03.04.1939
Neðri deild: 33. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í B-deild Alþingistíðinda. (283)

69. mál, gengisskráning og ráðstafanir í því sambandi

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það er ekki mikið, sem ég get sagt um þetta mál á 6 mín., af öllu því, sem ég vildi segja, en ég verð að sætta mig við það, því að ekki má tefja framgang málsins.

Hv. 5. þm. Reykv. (EOl) talaði um það hér í d., að af öllum þeim aðgerðum, sem kæmu til greina í þessu sambandi, hefði hin réttlátasta verið sú, að taka þau fyrirtæki til skiptameðferðar, sem ekki ættu fyrir skuldum. En þótt slíkt yrði gert, myndi það samt eiga sér stað eftir sem áður, að útgerðin yrði rekin með tapi, og slíkt getur ekki gengið til lengdar. Ég vil í þessu sambandi gefa þær upplýsingar, að ýmislegt hefir nú verið gert, aðallega af bönkunum; samið mun verða um, að þau fyrirtæki, sem ekki eiga fyrir skuldum, verði gerð upp, og að meðan á því stendur, verði þau rekin í „likvidation“, og verða þau þá rekin af stj., sem að mjög verulegu leyti verið skipuð af lánardrottnum þeirra. Þetta mun því verða til þess, að sá hagur, sem þessum fyrirtækjum kann að verða af gengislækkuninni, kemur þeim lánardrottnum til góða, sem hafa lánað þeim fé, og það myndi verða, þegar búið er að ráðstafa eignum þessara fyrirtækja til hlítar.

Ýmsir þm. hafa spurt að því, hvort sérstök gjaldeyrislántaka hafi verið ráðgerð í sambandi við þessar ráðstafanir. Eins og áður hefir verið skýrt frá hér á Alþ., hefir stj. þegar leitað fyrir sér um gjaldeyrislántöku, án þess að það hafi borið árangur enn sem komið er. Það væri ákaflega æskilegt, að um leið og breyt. á gengisskráningu íslenzkrar krónu er gerð, væri stofnaður varasjóður til þess að greiða verulegan hluta af hinum frosnu inneignum erlendis. Það myndi örva greiðslu á þeim vörum, sem til landsins flytjast, en þess er enginn kostur án lántöku, og um það verður ekki meira sagt eins og sakir standa nú.

En það er engin röksemd móti þessu frv., því að þetta frv., ef það verður að l., gerir það líklegt, að hægt verði að gera full skil í þessu efni, bæði vegna þess, að það örvar framleiðsluna, og líka af öðrum ástæðum, sem ég hefi ekki tíma til að rekja.

Hv. þm. Dal. (ÞBr) var nokkuð að tala um

stefnubreytingu hjá Framsfl. í sambandi við þetta frv., sem hér hefir verið borið fram. Hv. þm. Dal. hefir talað um, að íslenzka krónan væri skráð of hátt, og hann leggur mjög einhliða áherzlu á það, að krefjast réttlátrar gengisskráningar, sem sérstakt hagsmunamál landbúnaðarins. En Framsfl. bendir á það, að það er út af fyrir sig vafasamt, hvort gengislækkun er sérstakt hagsmunamál fyrir landbúnaðinn í heild sinni, og á þeim grundvelli hefir Framsfl. vísað málinu frá hér á Alþ. undanfarið. En hinsvegar höfum við framsóknarmenn alltaf um leið bent á gengislækkun sem eina af þeim leiðum, er kæmu til athugunar, ef stórfelldar hagsbætur yrði að gera fyrir útgerðina, og ef fjárhagsafkoma þjóðarinnar væri hætta búin. Þegar svo væri komið, yrði að nota öll úrræði til bjargar, og þá væri þetta sameiginlegt hagsmunamál allra landsmanna. Svo að segja allar þjóðir hafa einhvern tíma lækkað gengi peninga sinna, og þess vegna get ég óhikað mælt með því, að þessi leið verði farin. Við álítum, að nú verði að bjarga útgerðinni, og er það ástæðan til þess, að við berum þetta frv. fram og rökstyðjum það hér í dag. Við álitum, að núv. fjárhagsástand geti ekki gengið til lengdar.