29.12.1939
Neðri deild: 96. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í C-deild Alþingistíðinda. (2825)

152. mál, bráðabirgðaráðstafanir

*Jón Pálmason:

Það hefir nú sýnt sig við meðferð þessa máls hér á hv. Alþ., hve miklum erfiðleikum það virðist vera bundið að fá breytt ýmsum reglum og ráðstöfunum, sem gerðar hafa verið á undanförnum árum, þegar stefnt hefir verið í þá átt, að auka eyðsluna hjá því opinbera og koma á skipulagi, sem í ýmsum efnum hefir orðið þess valdandi, að svo illa er komið okkar fjárhag sem raun er á nú. Það er nú víst, að þessar deilur eiga að nokkru leyti við rök að styðjast, að þetta frv., sem hér um ræðir, hafi ekki að öllu leyti verið í formlegum búningi, eins og ætti að mega vænta um l., sem samþ. eru á Alþ. En það er byggt á þeim grundvelli að vera bráðabirgðaráðstafanir til þess að lagfæra ýmsa þá hluti, sem hafa ekki verið í góðu lagi, með það fyrir augum, að á næsta Alþ. skuli hlutaðeigandi breyt. færðar inn í þau l., sem um er að ræða. En það hefir verið reynt, og að miklu leyti tekizt, að drekkja þessari viðleitni með því að hanga í formi þessa frv. og halda því fram, að ekki mætti gera neinar ráðstafanir í verki án þess að ganga inn á venjuleg löggjafarmál um hvert einasta atriði. Þetta hefir gert það að verkum, að það hefir verið útilokað að koma fram nema fáum af þeim breyt., sem upphaflega fólust í þessu frv., en talsvert mætti samt gera til bóta á ýmsum sviðum, ef þær yrðu samþ. Það hefir sýnt sig, að hv. fjhn. í Nd. hefir ekki látið sitt eftir liggja til að reyna að parta niður og eyðileggja það, sem eftir var af þessu frv., þegar hv. Ed. skilaði því loks frá sér.

Viðvíkjandi þeim till., sem meiri hl. fjhn. gerir til breyt. á þessu frv., vil ég segja það, að sú hugsun, sem kemur fram, og frammistaða meiri hl. fjhn., er flytur þessar till. sem breyt. á frv. til l. um bráðabirgðabreyt. nokkurra l., sýnir annað en lá þar á bak við, sem sé að koma í veg fyrir, að þessar breyt. næðu fram að ganga. Svo var notuð sú aðferð, að parta það út úr þessu frv., svo að eigi komi fram annað en það, sem í rauninni skiptir fremur litlu máli, hvort nær fram að ganga. Það er út af fyrir sig ekkert undarlegt við það, því að það geta verið skiptar skoðanir um ýms atriði þessa frv., eins og t. d. hvort eigi að hætta að prenta umræðupart Alþt. Það er atriði, sem hefir verið deilumál á undanförnum árum, og er það sjálfsagt enn, og er það ekkert undarlegt. Þetta deilumál er eitt af þeim, sem fjvn. taldi, að gæti mjög vel komið til mála í sambandi við það, hvað unnt sé að spara af þeim útgjöldum, er hvíla á ríkissjóði, að hætta að prenta umr. í þingtíðindunum. Þarna er um að ræða upphæð, er nemur nokkrum tugum þús. kr. á hverju ári, sem mætti að skaðlausu spara að okkar áliti, er sæti eigum í fjvn. Að vissu leyti er það leiðinlegt að hætta að prenta umræðupart Alþt., en þó má færa það fram því til afsökunar, að menn hafa jafnan aðgang að helztu fréttum frá Alþ. gegnum blöð og útvarp, og um leið og hætt yrði að prenta ræðupartinn, myndi sú aðferð mjög færast í vöxt, að þær ræður, sem einhverju máli þætti skipta, að yrðu fluttar orðrétt, yrðu settar í blöðin. Ég held þess vegna, að það sé mjög hæpið fyrir hv. Nd., eins og nú standa sakir, að fella þessa gr. út úr frv. Þetta er ekkert annað en fjárhagsatriði í augum fjvn., og þó nokkur sparnaður.

Viðvíkjandi ferðaskrifstofu ríkisins er það að segja, að það er ákaflega ljóst og sláandi dæmi um, hve miklum örðugleikum það virðist vera bundið að fá komið fram hér á Alþ. breyt., er snerta þær stofnanir, sem tildrað hefir verið upp á undanförnum árum í fullkomnu forsjárleysi eða með forsendum, sem hafa reynzt eintómt fals.

