bændur austur á landi, þar sem ég er kunnugastur, hafa hingað til ekki beðið neinn hnekki af afurðasölu sinni. Það er öðruvísi í héraði hv. 5. landsk. Þar hefir mæðiveikin gert mikinn usla, en þar væri hægt að bæta bændum skaðann án tillits þess, að þeir borgi 10 kr. meira eða minna í afnotagjöld. En annars vil ég ekki kappræða þetta mál frekar, en sæta úrslitum atkvgr.