23.12.1939
Efri deild: 92. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í C-deild Alþingistíðinda. (2808)

152. mál, bráðabirgðaráðstafanir

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég vil fyrst víkja nokkrum orðum að ræðu hv. 1. þm. Reykv. og brtt. hans. Ég skal taka það fram, að ég get fylgt brtt. hans, að sumu leyti af ástæðum, sem hann færði fram, og ennfremur vegna þess, að ég tel, að frvgr. sé svo víðtæk, að ómögulegt sé að framfylgja henni. — Hinsvegar sannar það ekki, að samkeppnispróf geti ekki átt rétt á sér, þótt erfitt sé að skapa reglur, sem geti hvarvetna gilt. Það ætti auðvitað að vera á valdi hvers forstjóra að setja reglur fyrir hverja stofnun. En eins og einhver orðheppinn þm. sagði um daginn, er ekki hægt að taka próf í ráðvendni og reglusemi, — en það er hvorttveggja mikilsvert í hverri stöðu.

Hv. þm. sagði, að Alþfl. hefði fengið þá reynslu af samkeppnisprófum, að hann ætti ekki að vera þeim mjög fylgjandi, enda þótt hann hefði tekið þau upp í 4 ára áætlun sína, Ég man nú ekki, hvort svo var, en ég tel líka, að samkeppnispróf geti átt rétt á sér, þótt þau séu ekki lögbundin. — Hvað snertir samkeppnisprófin í háskólanum, þá hygg ég, að þó um hafi verið deilt, hafi menn yfirleitt unað málalokum. Þannig hefir hv. þm. hlotið prófessorsembætti í guðfræði við háskólann að undangenginni samkeppni, og hygg ég, að allur almenningur hafi unað þeim úrslitum. — Hér á Alþingi hafa verið haldin samkeppnispróf milli þeirra, sem skrifa þingræður; skal ég ekki dæma um, hvernig tekizt hefir, en þetta þykir sjálfsagt. Þetta sannar, að samkeppnispróf eiga rétt á sér, en ég er sammála hv. þm. um það, að ekki eigi að binda það í lögum.

Þá hefir verið deilt hér um lækkun afnotagjalds af útvarpi. Hafa umræður leitt í ljós, að í raun og veru veit enginn, hvað er rétt eða rangt í þeim efnum, þar sem engar upplýsingar liggja fyrir um það frá útvarpinu, hjá hverjum kostnaðurinn er mestur, þeim, sem nota rafhlöðutæki, eða þeim, sem nota straumtæki. Því hefir verið slegið fram af fulltrúum bænda, að þeim væri mest þörf á ívilnun, einkum vegna þess, hve erfitt væri að fá rafhlöðurnar hlaðnar og hve miklum annmörkum væri bundið að fá gert við útvarpstæki til sveita, en fyrir þessu liggja þó engar sannanir. Nú hefir útvarpið sem kunnugt er varið miklu fé til þess að hjálpa bændum til að fá rafhlöðurnar hlaðnar og gert við tækin, með því að láta viðgerðarmenn frá útvarpinu ferðast um.

Svo virðist sem þetta mál eigi fram að ganga án þess að fyrir liggi fullkomin gögn, er sanni það, að þeir, sem ekki hafa straumtæki, séu verr settir en hinir. Ef það er meining hv. d. að veita ívilnun á afnotagjöldunum, er réttlátara að láta fleiri verða hennar aðnjótandi, eins og brtt. okkar hv. 10. landsk. fer fram á.

Þá vil ég að lokum nota tækifærið að svara hv. 5. landsk. (ÞÞ) nokkrum orðum, þar sem ég hafði ekki tækifæri til þess við 2. umr. Hann hnýtti í mig fyrir ummæli, er ég hefði haft um ákveðna menn hér á Alþ. Ég sagði aðeins í heyranda hljóði það, sem 90% þingmanna segja í hvíslingum. — Það er allur munurinn. Annars er það svo um mína nefnd, að þótt hún sé ekki álitin sú stóra n. hér á þingi, hefir hún haft um 30 mál til meðferðar, og 75% af þeim málum, er henni hafa borizt, hefir hún afgr. Ég er ekki viss um, að aðrar n. geri betur. Þetta er ekki hrós um mig, en samstarf nefndarmanna hefir verið ágætt, og því er árangurinn svona góður. Öðrum ummælum hv. 5. landsk. vísa ég til föðurhúsanna.