Þessari stofnun var tildrað upp eftir mikið þjark, og hún átti ekki að hafa í för með sér neinn kostnað, heldur átti að nægja til hennar gjald, er lagt var á flutninga innanlands. Það eru nú orðnar milli 40–50 þús. kr., sem ríkið hefir orðið að kosta til þessarar stofnunar. Það er auðsætt mál, að það má algerlega að skaðlausu falla niður. Ef það er svo, að í raun og veru sé ekki vilji fyrir hendi hér á Alþ. til þess að leggja þessa stofnun niður, má nærri geta, hvað verður gert af slíku, því að það er þörf á að taka ennfremur ýmsar aðrar stofnanir, sem til meira gagns geta leitt með starfsemi sinni, og reyna að lækka kostnaðinn við þær. Það er áreiðanlega ekki hægt að lækka til muna útgjöld ríkisins eins og þau eru orðin nú, ef á að halda uppi öllum þeim stofnunum, sem ríkið hefir rekið, og bæta fleiri og fleiri við án mótmæla. Ég ætla svo ekki að orðlengja frekar um þessa fyrstu gr., sem tekin hefir verið út úr frv., og þá skal ég ekki hafa fleiri orð til að svara meiri hl. fjhn., en víkja fáum orðum að því, sem vinur minn, hv. 6. þm. Reykv. (SK) ræddi um í þessu sambandi. Mér virtist hann tala mjög á annan veg en hann á venju til, því að hann er rökvís maður. En mér fannst honum fatast röksemdirnar mjög tilfinnanlega í þessari ræðu sinni, sérstaklega í sambandi við atvinnu og kaupgreiðslur hjá því opinbera og stofnunum ríkisins og hvarvetna á vegum þess. Það var helzt á honum að skilja, að það væru einhverjir fátækustu menn landsins, sem þarna ættu í hlut, og með þessu frv. ætti helzt að banna þeim að afla sér brauðs á eðlilegan hátt. En sannleikurinn er sá, að einmitt á þessu sviði er um þá menn að ræða, sem bezt eru settir, því að það er svo yfirleitt, að þeir, sem eru í föstum stöðum hér á landi, eru í þeim flokki manna í þjóðfélaginu, sem hafa bezta aðstöðu. Enda sannast þetta á því, að allir þeir uppvaxandi menn, sem einhvers eiga úrkosta, keppa eftir því, ef þeir hafa nokkra möguleika til með lánum eða á annan hátt, að tryggja sér að reyna að komast í þær stöður, sem hið opinbera hefir ráð á. En svo margir, sem í þessar stöður sækja, eru þeir þó víst ekki færri, sem virðast líta svo á, að margir þessara manna eigi mjög örðugt. Náttúrlega er aðstaða þeirra mjög misjöfn. En það er orðinn sægur af mönnum hér í þessum bæ, sem hafa ráðherralaun eða þar yfir. M. a. eru ekki færri en 30 menn hér á Alþ., sem eru svo vel settir. Ég verð að segja það, að þegar svo er komið, að með allskonar ráðum og aukagreiðslum fyrir verk, sem tilheyra ættu starfi þeirra, er búið að koma laununum þetta hátt, er ómögulegt að kalla það annað en spillingu, og þegar svo sumir berjast fyrir því að hækka tekjur manna, sem hafa beztu aðstöðu, jafnhliða því, sem vitað er, að fjöldi manna, bæði menntaðra og ómenntaðra, eru atvinnulausir eða atvinnulitlir, eru þessi mál komin á það stig í þjóðfélaginu, að erfitt er að hugsa sér, að mjög lengi verði við það unað.

Ég tel, að það sé ekki réttmætt að setja lög um þessi atriði, eins og þeir vita, sem fylgzt hafa áður með orðum mínum hér, fyrr en aðrar aðgerðir til bóta hafa verið þrautreyndar. Að tilhlutun fjvn. hafa verið gerðar nokkrar tilraunir í þá átt að fá þessum aukagreiðslum fyrir yfirvinnu og þess háttar að mestu leyti hætt. En það hefir sýnt sig, að þetta hefir ekki borið árangur, annaðhvort af því, að vilji hefir ekki verið fyrir hendi hjá hæstv. ríkisstj. til að breyta til um þetta atriði, eða þá að það hefir ekki verið nógu sterk viðleitni til þess að fá þeim vilja komið í framkvæmd.

