23.12.1939
Efri deild: 92. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í C-deild Alþingistíðinda. (2806)

152. mál, bráðabirgðaráðstafanir

*Magnús Jónsson:

Ég afhenti í gær brtt. við 2. gr. frv., en af einhverri óheppni hefir handritið glatazt og hefir brtt. því ekki verið útbýtt. Ég verð því að biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir skrifl. brtt. að fella niður síðari málsgr. 2. gr. Ég hefi áður gert grein fyrir því, að ég hafi ekki trú á, að samkeppnisprófin komi að verulegu haldi. En ég vil hafa einhvern mælikvarða á umsækjendur um stöður hjá því opinbera, svo að ekki ráði aðeins vilji þess, sem stöðuna veitir, en ég tel vafasamt, hvort samkeppnisprófin koma að notum.

Við höfum nokkra reynslu af samkeppnisprófunum. Alþfl. tók þau upp í 4 ára áætlun sína, en ég held, að þeirri grein hafi aldrei verið framfylgt. Þegar sá flokkur hafði ráðh. í stjórninni, fór fram samkeppnispróf í háskólanum um dósentsembætti í guðfræði, en ráðh. snerist þannig við niðurstöðum þeirrar samkeppni, að Alþfl. ætti ekki að hafa mikla trú á ágæti samkeppnisprófanna. Þannig hefir það verið um þessa stofnun, háskólann, sem hefir haft samkeppnispróf um stöðurnar, vegna þess að það er hefð annarstaðar, að í hvert skipti, sem samkeppnispróf hefir farið fram, hefir háskólinn orðið fyrir árásum. Ég hygg því, að úr því við virðumst ekki vera svo miklir „sportmenn“, að við getum beygt okkur fyrir niðurstöðum samkeppnisprófa, þá sé ekki heppilegt að koma þeim á við allar stofnanir. Auk þess verð ég að segja, að ég veit ekki, hvaða mælikvarða á að hafa við samkeppni um ýmsar stöður, t. d. sýslumannsembætti eða læknaembætti. Hitt er annað mál, að það væri heppilegt, ef unnt væri að finna einhverjar reglur til þess að fara eftir. Þetta hefir verið reynt að því er læknana snertir. Þeir komu sér upp reglum, sem voru mjög ýtarlegar. Þegar um marga umsækjendur var að ræða um sömu stöðu, var tekið tillit til prófa, dvalar á spítölum og embættisaldurs, og fyrir þetta var gefin nokkurskonar einkunn. Þessu var þannig tekið af þeim, sem réðu, að það var talin uppreisn gegn þjóðskipulaginu, sem þyrfti að brjóta á bak aftur. Nægir í því sambandi að minna á veitingu læknisembættisins í Keflavík, sem fræg er orðin og endaði með því, að maður var keyptur í embættið, — með því að honum var greitt nokkuð fram yfir hámarkslaun, — til þess að ekki þyrfti að fara eftir reglum læknanna.

Eins og ég hefi tekið fram, tel ég heppilegt að finna einhverjar ákveðnar reglur til þess að fara eftir um veitingu embætta, en ég hygg, að samkeppnispróf komi ekki að fullum notum. Vil ég því leyfa mér að biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir skrifl. brtt. minni, um að síðari málsgr. 2. gr. falli niður.