04.04.1939
Neðri deild: 36. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í C-deild Alþingistíðinda. (2844)

43. mál, tekjuskattur og eignarskattur

*Frsm. minni hl. (Gísli Guðmundsson):

Ég vil taka fram, að þetta mál fékk í raun og veru ekki eðlilega afgreiðslu við 1. umr., þar sem því var vísað til sjútvn. Þetta mál hefði að sjálfsögðu átt að fara til fjhn., enda mun það hafa verið í henni á þingi áður, og afstaða hennar hefir verið sú, að mæla frv. í gegn. Niðurstaða sjútvn. hefir orðið sú, að meiri hl., hv. 6. þm. Reykv., hv. þm. Ak. og hv. þm. Ísaf., vill samþ. frv., en minni hl., hv. þm. Barð. og ég, hefir ekki getað fallizt á, að það yrði samþ.

Það, sem hér er um að ræða, er að taka út úr skattalögunum eitt atriði og láta alveg sérstök ákvæði gilda þar um. Það er frádráttur á framtali til skatts, sem hv. flm. vill breyta. Ég fyrir mitt leyti sé ekki annað en að ef þessum ákvæðum skattalaganna er breytt á þann hátt, sem hér er lagt til, þá verði óhjákvæmilegt að gera fleiri samskonar undantekningar, ef ekki ætti að fremja ranglæti gagnvart ýmsum öðrum mönnum og misívilna þeim.

En það, sem sérstaklega hefir ráðið því, að minni hl. leggur ekki til, að frv. verði samþ., er, að eins og kunnugt er, starfar nú mþn. í tolla- og skattamálum. Hún hefir þegar lokið öðrum aðalhluta verks síns, sem er tollalög. Hefir verið lagt fram frv. um ný tollalög, sem er hennar verk. Jafnframt hefir því verið lýst yfir, að n. starfi áfram að endurskoðun á skattalögum, og heildartillagna frá henni um það efni — heildarskattalaga — sé að vænta e. t. v. áður en þessu þingi lýkur, og a. m. k. fyrir næsta þing. Við, sem erum í minni hl., sjáum því ekki neina nauðsyn eða neitt, sem réttlæti að taka þetta atriði út úr og setja um það sérstök l., einmitt þegar væntanlegar eru heildartill. frá mþn. í skattamálum. Við leggjum því til, að frv. verði afgr. með rökst. dagskrá, þar sem eðlilegt verður að teljast, að mþn. taki málið til athugunar. Vænti ég, að hv. d. fallist á, að þetta sé eðlilegasta afgreiðsla málsins og sú eina, sem frambærileg er fyrir þingið eins og sakir standa.