Ég skal ekki hafa miklu fleiri orð um þetta; ég vildi aðeins segja það út af því, sem vinur minn, hv. 6. þm. Reykv., sagði um þessi efni, að mér finnst, að það stangist ákaflega við allt, sem hann hefir haldið fram undanfarið, sem sé, að það þurfi að skera niður útgjöld hjá ríkinu. Ef á að skera niður útgjöldin, nær það engri átt, að ekki sé réttmætt að skera niður aukalaun þeirra manna, sem eru í föstum stöðum, og koma því til vegar, að þessir ráðherralaunuðu menn haldi ekki áfram, eins og verið hefir á undanförnum árum, að hlaða slíkum tekjum utan um sig eins og sívaxandi snjókúla.

Það má segja um þessa gr., sem er 3. gr. frv., að hún ætti betur heima í launal. Það er satt, ný launal. þurfum við að fá sem allra fyrst, og það hefði átt að vera búið að setja þau fyrir löngu, en á meðan staðið er á móti því með öllum hugsanlegum ráðum, að koma á nokkurn veginn föstu og eðlilegu skipulagi á sviði launamálanna, verður ekki hægt annað fyrir þá, sem einhverja viðleitni vilja sýna í þá átt að breyta til í þessum efnum, en að reyna að fá fram samþykktir um hin einstöku atriði.

Þá skal ég víkja örfáum orðum að 5. gr. þessa frv., sem er um lækkun á afnotagjöldum útvarpsnotenda. Nú eru þrír hv. þm. búnir að halda ræður, og allir hafa þeir lýst sig andvíga því, að þessi lækkun yrði samþ. á þeim grundvelli, sem farið er fram á í frv., heldur yrði þá að taka fleira með. Ég skal játa það, að ég hefi ekki rannsakað til hlítar, hvernig ástæðurnar eru að þessu leyti, en ég veit það, að þó að erfiðleikarnir séu miklir fyrir sveitafólkið, er hefir rafhlöðutæki og verður oft og einatt að fara langa leið til að fá þau hlaðin, og hefir stundum lítil tök á því, þá eru líka margvíslegir erfiðleikar og kostnaður fyrir þá, sem hafa rafmagnstæki. Samkvæmt minni hugsun er það fullkomlega á sanngirni byggt, að þar sé gerður nokkur munur á. Það, sem ekki sízt má telja sanngjarnt, er að lækka afnotagjöld þeirra, sem í sveitum búa, vegna þess að í sveitum hér á landi, þar sem ekki eru komnar hleðslustöðvar, verða allir þeir, sem þar eiga hlut að máli, að verða af afnotum útvarps um lengri eða skemmri tíma, vegna þess að þeir geta ekki fengið tæki sín hlaðin. Það stafar oftast af vegalengdinni til rafhleðslustöðvanna, og stundum af öðrum orsökum, og einmitt þetta gerir það að verkum, að réttmætt er, að þarna sé gerður nokkur munur á, og raunar sjálfsögð sanngirni.

En svo er annað atriði, sem hv. 1. þm. Skagf. var að tala um í sambandi við það, hvort ríkisútvarpið mætti við því að verða af þessum tekjum. Það er atriði, sem alveg sérstaklega er ekki ólíklegt, að kunni að valda nokkrum útgjöldum, og auk þess þarf að taka til athugunar, hvernig farið er með það fé, sem útvarpið fær í sínar hendur. Ég held, að við getum nú a. m. k. flestir orðið sammála um, að það sé ekki svo vel á fé haldið hjá útvarpinu, hvorki af hálfu útvarpsráðs né heldur annara forráðamanna í þeirri stofnun ríkisins, að ekki sé fullkomlega réttmætt að fara fram á, að eitthvað verði sparað í þeim rekstri, enda hefir nú þegar verið samþ. hér í hv. Nd. sú stefna, að breyta nokkuð til í þá átt.

Hv. 1. þm. Skagf., sem eins og allir vita er í útvarpsráði, talaði um, að það væru mjög miklir erfiðleikar á því, ef ætti að minnka dagskrá útvarpsins, því að það gæti orðið til þess, að íslenzka útvarpsstöðin missti þá bylgjulengd, sem hún hefir nú. Ég fæ með engu móti komið því í minn skilning, að það hafi nokkur áhrif í þá átt, að útvarpið okkar tapi þeirri bylgjulengd, sem það hefir. Ég held, að þetta sé ekki annað en tylliástæða, en ekki ástæða, sem þörf sé fyrir þm. að taka til greina. Ég vildi þess vegna mega mælast til þess, þrátt fyrir alla þá meðferð, sem þetta frv. hefir fengið í hv. Ed., og raunar líka hér í hv. Nd., að þau litlu slitur, sem enn eru eftir af þessu frv., fengju þó að verða samþ. í þeirri mynd, sem þau liggja fyrir nú, án þess að verða pörtuð meira sundur.